föstudagur, júní 27, 2008

Náttúra

Skýtur það ekki svolítið skökku við að í kvöldfréttum RÚV var bent á möguleg bílastæði fyrir Náttúrutónleikana? Væri ekki nær að benda á strætisvagna sem ganga í Laugardalinn?

þriðjudagur, júní 10, 2008

Talandi um guðfræði...


Ef þessi mynd sannfærir mig ekki, þá veit ég ekki hvað.

Viðbót: Svona brandarar eru mun fyndnari þegar ekki er vitað hvaðan þeir koma. Þegar það er vitað verður myndin ekki jafn súrrealísk.

föstudagur, júní 06, 2008

Vangaveltur um framtíðina

Það er alltaf jafn notalegt að snúa aftur áhyggjulaus í Fossvogskirkjugarð á sumrin. Andrúmsloftið þar er alltaf jafn afslappað sem er mönnum mjög hollt eftir mánuð af taugaþrungnu andrúmslofti í kring um prófin. Ég slapp bara mjög vel í gegn um prófin og fékk 7 í meðaleinkunn. Versta einkuninn kom ekki í líffræði en það er önnur saga.

Nú er aðeins eitt ár eftir að menntaskóla. Ég er óneitanlega farinn að hugleiða hvað ég ætla að gera eftir MR. Það væri gaman að gera eitthvað sniðugt og fara í heimsreisu eða vinna sjálfboðavinnu í framandi löndum. En þó á ég eflaust eftir að byrja bara strax í Háskólanum.
Ég er ekki búinn að ákveða hvaða fög ég ætla að læra. Sagnfræði og guðfræði teljast þó einna líklegastar. Heimspeki er líka ofarlega á baugi. Klassísk fræði hljóma líka spennandi verandi á fornmálabraut. Mér finnst það spennandi kostur að taka stjórnmálafræði sem aukafag og velja námskeið um alþjóðastjórnmál. Það er t.d. spennandi að taka það með guðfræðinni. Lögfræðina útiloka ég ekki en verður þó að teljast mjög ólíklegur kostur.

En ég á nú þetta eina ár eftir af MR. Ég ætti kannski að hugsa hvað ég geri við það. Ég þarf óneitanlega einhverja tilbreytingu því þessi þrjú ár sem liðin eru hafa verið öll eins. Það er því óneitanlega stærsta spurningin hvort ég gefi kost á mér í Gettu betur fjórða árið. Sé svarið við því nei, þá er fylgir önnur spurning: Hvað í ósköpunum ætla ég að gera við tímann minn á næsta ári?

Ég er kominn á þá skoðun að ákvarðanir eru bestar geymdar fram í síðustu stundu.