föstudagur, desember 23, 2005

Þorláksmessuhugleiðingar

Jólin í ár hafa á einhvern hátt farið algerlega fram hjá mér. Mér finnst alltaf skrýtið þegar Þorláksmessa rennur upp og einn dagur er til jóla. Í ár er það enn skrýtnara. Mér finnst jólin alltaf vera langt framundan þó þau hefjist á morgun.
Ég hef ekki farið mikið í bæinn fyrir jólin nema í dag. Þá fór ég að syngja með MR-kórnumn á nokkrum stöðum niður í bæ. Það er alltaf stemming í bænum á Þorláksmessu og þess vegna gaman að syngja þar jólalög. Einnig fór ég í friðargöngu en fyrir mér er það ómissandi þáttur á Þorláksmessu. Svo erum við nýbúin að skreyta jólatréið.
Ég er því núna farinn að gera mér grein fyrir því að það er ansi stutt í jólin.

föstudagur, desember 02, 2005

Jóladagatalið


Það hefur verið hefð í fjölskyldunni síðan ég man eftir mér, að setja upp jóladagatal (sjá mynd til vinstri) þar sem 24 pokar, einn fyrir hvern dag fram að jólum, eru látnir hanga og mamma eða pabbi laumar einhverju sætu í pokanna handa okkur systkinunum. Í gamla daga stilltum við Nanna og Bjarki okkur upp fyrir framan dagatalið og tókum spennt upp úr pokunum. Það hefur lítið farið fyrir þessari hefð undanfarin ár enda erum við orðin eldri og Bjarki fluttur að heiman. Dagatalið hefur þó alltaf verið til staðar og höfum við Nanna tekið upp úr pokunum þegar okkur hentar þó að hinn aðilinn sé ekki viðstaddur.



Mamma vill ólm halda í hefðina og sagði við mig um daginn að nú væri kominn tími á að setja upp jóladagatalið. Ég benti henni á að þessi hefð væri deyjandi. Hún ákvað því að við skyldum öll taka upp úr pokunum saman eins og í gamla
daga. Hún hefur m.a.s. bryddað upp á þeirri nýjung að láta spurningar fylgja með. Þá fáum við Nanna hvor okkar spurningu. Spurningin sem Nanna fékk var svona:
"Jónas Hallgrímsson, Tómas Sæmundsson og Konráð Pétursson. Hvern vantar í þennan hóp?"

Eins og glöggir menn taka eftir þá passar Konráð Pétursson ekki inn í þennan hóp. Þarna hefði auðvitað átt að standa Konráð Gíslason (eða Brynjólfur Pétursson). Þannig að Nanna gat auvitað ekki svarað þessu. Ég benti mömmu á þessa vitleysu. Þá játaði hún að hafa ekki samið þessar spurningar. Þetta var víst spurning úr forprófi fyrir Meistarann, nýja spurnangaþáttinn hans Loga Bergmanns Eiðssonar. Forprófið hafði verið skilið eftir í Hagaskóla, þar sem mammaa vinnur, en þar var forprófið haldið. Þaðan má rekja þessa villu. Annars held ég að Nanna sé ekkert allt of hrifin af þessari nýjung.

Þessi hefð lifir þó enn og Bjarki kemur heim 17. des. og mun taka upp úr pokunum með okkur þá. Það eru líka fleiri hefðir í kringum jólin eins og laufabrauðagerð, sem enn lifa. Hefðirnar lifa enn.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Óreiða

Ég held að óreiða sé náttúrulegt ástand herbergisins míns.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Nýr spyrill

Það víst búið að ráða Sigmar Guðmundsson sem spyril í Gettu betur. Mér líst bara ágætlega á hann. Ég hefði nú samt alveg viljað sjá konu sem spyril og karlkyns stigavörð, svona til tilbreytingar.

föstudagur, október 28, 2005

Óður til hinna týndu hluta.

Það er alltaf einhver hlutur týndur. Núna er það veskið. Auk þess gleymdi ég húfu í Verslunarskólanum á MR-ví deginum (reyndar er það svolítið langt síðan).

Ég er viss um að þetta var hér allt í gær!

laugardagur, október 08, 2005

Án titils

Stundum getur verið of auðvelt að plata mig í einhverja vitleysu.

laugardagur, september 24, 2005

Án titils

Það er alveg ótrúlegt hvað sum lög, notuð til tungumálakennslu, geta síast inn í heilann til skamms tíma, hvort sem þau eru góð eða léleg.

Án titils

Hversu oft skyldi ég hafa heyrt þessa spurningu hljóma (aðallega frá stúlkum): "Hva, manstu ekki mér?"

miðvikudagur, september 07, 2005

Húrra, húrra, húrra!

Davíð er að hætta!

Forprófið 2

Í dag voru niðurstöður forprófsins birtar í Gamla skóla. Ég varð alveg steinhissa þegar ég sá nafn mitt efst á listanum með 168 stig, eða 8 stigum á undan næsta manni. Ég hélt í fyrstu að þetta væri eitthvert busagrín og er enn að velta því fyrir mér. Ég átti sko alls ekki von á þessu og eins og þið, lesendur vitið þá var ég mjög svartsýnn í gær. Nú er spurning hvort að þetta þýði endanlega að ég hætti í handboltanum en ég hef verið að gefa það í skyn að undanförnu. En ég ætla ekki að vera að ákveða það núna.

þriðjudagur, september 06, 2005

Forprófið

Í dag gerði ég heiðarlega tilraun til að komast í lið MR í Gettu-betur. Stefnan var sett á liðsstjórasætið. Mér gekk sæmilega á prófinu en ég er þó ekkert viss um það hvort ég nái takmarki mínu en lifi í vonini. Ég klikkaði á sumum hlutum sem ég átti hreinlega að vita. Ég verð bara að gera betur næst.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

MR-kórinn

Ég reyndi fyrir mér í söng í dag þar sem prufur í MR-kórinn fóru fram. Þegar ég kom inn hafði ég ekki hugmynd um hvað ég væri að gera þarna syngjandi "mo-mo-mo". Ég náði tónunum ekkert allt of vel og datt m.a.s út um tíma. Þá sagði hann bara að ég væri góður bassi og ég á að mæta á mánudaginn.
Mun ég standa undir væntingum?

laugardagur, ágúst 27, 2005

Bandaríkin og SÞ

Eiga Bandaríkin heima í SÞ? Maður spyr sig.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Fyrsta vikan

Þá er fyrsta vikan í MR liðin. Hún hefur liðið bara mjög hratt enda gaman í MR. Það er ágætt að vera alltaf í sömu litlu stofunni. Ég er aðeins farinn að kynnast bekkjarsystkinum mínum og við Sindri erum þegar byrjaðir í kosningaslag um embætti bekkjarráðsmanns 3-A.
Félagsaðstaðan er lokuð. Ekki alveg draumabyrjun þar en það lagast. Einnig finnst mér ágæt úti stemmingin sem myndast gjarnan á portinu á milli Íþöku og íþróttahúsins.
Busakynningin var ágæt. Ég slapp reyndar við að vera tekinn upp á svið. Ég þurfti ekki einu sinni að segja "heyjó". Svo er það bara busadagur framundan. Það verður bara nokkuð gaman.
Svo er ég að í huga að ganga í MR-kórinn eftir að hafa heillast af flutningi hans á Bohemian Rapsody á skólasetninguni. En það stangast á við handboltann. Hvað á ég að gera?
Það eru góðir tímar framundan.

Og fyrir þá sem kvarta yfir spillinum um Harry Potter, ég varaði ykkur við.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

X-V í staðinn fyrir R

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að R-listinn úr sögunni. Eins og menn vita vorum það við Vinstri-græn sem tókum af skarið og ákváðum að fara í sérframboð. Sumir vilja kenna okkur um að hafa kálað R-listanum og aðrir segja að við hafi málað okkur út í horn. R-listinn er orðið dautt stjórnmálaafl og flokkarnir hættir að ná saman. Einhver að taka af skarið og slíta þessu endanlega. Ég hef alveg trú á því að VG verði áfram við stjórn sama hvað aðrir segja. Það er hægt að byrja kosningabaráttuna með því að losa okkur við allar mýturnar.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Bókagagnrýni

Eftir gott sumarfrí frá blogginu hef ég ákveðið að snúa aftur með smá bókagagnrýni. Bókin er Harry Potter and the half-blood prince.

Í þessari sjöttu bók um Harry Potter fær hann námsbók í töfradrykkjum sem hinn dularfulli blendingsprins átti, Prinsinn hefur skrifað uppskriftir og galdra í bókina, Harry til mikillar lukku - og vandræða. Á sama tíma grunar hann Draco Malfoy um eitthvað ráðabrugg og skyggnist inn í fortíð Voldemorts.

Varúð:spillir hérna
Mér finnst bókin vera nokkuð svipuð og næsta á undan henni. Í upphafi er býst maður við mikilli spennu en svo tekur við frásögn um daglegt líf Harrys og ekkert spennandi gerist fyrr en í síðustu köflunum. En síðustu kaflarnir voru þó spennandi. Nú kemur spillir. Snape drepur Dumbledore. Það hefur gríðarlega mikið að segja fyrir bækurnar enda Dumbledore ein mikilvægasta persóna bókanna og nú veit maður loksins hvort Snape er góður eða vondur. En í heildina séð ekkert sérstök. Bókin er þó aðeins styttri sem er ágætt enda enginn þörf að skrifa svo lngar bækur ef það gerist ekki mikið í þeim.
Nú ætlast ég hreinlega til þess að Rowling bæti upp fyrir síðustu tvær bækur og klári þessa bókaröð almennilega.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sumarið er gúrkutíð... eða nær oftast

Það gerist á sumrin að skrif á þessa síðu minnka stórlega. Af hverju? Jú, það gerist bara svo lítið frásagnahæft þá og ekki er mikið í fréttunum.
Því miður hafa hryðjuverkamenn séð fjölmiðlum fyrir nóg af efni með andstyggilegri árás á saklaust fólk sem aldrei gerði þeim mein. Bush og félagar sögðu líka að heimurinn væri öruggari eftir Íraksstríðið. Hver trúði því svo sem.

Það kom mér ekki á óvart þegar ég heyrði í fréttum að landamæragæsla væri hert. Ástæðan kom mér hins vegar á óvart. Að það skuli vera gert af ótta við mótmælendur sem vilja mótmæla mestu skemmdarverkum Íslandssögunnar. Ég stoppaði aðeins við mótmælabúðirnar um daginn. Það var heldur lítið að gerast enda var stór hópur af fólki nýfarinn. Ég vildi gista þarna en Pabbi og vinur hans sem ég ferðaðist með vildu það ekki. Ég skil heldur ekki þær áhyggjur lögreglunnar af því að á SavingIceland.org er fólk hvatt til að koma og mótmæla. Það er bara hluti af baráttu að fá fólk til að koma og sýna samstöðu með málefninu. Það skaðar heldur ekki að fá fleiri mótmælendur, jafnvel þó þeir séu anarkistar (þeir gera nú ekki mikið af sér í auðninni). Annars tel ég anarkista ekki líklegasta hópinn til að koma og mótmæla.
En löggan er þó ekki enn búinn að handtaka neinn og vísa burt vegna mótmæla. Það er gott

Annars var hálendisferðin bara ágæt. Við gengum m.a. á Snæfell, hæsta fjallið utan Vatnajökuls og ég fékk að keyra nokkuð mikið enda kominn með æfingaleyfi. Svo mun ég vera á Flúðum næstu vikuna og mun ég vinna eitthvað í garðyrkju þar áður en ég sný aftur til vinnu í Neskirkju.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Kominn heim.

Þá er maður kominn aftur heim til Íslands. Ég var farinn að sakna landsins. Granollers er ekki skemmtilegur bær. Þegar maður var ekki að spila handbolta var mjög lítið að gerast. Við kepptum 5 leiki á mótinu. Við byrjuðum á því að gera dramatískt jafntefli á móti Visoko frá Bosníu þegar Ægir skoraði frá miðju á síðustu sek. Svo töpuðum á móti spænsku liði, unnum tvö spænsk og töpuðum síðan á móti Herulf frá Noregi og komust ekki upp úr riðilinum. Þegar mótið var búið fórum við í skemmtigarð og svo til bæjarins Calella þar sem við dvöldum síðustu daga. Einnig var farið til Barcelona einn daginn en það olli mér hins vegar vonbrigðum að geta ekki skoðað Sagrada Familia-kirkjuna. Það þýðir að ég þarf að koma aftur til Barcelona einhvern tíman seinna.

Í heildina litið er finnst mér ekki gaman að fara í keppnisferð til Spánar. Spánn er áhugavert land en maður er of bundinn af hópnum. Svo er líka allt of heitt þar. Frekar vil ég fara til Danmerkur eða Svíþjóðar. Ef ég er spurður hvort ég vilji fara aftur í keppnisferð til útlanda þá myndi ég segja nei. Frekar vil ég fara til útlanda á eigin vegum.
Hér er svo ferðasaga frá Arnari þjálfara

Ég er reyndar nokkuð svekktur yfir því að hafa misst af brúðkaupi Nönnu, frænku minnar sem var haldið í Viðey. Sérstaklega þegar ég las umfjöllun frá Frank. En stundum verð ég að fórna einhverju.

laugardagur, júní 11, 2005

Aftur til jarðar?

Í dag barði vottur Jehóva á dyr hjá mér. Hann virtist mjög áhugasamur um dauðann og upprisuna. Hann spurði mig hvort ég trúði því að ástvinir gætu snúið aftur á jörðina og fór svo að tala um það dáið fólk gæti snúið aftur til jarðnesks lífs. Svo gaf hann mér tímarit votta Jehóva, Varðturninn.
Í blaðinu voru þessar hugmyndir kynntar. Þetta voru um 30 bls. og verð ég að viðurkenna að stundum skildi ég ekki alveg hvað þeir voru að fara. Dæmi úr biblíunni voru mjög áberandi.

Ég hef lítið út á þá að setja. Mér finnst ekkert að því að þeir banki upp á hjá fólki. Það er bara þeirra aðferð til að boða trúna. En ég get ekki sagt að ég sé sammála þeim. Ég er sáttur við trúarskoðanir minnar kirkju.

Svo langaði mig að koma með könnun þrátt fyrir að hafa fengið dræmar undirtektir síðast þegar ég setti kannanir inn.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Ekki lengur Hagskælingur!

Þá er ég loksins útskrifaður úr grunnskóla. Fyrir þetta tímabil setti ég mér tvö markmið.
  1. Að ná 9 eða hærra á samræmdu prófunum. Því miður náði ég því markmiði ekki þar sem ég fékk 8,8 í meðaleinkunn. Það var enskan sem dróg mig niður en ég fékk 7,5 þar. Það var hlustunin sem dróg mig niður þar sem ég var hálf sofandi og athyglisgáfan ekki í lagi. Hins vegar fékk ég 10 í stærðfræði og er mjög sáttur við það. En ég mun komast í MR og það skiptir mestu máli.
  2. Að vinna Nema hvað?. Markmiðið náðist. Við unnum keppnina eftir að hafa lagt Laugarlækjarskóla, Húsaskóla, Landakotsskóla (tvisvar) og Austarbæjarskóla að velli. Þórður Sævar og Hafsteinn sátu við hlið mér í liðinu og Ari Bragi og Sindri sáu um ræðurnar. Ekki má svo gleyma Ara Eldjárn og Helga Hrafni sem þjálfuðu okkur í ár og stóðu sig með prýði.
Ég var að spá í að rita Hagaskólaannál hér en hætti svo við. Í raun gerðist lítið hjá mér fyrir utan NH. En þessu lauk nú öllu saman með þessari útskrift í dag sem var bara ágæt.

Nú tekur framhaldsskólinn við. Ég er löngu búinn að sækja um í MR og hlakka bara til að byrja í honum. Ég stefni að því að taka þátt í Gettu betur einhvern tímann í framhaldsskóla og er NH góður undirbúningur.

Nú er maður ekki lengur Hagskælingur. Bara fyrrverandi Hagskælingur

mánudagur, júní 06, 2005

Stígvélland

Rakst á áhugaverða grein á Djöflaeyjunni í dag. Hún fjallar um klikkaðan Belga sem vill útrýma tökuorðum út úr íslenskunni. Sum orðin eru ágæt, önnur ekki eins skemmtileg og enn önnur mjög skopleg. Dæmi: Ítalía nefnist Stígvélland. Framvegis ætla ég að nota það orð hér á vefdagbókinni minni. Þó að hann sé svolítið klikkaður er það samt gaman þegar útlendingar sýna málinu áhuga og vilja bæta það.

laugardagur, júní 04, 2005

Stars Wars: 3. kafli

Ég var að sjá síðustu Star Wars myndina, Revenge of tthe sith. Í umfjöllun minni hér á eftir gæti ég spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina.

Mér fannst myndin fara full geyst af stað. Hún byrjaði á full miklum hasar sem að mínu mati var óþarfur. Atriðið snerist um að frelsa Palpatine kanslara og það tókst, meira að segja var Dooku greifi veginn sem að vísu þjónaði sínum tilgangi. Þeir hefðu alveg geta sleppt atriðinu og látið greifann deyja í 2. kafla.
Eftir þennan endalausa hasar í byrjar svo sagan að ganga. Kastljósið beinist að Anakin Skywalker sem er stútfullur af tilfinningum. Á meðan gerist hann dyggur aðstoðarmaður kanslarans, sem er auðvitað Sith-meistarinn Darth Sidious, sem snýr honum gegn Jedi-riddurunum og býður honum mátt til að bjarga Padmé, heitelsaðri eiginkonu hans, frá Dauðanum.
Fyrri hlutinn finnst mér heldur langdreginn og ber mikinn keim af kafla 2 þar sem tilfanningasveiflur Anakins eru ráðandi. Yfir höfuð er hann ekki neitt sérstakur. Seinni hlutinn er hins vegar mun betri.

Myndin tekur stefnubreytingu þegar Anakin gengst Sidious endanlega á vald. Þá byrjar sagan að ganga og tengja nýju myndirnar við þær gömlu. Kanslarinn tekur endanlega yfir Lýðveldið og gerir það að keisaraveldi. Næst losar hann sig við alla Jedi-riddarana. Sú sena er dramatísk og aftökurnar minntu sumar á aftökur nasista á gyðingum á götum gettóa. Anakin verður endalega að illmenni og drepur síðan ástina sína með illskunni sem hann ætlaði að nota til að bjarga henni. Það er hins vegar gaman að sjá hvernig hann tekur endanlega á sig mynd Svarthöfða eftir að hafa brunnið illa í bardaga við Obi-Van Kenobi.
Þessi seinni hluti myndarinnar er bara nokkuð ágætur.

Í heildina séð er þessi mynd mun betri en kafli 1 og 2. En hún stendur gömlu myndunum langt að baki. Nýju myndirnar geta einfaldlega ekki keppt við þær gömlu. Þær gömlu eru einfaldari og minna um tilfinningaflækjur. Sagan fær virkilega að njóta sín og myndirnar eru ekki ofhlaðnar tæknibrellum. Bardagaatriðin eru ekki ofhlaðin leysigeislum. Svo hafa gömlu myndirnar líka betri húmor. Í þessari mynd var lítill húmor, jafnvel áður enn Jedi-slátrunin hófst. C-3PO og R2D2 voru þarna en fengu lítið að njóta sín. Það var líka gaman að sjá Chewbacca aftur þó hann fengi síður að njóta sín (enda enginn Han Solo með honum).

Ég verð reyndar að viðurkenna það að þessar myndir eru líka mikilvægar fyrir söguna í heild sinni. Það vantar bara ódauðleikann frá gömlu myndunum.

sunnudagur, maí 29, 2005

Án titils

Barátta menntaskólanna um mig harðnar stöðugt. Nýjasta tilboðið er frá MH-ingi og mun ég fá dóp kjósi ég að fara í MH. Nú er bara spurning hvað verslingar geri til að toppa það. En ég breyti umsókninni ekki þrátt fyrir það.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Rafræn umsókn.

Þá er ég búinn að sækja um framhaldsskóla. Ég gerði heiðarlega tilraun til þess í gær en þetta kerfi var eitthvað gallað. Þá hringdi ég í menntamálaráðuneytið og gerði athugasemd. Ég var greinilega sá fyrsti sem gerði athugasemd. Þeir sögðust hafa fullreynt þetta kerfi. Þá ályktaði ég að þetta kerfi væri ekki forritað fyrir Firefox. Enn eitt óþolandi dæmi þar sem ekki er tekið tillit til minnihlutans. En ég gekk frá þessu í dag á skrifsto móður minnar. Það kemur fæstum á óvart að ég sótti um inngöngu í MR. Ég sótti um málabraut og náttúrufræðibraut til vara og frönsku sem þriðja mál. MH hafði ég sem varaskóla og sótti ég þar um félagsfræðibraut en málabraut til vara og svo rússnesku sem þriðja mál. Ég hlakka bara nokkuð mikið til að byrja í MR.

laugardagur, maí 21, 2005

Án titils

Ef þú spyrð Dorit þá hjálpar Ólafur viðskiptalífinu til þess að...

laugardagur, maí 14, 2005

Gamli góði Hreppurinn

Það er alltaf jafn yndislegt að koma í gamla góða Hrunamannahreppinn til að slaka á. Ég ákvað að halda þangað með foreldrum mínum þar sem næsta próf er ekki fyrr en á þriðjudag. Ég sakna alltaf gömlu góðu daganna þegar ég hljóp um hóla og hæðir á jörð Hruna og stríddi kindunum og hænunum inn á milli.

Hrunakirkja í allri sinni dýrð.
Því miður sést ekki í húsið sem ég bjó í en ég ætla að reyna að finna betri mynd

föstudagur, maí 13, 2005

Ég er græningi!

Ég ákvað að taka þetta próf bara til gamans.


You scored as Green. <'Imunimaginative's Deviantart Page'>

Green


100%

Democrat


92%

Socialist


92%

Anarchism


67%

Communism


58%

Nazi


17%

Fascism


8%

Republican


0%

What Political Party Do Your Beliefs Put You In?
created with QuizFarm.com


Niðurstöðurnar koma mér ekki mikið á óvart. Ég veit reyndar ekki hversu marktækar þær eru þar sem ég skildi ekki allar spurningarnar. Eitt kom mér reyndar á óvart. Það er hvað demókratar eru ofarlega á lista.

Sitt af hverju tagi

Nú er ég búinn að þreyta fjögur samræmd próf. Mér hefur gengið ágætlega. Ég get ekki staðist það að blogga núna. Það er erfitt að vera í bloggbindindi þegar eitthvað frásagnarhæft gerist. Samræmdu prófin hafa vakið einhverjar óánægju raddir eins og venjulega. Núna fyrir ritun í íslensku sem þótti of pólitísk. Mér fannst það ágætt að geta komið skoðunum mínum á framfæri. Ritunin snerist um að taka afstöðu með eða á móti styttingu framhaldsskólanna. Ég tók auðvitað afstöðu gegn styttingunni.


En svo hefur ýmislegt gerst út í samfélaginu. Gunnar Örlygsson hefur yfirgefið frjálslynda flokkin og gengið til liðs við sjálfstæðismenn. Mér finnst þetta vera nokkuð asnalegt. Sjálfstæðisflokkurinn fær þarna aukaþingsæti frá kjósendum frjálslyndra. Það eru ekki margir gallar á lýðræðinu okkar en þetta er einn slíkur. Það ætti að breyta lögunum þannig að þingsæti tilheyri flokkum en ekki einstaklingum því það eru flokkarnir fólkið kýs.

Svo kom út nýtt blað sem fékk nafnið "Blaðið". Ég hef verið að skoða þetta blað og mér finnst það hálf innihaldslaust. Auglýsingar skipa mjög stóran sess í blaðinu. Inn á milli er litlum fréttum og örðum greinum, oft með myndum sem taka meira pláss, troðið inn. Blaðið er auglýst sem frjálst og óháð blað og sést það vel enda alls engin þjóðfélagsumræða í því. Svo er þeir heldur seinir með fréttirnar sem er furðulegt því blaðið berst heim til manns með póstinum um miðjan dag Ég hef þó tekið eftir einu. Á dagskrársíðum blaðsins eru bloggfærslur um sjónvarp birtar. Ég er sem betur fer óhultur því að þeir taka bara niður af blog.central.is síðum. Í heildina séð: Lélegt blað.

Nú ætla ég að hugsa um það sem er framundan. Það er svo margt til að hlakka til.

laugardagur, maí 07, 2005

Der Untergang

Ég var að sjá hina átakanlegu mynd "Der Untergang" áðan. Myndin fjallar um síðustu daga Hitlers í neðarjarðarbyrginu og ástandið þar og á götunum í Berlín. Myndin er bara mjög góð og átakanleg, ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég á að segja yfir höfuð.

Ég á það til að vorkenna hinum mestu illmennum. Um tíma fann ég til með Hitler þegar honum leið illa (dæmið mig bara) en ekki lengi þar sem Hitler var alveg snauður af miskunasemi og samúðarkennd. Ég hef aldrei séð mynd frá hans sjónarhorni (The Great dictator er ekki talinn með þar sem hún sýnir óraunveralega en þó skemmtilega mynd af Hitler). Ég fór í byrjun að velta því fyrir mér hvort það leyndist eitthvað gott undir þessu illmenni, eftir allt þá var hann einu sinni saklaust barn. Eftir því sem leið á myndina sá ég að svo var ekki. Hugmyndafræði hans var hrein illska. Um helförina vita allir. Svo er það líka það hugarfar að gefast ekki upp í vonlausri stöðu þrátt fyrir að fleiri saklausir borgarar myndu deyja, réttlæta það með því að segja að þeir væru aumingjar og ásaka þá sem vildu gefast upp, um landráð. Það var heldur engin sorg þegar hann drap sig. Vogið ykkur ekki að halda að ég líti upp til hans hafi það verið einhver vafi.

Svo var það fólkið í kring um hann. Sumt af því sýndi mikla hollustu við hann. Eva Braun var honum alltaf hundtrygg og dó með honum eins og menn vita. Svo var það frú Goebbels með öll sín saklausu börn sem dýrkuðu "Hitler frænda" án þess að vita um illsku hans. Ég vorkenndi þeim svo mikið, á því leikur enginn vafi. Þegar nasisminn var að hrynja áttu þau ekki að fá að lifa bjarta framtíð án hans. Þess vegna drap hún börnin með blásýru þegar þau sváfu.

En svo eru það auðvitað óbreyttu borgararnir sem þurfa að upplifa helvítið á götunum. Og auðvitað var Hitler sama um þau. Stríð er bara helvíti á jörðu og ég skil ekki hvernig mönnum dettur í hug að vera að heyja stríð hvor við annan. Það vita líka allir að enginn vinnur í stríði, það tapa allir.

Það er svo margt sem ég get sagt um þessa mynd og örugglega eitthvað sem vantar. Ef það eru einhverjar villur í þessum pistli þá leiðréttið þið mig bara. Reyndar verð ég ekki mikið á netinu á næstunni út af prófunum og veit því ekki hvort ég geti svarað öllum athugasemdum. Svo má líka vel vera að pistillinn verði mistúlkaður. Það verður þá bara að hafa það.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Ég á enn afmæli !

Mér finnst skrýtið að af öllum dögum ársins þá er afmælisdagurinn minn í dag. Og áður en ég veit af, þá er hann liðinn. Annars eru afmælisdagar ekki jafn skemmtilegir og þegar maður var lítill. Í raun eru þeir eins og hver annar dagur þegar maður er orðinn 16 ára (eða 21 árs).

Ég á afmæli í dag.

Ég er víst aðeins eldri en ég ætlaði mér. Ég á nú bara að vera 16 ára.





You Are 21 Years Old



21





Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.


laugardagur, apríl 23, 2005

Haffi frumkvöðull

Haffi er núna kominn með útvarpsblogg. Eitthvað sem ég hef ekki séð áður á netinu. Það má segja að hann sé frumkvöðull. Endilega kíkið á síðuna.

Plant með klukkutíma fyrirvara

Kl. 19:00 í gærkvöldi var ég farinn að sjá svolítið eftir því að hafa ekki nælt mér í miða á Robert Plant. Þá fékk ég óvænt boðsmiða á tónleikana. Helga, frænka mín vinnur á Þingvöllum og hitti Plant og hljómsveit hans er þeir heimsóttu staðinn. Helga fékk svo boðsmiðana og einhvern bláan "after show" miða. Svo var haldið á tónleikana ásamt mömmu, Helgu og Bíbí, dóttur hennar. Tónleikarnir voru ágætir. Ég var reyndar ekki að búast við miklu enda er þetta nú ekki Led Zeppelin. Hann tók lög frá sólóferli sínum í bland við gömul Led Zeppelin lög. Ég hafði mest gaman að indí-ballöðunum. Svo voru rokklögin líka góð. Það var reyndar eitt sem kom mér á óvart. Ske hitaði upp. Annars var fátt sem kom mér á óvart enda vissi ég ekki á hverju ég ætti von. Það eina sem ég bjóst við var að hann tæki "Innflytjendasönginn" sem hann gerði (að vísu í rólegri útgáfu en venjulega). Eftir að tónleikunum var lokið fórum við að hitta Plant. Við fórum inn í eitthvað herbergi þar sem hann var ásamt fleiru fólki. Svo ætlaði einhver íslenskur karl að reka mig, mömmu og Bíbí út. Þegar við vorum á leiðinni út kom einhver annar karl sem var með Plant og sagði eitthvað í þessa áttina: "Wait, these people are with Helga." Og við fengum að koma aftur inn. Svo hitti ég Plant og tók í höndina á honum. Já, ég er ekki að ljúga, ég tók í höndina á Robert Plant. Ég er í sjöunda himni. Kvöldið var fullkomið.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Báráttunni er ekki lokið

Ég gladdist mikið þegar ég frétti um hóp breskra umhverfissinna sem eru að skipuleggja alþjóðleg mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun. Þeir reka síðuna www.savingiceland.org. Þeir hafa mikinn áhuga á íslenskri náttúru ólíkt mörgum Íslendingum sem eru blindari en nýfæddir kettlingar fyrir náttúrunni. Þeim er líka annt um ímynd Íslands sem ríkisstjórnin gerir sitt besta til að spilla. Ég hvet ykkur til að kíkja á síðuna.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Benedikt 16

Þá eru kardinálarnir búnir að velja sér nýjan páfa. Mér líst ekkert allt of vel á hann. Hann er of íhaldssamaur. Nokkur dæmi
  • Afstaðan gegn samkynhneigðum. Hvað er að hommum og lesbíum? Samkynhneigðir eru líka fólk.
  • Afstaðan gegn getnaðarvörnum. HIV, þarf ég að nefna meira til að sýna að þessi afstaða er rugl
  • Afstaðan gegn því að konur fái að vera prestar. Bara eitthvað rugl sem kaþólska kirkjan tók upp á tímum þar sem konur voru kúgaðar og hefur ekkert að gera með biblíuna.
  • Afstaðan gegn öðrum kristnum trúfélögum. Hann heldur að kaþólska kirkjan sé eitthvað æðri en aðrar.
  • Afstaðan gegn rokktónlist. Á karlinn sér líf? Rokktónlist er góð tónlist Hann ætti að sjá Jesus Christ Superstar.
  • Hann vill sporna gegn fækkun í kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Það er bara fyndið.
Ekki myndi ég nenna að vera páfi. Það hlýtur að vera leiðinlegt starf.
En eftir allt þá er páfinn bara venjulegur maður þó sumir haldi að hann sé eitthvað meira.

mánudagur, apríl 18, 2005

Án titils

Fréttablaðið vitnaði í mig í dag. þeir tóku brot úr pistli mínum um heimsóknina í Versló og birtu í einni frétinni. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem þeir vitna í mig. Þeir tóku einnig brot úr grein minni um kennaraverkfallið sem ég skrifaði á vinstri.is í september. Já, fréttablaðið er greinilega eitthvað hrifið af mér.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Getraun.


Hvar á landinu er þessi mynd tekin?

Ég ætla í MR!

Vildi bara taka það skýrt fram hafi einhverjir haldið annað eftir síðasta pistil.

föstudagur, apríl 15, 2005

Verslókynning 2

Undanfarna daga hef ég mikið bloggað um framhaldsskóla. Ég ætla að halda því áfram hér. Tilefnið er heimsókn í Verslunarskóla Íslands og vegum Gettu-betur liðsins þar (bæði liðsmenn og þjálfarar). Það er margt sem hægt er að segja um þá heimsókn. T.d. þá erum við komnir með verndarengil í Versló, hann Stefán Einar.

Okkur strákunum úr Nema hvað liðinu var boðið í heimsókn í Versló ásamt strákunum úr Laugarlækjarskóla. Eins og lesendur hafa tekið eftir, þá hef ég verið mjög yfirlýsingaglaður og neikvæður í garð Versló. En þeir hringdu í Hagaskóla og ég talaði svo við einn þeirra sem vildi fá okkur og sagði hann mér að svarnir óvinir okkar yrðu þarna (ég vissi ekkert um hvað hann var að tala um).

En þá að kynningunni. Við byrjuðum á því að skoða bókasafnið og hittum þar Steinunni á bókasafninu sem er kona Einars skólastjóra. Þar hefur liðið einmitt góða aðstöðu enda bókasafnið glæsilegt.
Eftir það fórum við í græna salinn. Við fengum ágæta fræðslu um námið þar frá námsráðgjafanum og nóg af lesefni. Svo byrjuðu strákarnir að tala um gettu betur. Þeir buðu okkur upp á flatbökur og þær voru vel þegnar enda var ég banhungraður. Þeir eru mjög metnaðaðarfullir í gettu betur og gera allt til að fá okkur í Versló. Þeir buðu okkur gull og græna skóga. Má nefna skólagjalda- og einingaafslátt. Einnig töluðu þeir um það hvað við yrðum valdamiklir og öruggir í Versló og jafnvel æðri en aðrir("þið verðið ekki almennir 3.bekkingar"). Þeir hafa greinilega mjög góð tengsl við skólastjórnina.
Það sást alveg á þeim hverjir voru keppinautarnir. Það voru MR. Þeir skutu mest á hann og töluðu þeir eins og þeir væru hættir að geta eitthvað í GB. Einnig skynjaði ég smá hroka í garð allra hinna menntaskólanna (MR ekki meðtalinn) og mátti túlka að þeir væru eitthvað verri .Þer töluðu líka eins og þeir hefðu unnið keppnina 11 ár í röð og væru langbestir og að enginn annar skóli gæti unnið keppnina. En þrátt fyrir allt voru þeir ósköp vingjarnlegir, þeir vilja okkur vel og við náðum ágætlega saman yfir flatbökumáltíðinni.

Einn þeirra var þó áberandi leiðtoginn í hópnum, það var hann Stefán Einar. Hann er mjög staðfastur og einnig ögrandi. Það fór hins vegar í taugarnar á mér hvað hann var mikil karlremba. En talaði eins og stelpur gætu ekki tekið þátt í spurningakeppnum en bjargaði sér þó fyrir horn með því að segja að þær væru of samviskusamar í náminu sem er ekkert slæmt. Svo var það karlrembuhúmorinn. Hann talaði eins og ljóskur í Versló væru sjálfsagður hlutur handa okkur og einnig talaði hann um þær sem druslur eftir að ég hafði talað um druslur sem lélegar sjálfrennireiðar. Ég vona að stúlkur í Versló láti þetta ekki ganga yfir sig.
En það er einnig margt gott í fari hans. Hann veit auðvitað mjög mikið og sérstaklega fróður um guðfræðina. Hann spurði okkur hver yrði næsti páfi. Ég bjargaði mér með því að segja: "Ítalski kardinálinn." Einnig vill hann okkur ósköp vel. Hann hefur heitið okkur vernd í Versló. Þess vegna kallaði ég hann Verndarengilinn.

Eftir þessa heimsókn hafa fordómar mínir í garð Versló minnkað. Þeir hafa sannfært mig um að Versló sé góður skóli með gott fólk. Mér finnst það líka heiður að einn framhaldsskóli sé á höttunum á eftir mér. En ég ætla í MR og því fær engu haggað. Ég hef fjallað um þessa heimsókn með kostum hennar og göllum. Ég vil endilega heyra álit ykkar hvort sem þið eruð í Versló eða MR eða bara enn í grunnskóla. Ég lýsi hér með umræðuna opna. Takk fyrir mig.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Svefn

Ó, hvað það er yndislegt að sofa. Það er alsæla.

mánudagur, apríl 11, 2005

Án titils

Þegar einn geðsjúklingur fær íslenskan ríkisborgararétt koma fleiri slíkir og vilja líka ríkisborgararétt.

laugardagur, apríl 09, 2005

Leiðinlegur endir á Íslandsmótinu

Þá er þáttöku okkar á Íslandsmótinu í handbolta lokið. Við kepptum á móti FH í gær og er skemmst frá því að segja að FH-ingar eru betri en við. Við náðum okkur alls ekki á strik í gærkvöldi og ég er enn á þeirri skoðun að það á að banna leiki á föstudagskvöldum. Í dag kepptum við tvo leiki. Fyrri leikurinn var á móti HK. Sá leikur var spennandi en því miður töpuðum við með einumarki. Það var nú dómarinn sem réði úrslitunum í lokin með því að dæma löglegt mark af mér. Eftir tapið áttum við einn leik eftir sem skipti engu máli þar sem möguleikar um þriðja sætið voru úr sögunni. Sá leikur var gegn KA og við töpuðum enda höfðum við ekkert til að keppa um. Þannig að íslandsmótið er bara búið.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Veðrið

Hvað er eiginlega málið með þetta veður. Snjór og rok í apríl. Í svona veðri hugsa ég eitt: " En hvað það er yndislegt að vera hættur að æfa fótbolta."

laugardagur, apríl 02, 2005

Lengi lifi HC Andersen!

Í dag hefði HC Andersen orðið 200 ára. Ég kíkti aðeins á þessa hátíð sem var höfð til minningar honum. Það var greinilega mikið lagt í að gera þessa hátið sem glæsilegasta og ekkert sparað. Mér finnst eiginlega vera of mikill glamúr í kringum þessa hátíð. Óskarinn blikknar í samanburði við hana. Það er of mikið lagt upp úr því að fá einhverjar stjörnur í þetta. Mér fannst til dæmis algerlega óþarfi að hafa Tinu Turner þarna syngjandi lagið "Simply the best". Að vísu er lagið gott en hvað hefur það að gera með HC Andersen. Mér fannst stundum farið aðeins of mikið út fyrir efnið. Reyndar get ég ekki dæmt hátíðina til fulls þar sem ég missti athyglina og vissi varla út á hvað atriðin gengu of fann oftar en ekki tengslin við ævintýrin (hafi þau þá verið til staðar).
Ég get því vel skilið gagnrýni Dana í garð þessarar hátíðar. Með öllum herlegheitunum og stjörnunum fór kostnaður algerlega fram úr áætlun sem þýddi að minna fé fór í góðgerðarmálið, verkefnið gegn ólæsi, sem safnað var fyrir.

En nú vil ég frekar tala um Hans sjálfan. Ég hef haft mikið dálæti á honum síðan ég var krakki. Ég fekk áhugann efftir að hafa horft á teiknimynd um Ljóta andarungan. Það er reyndar svolítið kaldhæðnislegt að teiknimyndin var mjög mikið skálduð og brá m.a. fyrir einhverjum kanínum og krókódílum. Reyndar þá er mörgum teiknimyndum ,byggðum á ævintýrum hans, hagrætt fyrir börnin enda geta ævintýri hans verið átakanleg fyrir hjartað. Eftir að ég kynntist sögunni um Ljóta andarungann komu fleiri í kjölfarið og maður kynntist ævintýrum hans smátt og smátt. Svo fyrir nokkrum árum byrjaði maður að lesa nokkur ævintýri hans eins og þau eru skrifuð og þau eru mjög skemmtileg. Ég á að vísu eftir að lesa þó nokkur ævintýri eftir hann og ætli maður kíki ekki á einhver á næstuni og lesi mér til um ævi hanns sem ég hef fengið smá innsýn í. Mér finnst ég vita allt of lítið um hann miðað við dálæti mitt á honum.
Uppáhaldsævintýrið mitt mun ábyggilega vera Ljóti andarunginn. Sú saga snertir mann mikið og hvet ég aðra til að lesa hana óhagrædda.

Páfinn allur

Þá er Jóhannes Páll II allur. Hans tími er bara kominn. Hann var ágætur karlinn þrátt fyrir íhaldssemina. En það er alveg furðulegt hvað kaþólska kirkjan er að strita honum út. Það á nú ekki að æviráða menn í nokkur störf.Hann var orðinn svo veikur og samt hélt hann áfram eins og ekkert væri þar til nýafstaðna páska. Það á að leyfa mönnum að hvílast og njóta ellinar.
En það verður forvitnilegt að sjá hver næsti páfi verður. Og lýðræðið verður sko aldeilis varðveitt. Kannski við ættum bara að taka þetta kerfi upp í forsetakosningunum og allir yrðu sáttir.

laugardagur, mars 26, 2005

Bobby vs. Dorit!

Meira um Bobby Fischer. Ármann, frændi minn, benti mér á þá kaldhæðnislegu staðreynd sem gleymdist í öllum látunum, að forsetafrúin er auðvitað gyðingur. Eins og alþjóð veit, þá er Bobby gyðingahatari. Hvað mun Bobby segja um hana? Það ætti þó að vera ljóst að hann fær ekki höfðingjalegar móttökur á Bessastaði.

Bobby eða herinn?
Annars verð ég að hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir að þora að standa gegn Könunum. Aldrei hefði ég trúað því að Davíð þyrði að rísa upp gegn Bush og félögum. Gaman það. Og hver veit til hvaða ráðs Kanarnir taka, kannski taka þeir bara herinn burt (og vonandi taki til eftir sig) og þá yrði ég sáttur.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Draumur

Mig dreymdi í nótt að ég hefði fengið 3 í einkunn fyrir ritgerð um John Stuart Mill og nytjastefnuna. Það er nú bara eins gott að sá draumur (eða martröð) rætist ekki.

sunnudagur, mars 20, 2005

Stefnubreyting hjá Bush eða bara brandari?

Scott McClellan, talsmaður hvíta húsinns:
Well, the President stands on the side of defending life.
Þetta var sagt um Bush forseta þegar talað var um mál Terri Schaivo. En hér er talað um líf almennt og þá fer ég að velta því fyrir mér hvort þetta sé einhver brandari. Ég væri gjarnan til í að heyra þessa setningu í umræðunni um stríð og dauðarefsingar. Yrði þetta sagt um forsetann? Ég held ekki. Er þetta kannski einhver stefnubreyting hjá honum að hætta að drepa? Ég tel það nokkuð ólíklegt. En við vonum það.

laugardagur, mars 19, 2005

Kleppur er víða!

Já, þessi tilvitnun er auðvitað úr hinni stórskemmtilegu bók Englum alheimsins. Ég er nýbúinn að taka próf úr bókinni og gekk ágætlega í því. Það er gaman að velta sér upp úr þessari setningu og setja hana í samhengi við samfélagið og þá er alltaf hægt að finna einhvern Klepp út í bæ.

Það má kannski segja að kleppur hafi tekið sér bólfestu hérna þó að húsið sé vel upplýst á þessari mynd.

Það er alveg ótrúlegt hvað sama ríkisstjórnin endist lengi hér. Ætli þetta sé ekki 11. ár ríkistjórnarinnar hér. Hún lifir nú í sínum eigin heimi, hlustar allavegana ekki á þjóðina. Kannski húsið sé farið að gegna sínu upprunalegu hlutverki aftur.
Í dag fór ég að mótmæla fyrir utan húsið í dag.

Það byrjaði með því að við Ung Vinstri Græn bjuggum til mótmælaskilti í húsi VG. Svo fórum við með skiltin á Ingólfstorg þar sem fjöldi manna safnaðist saman til þess að mótmæla stríðinu. Þar var haldin smá dagskrá og svo haldið að stjórnarráðshúsinu með svartan borða þar sem nöfn fórnarlamba var nælt á. Borðinn var svo settur fyrir framan áðurnefnt hús. Mönnum var heitt í hamsi og lentu nokkrir upp á kant við lögguna. Alvöru mótmæli.

Þetta var liður í Alþjóðlegum mótmælum og hér er mynd af mótmælunum í London með tilheyrandi gjörningi. Þar væri ég til í vera.


Og svo aðeins í lokin: Höfnum stríði

föstudagur, mars 11, 2005

Tap gegn Haukum

Vorum að keppa á móti Haukum áðan. Töpuðum með 5-6 mörkum. Við stóðum okkur mjög illa. Ég náði mér aldrei á strik og klúðraði færum í stað þess að skora. Við eigum að vinna þetta Haukalið en vorum bara hálfsofandi í kvöld. Það ætti að banna leiki á föstudagskvöldi.

föstudagur, mars 04, 2005

Heróðir Kínverjar og Kanarnir, vá þeir eru bara snarruglaðir.

Var að lesa það hérna að Kínverjar séu að auka útgjöld til hermála og eyða 1.900 milljörðum króna í herútgjöld. Það er rugl! En svo hélt ég áfram að lesa fréttina og sá að Bandaríkjamenn eyða 25.200 milljörðum! Hvað er í gangi? Það er alveg ótrúlegt hvað menn eru eyða í hermál! Ég get rétt ímyndað mér hvað hægt er að gera fyrir slíka upphæð. Sem dæmi má nefna:
  • Tryggt vatn og mat handa fátækum.
  • Barist gegn sjúkdómum eins og malaríu og að maður tali nú ekki um alnæmi, með lyfjagjöfum og fræðslu.
  • Losað börn undan þrælkunarbúðum stórfyrirtækja.
  • Hugsað líka um ýmis innanlandsmál eins og heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál og öll hin málin sem Bush ákvað að skera niður til að geta eytt meiru í herinn og lækkað skatta fyrir þá ríku sem hafa alveg efni á að borga sína skatta.
En það er alltaf á einhvern ótrúlegan hátt nægilegt fjármagn til að eyða í hermál eins og drápsvopn sem eru, sem betur fer, aldrei notuð enda óréttlætanlegt að nota þau. Það er bara ekkert gagn í því að eyða svo miklu í hergögn.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Mímisbrunnurinn kominn heim í Haga!

Rétt í þessu vorum við að vinna "Nema Hvað" spurningakeppnina. Það var Laugalækjarskóli sem keppti til úrslita við okkur. Laugalækjarskólinn var þegar búinn að vinna Skrekkinn svo við þurftum að halda heiðri Hagaskóla, sem stórveldi, uppi og vinna keppnina.


Frá vinstri: Þórður, ég, Hafsteinn og svo ræðusnillingarnir Ari og Sindri.

Laugalækjarskóli byrjuðu í hraðaspurningarnar með fullu samþykki okkar, og hlaut 12 stig en við 15. Þeir náðu síðan að jafna en við spíttum þá í gírinn og náðum 4 stigum í röð ef ég man rétt(þó eitt stigið væri reyndar dregið af okkur seinna). Ari og Sindri stóðu fyrir sínu með ræðunni, eins og venjulega og fyrir já-nei skriflegu spurningarnar höfðum við 6 stiga forystu og kórónuðum svo sigurinn með því að taka 5 stig út úr þeim lið en Laugalækjarskóli náði engu. Lokatölur: 33-22.

Þessi úrslit segja kannski ekki allt um styrkleikamunin. Laugalækjarskóli er sterkur og hefði getað unnið okkur. En við vorum bara sterkari í dag og uppskárum Mímisbrunninn og kannski örugga skólagöngu í Versló, en það kom einhver gaur þaðan og spurði hvort við ætlaðum ekki örugglega í Versló. Sá maður bauð okkur ýmis fríðindi en ég sagði bara beint við hann að ég ætlaði í MR og ekkert annað, en hann hélt áfram. Bjartsýnn sá maður. En nú ætla ég bara að njóta þess að hafa unnið þetta í annað sinn og reyna að ná mér niður á jörðina.

Viðuregnina má hlusta á í heild sinni á RUV.is

Ath: Þessi pistill er skrifaður af montnum Hagskælingi sem hefur líka góða ástæðu til þess að vera montinn enda ekki á hverjum degi sem maður vinnur svona glæsilegan sigur.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Frakkar hertóku Napóleon!

Er búinn að hlusta á undanúrslitaviðuregn okkar í Nema hvað á móti Húsaskóla, á netinu. Þar heyrði ég að Frakkar hefðu hertekið Napóleon. Jamm, ég mismæld migi skemmtilega en ég ætlaði auðvitað að segja að Frakkar hertóku Danmörku. Held að það sé líka kannski smá ruglingur. En þetta kemur fyrir bestu menn. Og svo er rödd mín nokkuð furðuleg í útvarpinu (eða það finnst mér alla vegana) enda hljóðgæði ekkert allt of góð.
Viðuregnina er hægt að hlusta á RUV.is, vefupptökkur Rás 2, 14 apríl fyrir þá sem misstu af henni.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Komnir í úrslit!

Undanúrslitaviðuregninni á móti Húsaskóla var að ljúka. Það var aldrei nein spurning á hvaða veg keppnin færi. við leiddum 14-9 eftir hraðaspurningarnar og því næst tókum við 3 stig úr vísbendingaspurningunni með því að geta upp á HC Andersen í fyrstu vísbendingunni. Við jókum forystuna enn frekar í töfluspurningunum og Ari Bragi og Sindri skiluðu 5 stigum af 5, fyrir ræðuna þeirra. Í já-nei skriflegu spurningum hlutum við 5 stig af 6 en Hússkælingar hlutu 6. En sigurinn var öruggur, 32-21 ef ég man rétt.

Við keppum til úrslita næsta mánudag á móti Fellaskóla eða Laugarlækjarskóla. Sami staður, sami tími og í kvöld.

Lexía dagsins, spara aðeins flatbökuátið fyrir keppni. Það fer ekkert allt of vel í magann.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Landakotsskóli endanlega veginn!


Frá vinstri: Ég, Þórður, Hafsteinn og ræðumaðurinn Ari Bragi

Úrslit hverfismeistarakeppninnar í borgarhluta1 fór fram í Frosta í gær. Landakotsskóli var andstæðingurinn öðru sinni. Í fyrri viðuregninni þeirra mættu þeir frekkar slappir til leiks og greip því fyrilliði þeirra, Paul til þess dramatíska ráðs að reka hina tvo og ráða tvo aðra í staðin. Það skilaði sér nokkuð vel því liðið var mun sterkara og vék Paul úr miðjunni fyrir stelpu sem var mjög klár.

Við byrjuðum hraðaspurningarnar ekki vel en náðum þá 15 stigum. Það gerðu Landkytingar líka og náðu svo 3 stiga forystu eftir vísbendingaspurninguna. Eftir þríþrautina náðu þau 5 stiga forystu og var því á brattann að sækja. Við söxuðum á forskotið jafnt og þétt og Ari Bragi og Sindri skiluðu einnig sínu framlagi mjög vel með ræðu sem hinn fyrrnefndi flutti um það hvort leita ætti á nemendum þegar þeir kæmu í skólann. Svo náðum við að jafna og ná 2 stiga forystu þegar að já-nei skrifleguspurningarnar voru eftir. Við náðum 4 stigum gegn 1 þeirra og úrslitin endanlega ráðin. Lokaniðurstaðan var 31-26.

Við erum því komnir í undanúrslit og keppum við þar á móti Húsaskóla. Keppnin fer fram í útvarpshúsinnu næsta mánudag kl. 20:00 og verðum við í beinni á Rás 2

Svona í lokin vil hrósa Landakotsskóla fyrir glæsilega frammistöðu og einnig benda á að myndir frá keppninni má nálgast hér (endilega kíkið á myndina af Eddu og Þórgunni).

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Auglýsing.

Einkabílistar, einkabílistar, er bíllinn skítugur? Þá stendur ykkur það kostaboð að kaupa tjöruhreinsi , bílasápu og rúðuvökva í einum pakka á aðeins 1000 kr. Ég endurtek: Aðeins 1000 kr.
Ef þú hefur áhuga, sendu mér þá tölvupóst.
Takmarkaðar birgðir
(Salan er liður í fjáröflun fyrir keppnisferð til Spánar hjá 4. fl. ka. í handbolta hjá Gróttu.)

P.S. hafi þetta með einkabílistanna farið fyrir brjóstið á einhverjum, þá er þetta bara smá grín sem ekki ber að taka alvarlega

Bikardraumurinn úti.

Það er langt síðan að ég hef ritað handboltapistla. Ástæðan er kannski sú að mér fannst þær nokkuð leiðinlegar. En alla vegana þá var farið til Selfoss í gær að keppa gegn samnefndu liði þar í undanúrslitum SS bikarins. Við höfðum farið frekar létta leið í undanúrslitin. Unnið Hauka C, Fylki og Aftureldingu. En Selfyssingar eru sterkir og það var alvöruleikur fyrir höndum. Það var margmenni í íþróttahúsinu og Auðvitað langflestir á þeirra bandi. Við höfðum yfirhöndina framan af og náðum 3 marka forystu. Við leiddum með 1 marki í hálfleik. Í þeim síðari gáfum við eftir og Selfyssingar náðu forystunni og unnuleikin með 2 mörkum. Það verður því ekki leikið í Höllinni. Frammistaða mín var eins og liðsins. Ég byrjaði vel, skoraði 5 mörk (af 5 skotum) í fyrri hálfleik en dalaði svo í þeim seinni, skoraði 1 mark og klúðraði færum.

Eftir það var farið á Kentucky fried chicken. Ég fékk mér twister með frönskum og pepsi. Nokkuð sniðug máltíð, twisterinn til að njóta, franskarnar til að gera mann saddan og pepsi með til að skola matnum niðurog njóta í leiðini. Svo var bara farið heim og ég þurfti að læra fyrir þýskupróf sem gekk nokkuð vel.

föstudagur, janúar 28, 2005

Án titils

Það var ágætur dagur í skólanum í dag. Það var frí í fyrstu tveimur tímunum. Í hléinu fór ég að taka áhugasviðskönnun. Niðurstöður könnuninnar komu mér ekki á óvart og ég var með mestan áhuga á félagslega þættinum. Annars var ég ekki sáttur með það að í könnuninni eru stjórnmál sett í sama flokk og viðskipti og markaðsmál. Sem sagt, að ef maður er góður í viðskiptum eða markaðsmálum þá getur maður farið á þing. Hugsjónir skipta þarna greinilega litlu máli. Þetta eru þau skilaboð sem ég fæ út úr könnuninni. Könnunin er reyndar bandarísk og segir það kannski sitt. Þar í landi duga hugsjónirnar allt of lítið og maður verður að vera í stórum flokki og með fjársterka menn á bak við sig til að ná árangri.
Í íslenskutíma komst ég að því að prófið var upp á 9. Það var eitt svar sem var rétt en ekki gefið fyrir og hækkar það mig í 9.
Svo fórum við í skvass í íþróttafræði. Það varið farið í Veggsport sem er einhvers staðar fyrir utan grafarvog. Þar gerði ég þá uppgötvun að skvass er bara nokkuð skemmtileg íþrótt. Ég er reyndar ekkert sérlega góður en ég held að ég hafi náð tökum á íþróttinni.

mánudagur, janúar 24, 2005

Smá um umhverfismál

Mér líst ekki vel á þetta. Hverni væri að Bush-stjórnin hætti nú að hugsa bara um hagsmuni ríku karlanna sem menga eins og þeim sýnist og drullist til að skrifa undir Kyoto samninginn. Um 25% mengunarinnar kemur frá þeim og samt vilja þeir ekkert taka tillit til umheimsins (og þeirra sjálfra reyndar líka) og takmarka mengunina. Því miður erum við íslendingar líka með í mengunarkapphlaupinu með okkar "sér íslenska ákvæði " í Kyoto-bókuninni. Mér er ekki skemmt!

laugardagur, janúar 15, 2005

Neyðarhjálp úr norðri

Það er ekki á hverjum degi sem ég fer inn í Smáralindina. En í dag fór ég ásamt föður mínum, í þeim tilgangi að safna fyrir fórnarlömb flóðanna við Indlandshaf. Það gekk bara nokkuð vel og var baukurinn orðinn nánast fullur hjá okkur. Það var líka fullt af fólki sem var búið að gefa eða ætlaði að gefa seinna. Svo í kvöld er söfnunin í sjónvarpinu. Það eru frekari upplýsingar hérna.

föstudagur, janúar 14, 2005

Tvöfaldur sigur í Nema hvað

Í gær kepptum við í "Nema hvað" spurningakeppninni. Unnum tvo örugga sigra á móti Austurbæjarskóla og Landakotsskóla.

Í fyrri viðuregninni kepptum við á móti Austurbæjarskóla. Eftir Hraðaspurningarnar var 16-14. en við vorum mun sterkari og unnum sannfærandi sigur 28-19. Hefðum þó mátt vera frekari á bjölluna (á sérstaklega við um mig) . Í seinni viðuregninni kepptum við á móti Landakotsskóla. Sú viðuregn var aldrei spennandi og unnum við 26-18 (klúðruðum eiginlega já-nei skriflegu spurningunum)

Við stóðum okkur bara mjög vel. Vorum snöggir í hraðaspurningunum og töluðum vel saman í hinum spurningunum. Svo sviðsframkoman í fínasta lagi hjá okkur.

Næst keppum við 10. febrúar á móti Landakotsskóla aftur í úrslitum hverfismeistarakeppninnar. Þeir unnu Austurbæjarskóla og lentu í öðru sæti í riðilnum.

mánudagur, janúar 10, 2005

Vitlausir ráðherrar!

Ég er hissa á ummælum Daviðs, Halldórs og Björns. Þeir segjast ekki skilja þá einföldu spurningu um það hvort Ísland ætti að vera á lista vígfúsu þjóða. Þau 84% sem eru á móti því skildu alla vegana spurninguna. Ég útskýra þessar niðurstöður fyrir þeim: ÍSLENDINGAR ERU Á MÓTI STRÍÐINU Í ÍRAK. Ég vona að þeir skilji þetta.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Njálu myndin.

Var að horfa á myndina Njálssögu . Þetta var nú bara stutt útgáfa af Njálu og eiginlega of stutt. Í myndinni er sá hluti bókarinnar tekinn þar sem deila Gunnars og Otkels er tekin fyrir. Vandamálið er að sá kafli var ekkert kláraður. Deilunni var ekkert lokið og ég reyndar man ekki hvar myndin endaði því að eftir henni komu viðtöl við fullt af fólki og tók það jafnlangan tíma og myndin sjálf. Myndin hefði mátt enda þar sem Gunnar var drepinn og þá væri hans hluta lokið. Svo hefði átt að sleppa þessum viðtölum og gera bara sér heimildarmynd um bókina. Fyrir utan þetta var þó sögunni gerð ágæt skil. Því skal ég s.s. ekki neita.
En í stuttu máli sagt: Meiri saga, minni viðtöl (eða bara sleppa þeim yfir höfuð).

En nú þarf ég að halda áfram að lesa fyrir stærðfræðipróf.

laugardagur, janúar 08, 2005

Davíð segir...

Davíð Oddsson segir að það sé fráleitt að halda því fram að Íslendingar séu þátttankendur í Íraksstríðinu samkvæmt þessari grein. Þessi yfirlýsing er ábyrgðarlausari en yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar um kennaraverkfallið. Því miður var Ísland á lista hinna vígfúsu ríkja sem var notaður til að réttlæta stríðið og er enn! Þetta er eins og að horfa upp á einelti og hlæja með þegar gerandinn níðist á fórnarlambinu en segjast svo vera saklaus.

Nema þá kannski beri að túlka yfirlýsinguna þanning að Davíð og Halldór séu einir Íslendinga í þessu stríði sem er nú s.s. engin lygi þar sem Íslendingar eru langflestir á móti þessu stríði. En þrátt fyrir það blönduðu þeir allri þjóðinni í þetta og réttast er að þeir biðji hana afsökunar!

Svo einnig í greinni má túlka að Davíð viðurkennir að Íslendingar hafi horfið af braut friðar með ingöngu í NATO. Ísland á bara að segja sig úr NATO og byrja að boða hin kærleiksríka friðarboðskap.

Svo segir Davíð líka að mun friðvænlegra væri væri í heiminum eftir fráfall Yasser Arafat. Ég held að það hafi ekki mjög mikil áhrif. Heimurinn yrði afur á móti mun friðvænlegri ef það væri hægt að koma Ariel Sharon og hinum morðóða Texas-kúreka Bush frá völdum, það er á hreinu.