mánudagur, ágúst 23, 2004

Hættur í fótboltanum.

Ég staðfesti hér með að ég er hættur í fótboltanum. Það er bara orðið leiðinlegt að æfa fótbolta og ég held að Pétri sé alveg sama þótt að ég sé hættur. Í staðinn ætla ég að snúa aftur í handboltann.

Skólinn byrjaður.

Þá er skólinn byrjaður og ég formlega orðinn 10.bekkingur. Ég fór á skólasetningu í morgun og lenti ég með Inga Viðar sem umsjónarkennara. Ingi talaði mikið og fór sérstaklega út í það að hann hefði beygt krókana á borðinu svo hægt væri að hengja töskurnar á þá. Annars er ég ágætlega spenntur að byrja í 10. bekk og líst mér ágætlega á valfögin sem ég valdi mér. Heimspeki II á mánudögum, frönsku og kvikmyndasögu á þriðjudögum, þýsku á fimmtudögum og íþróttafræði á föstudögum. Svo hef ég sett mér markmið fyrir þetta tímabil.

  1. Að ná 9 í meðaleinkunn á samræmdu prófunum. Ég stefni á MR og er mikilvægt að ná góðum árangri til að komast í þann skóla. Það er erfiðara að komast í skólann núna heldur en þegar systkyni mín komust í hann.
  2. Að vinna Nema hvað! Við vorum mjög óheppin í fyrra þegar við féllum út úr keppninni í bráðarbana á móti Breiðholtsskóla. Ég er einn eftir í liðinu svo það verður að mestu leyti nýtt lið.

Að lokum: Gangi ykkur vel í skólanum!

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Menningarhelgi!

Hún hefur verið viðburðarík helgin hjá mér. Vinur minn frá Flúðum, Hörður Már, kom í heimsókn.
Föstudagskvöldið var farið í bíó á myndina "The Village". Mér fannst myndin ágæt en engin stórmynd. Hún var svolítið öðruvísi en ég bjóst við og ég lét endinn koma mér á óvart.
Morguninn eftir var vaknað kl. 9 og hitað upp fyrir Reykjavíkurhlaupið (ég ætla ekki að kalla þetta maraþon því að ég hljóp ekki 42 km). Þetta var í fyrsta skipti sem ég tók þátt og fór ég beint í 10 km. Ég var u.m.þ. 55 mín. að hlaupa þessa 10 km. Ég er bara nokkuð sáttur við tíma minn þar sem þetta var í fyrsta sinn sem ég hljóp svona mikið og það að ég hef lítið hlaupið í sumar. Ég er einnig sáttur við endasprettinn þar sem ég gaf í og tók fram úr mörgu fólki. Hörður hljóp líka og kom í mark rétt á eftir mér.
Um kvöldið fórum við á stórtónleika Rásar 2. Við horfðum á Leaves spila og voru þeir bara góðir. Leaves er svona hljómsveit sem maður þarf að skoða betur. Við nenntum ekki að horfa á Írafár og Brimkló svo við fórum í kolaportið og skoðuðum vörur þar og keypti ég Bítlamyndina "The Magical mystery tour". Ég horfði á myndina í dag og er það bara fyndið hvað þessi mynd er mikil sýra. Við komum svo aftur á tónleikana þegar Egó byrjaði að spila og þeir klikkuðu ekki. Svo fórum við bara heim eftir flugeldasýninguna og horfðum á "Gangs of New York" og fórum síðan að sofa.
Hörður fór heim um hádegið í dag og ég fór í fjölskyldugrillveislu um kvöldið og þar lauk helginni og sumarfríinu hjá mér.