föstudagur, desember 23, 2005

Þorláksmessuhugleiðingar

Jólin í ár hafa á einhvern hátt farið algerlega fram hjá mér. Mér finnst alltaf skrýtið þegar Þorláksmessa rennur upp og einn dagur er til jóla. Í ár er það enn skrýtnara. Mér finnst jólin alltaf vera langt framundan þó þau hefjist á morgun.
Ég hef ekki farið mikið í bæinn fyrir jólin nema í dag. Þá fór ég að syngja með MR-kórnumn á nokkrum stöðum niður í bæ. Það er alltaf stemming í bænum á Þorláksmessu og þess vegna gaman að syngja þar jólalög. Einnig fór ég í friðargöngu en fyrir mér er það ómissandi þáttur á Þorláksmessu. Svo erum við nýbúin að skreyta jólatréið.
Ég er því núna farinn að gera mér grein fyrir því að það er ansi stutt í jólin.

föstudagur, desember 02, 2005

Jóladagatalið


Það hefur verið hefð í fjölskyldunni síðan ég man eftir mér, að setja upp jóladagatal (sjá mynd til vinstri) þar sem 24 pokar, einn fyrir hvern dag fram að jólum, eru látnir hanga og mamma eða pabbi laumar einhverju sætu í pokanna handa okkur systkinunum. Í gamla daga stilltum við Nanna og Bjarki okkur upp fyrir framan dagatalið og tókum spennt upp úr pokunum. Það hefur lítið farið fyrir þessari hefð undanfarin ár enda erum við orðin eldri og Bjarki fluttur að heiman. Dagatalið hefur þó alltaf verið til staðar og höfum við Nanna tekið upp úr pokunum þegar okkur hentar þó að hinn aðilinn sé ekki viðstaddur.



Mamma vill ólm halda í hefðina og sagði við mig um daginn að nú væri kominn tími á að setja upp jóladagatalið. Ég benti henni á að þessi hefð væri deyjandi. Hún ákvað því að við skyldum öll taka upp úr pokunum saman eins og í gamla
daga. Hún hefur m.a.s. bryddað upp á þeirri nýjung að láta spurningar fylgja með. Þá fáum við Nanna hvor okkar spurningu. Spurningin sem Nanna fékk var svona:
"Jónas Hallgrímsson, Tómas Sæmundsson og Konráð Pétursson. Hvern vantar í þennan hóp?"

Eins og glöggir menn taka eftir þá passar Konráð Pétursson ekki inn í þennan hóp. Þarna hefði auðvitað átt að standa Konráð Gíslason (eða Brynjólfur Pétursson). Þannig að Nanna gat auvitað ekki svarað þessu. Ég benti mömmu á þessa vitleysu. Þá játaði hún að hafa ekki samið þessar spurningar. Þetta var víst spurning úr forprófi fyrir Meistarann, nýja spurnangaþáttinn hans Loga Bergmanns Eiðssonar. Forprófið hafði verið skilið eftir í Hagaskóla, þar sem mammaa vinnur, en þar var forprófið haldið. Þaðan má rekja þessa villu. Annars held ég að Nanna sé ekkert allt of hrifin af þessari nýjung.

Þessi hefð lifir þó enn og Bjarki kemur heim 17. des. og mun taka upp úr pokunum með okkur þá. Það eru líka fleiri hefðir í kringum jólin eins og laufabrauðagerð, sem enn lifa. Hefðirnar lifa enn.