föstudagur, apríl 26, 2013

Þegar ég fermdist.


Fyrir tíu árum, vorið 2003, fermdist ég í tvennum skilningi ef svo má að orði komast. Ég kaus að staðfesta trú mína á Guð og Jesús Krist sem leiðtoga lífs míns. Svo staðfesti ég stjórnmálaskoðanir mínar á svipuðum tíma þegar ég gekk í stjórnmálaflokk, 14 ára gamall (ég þurfti leyfi frá foreldrum mínum til að mega að ganga í hreyfinguna). Miklar hugsjónir lágu að baki hvoru tveggja en annar gjörningurinn þótti ósköp hefðbundinn og venjulegur fyrir 14 ára gamlan pilt en hinn öllu óvenjulegri: Hvers vegna dettur 14 ára dreng að ganga í stjórnmálaflokk? Jú, kosningar nálguðust og mig langaði að til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að vinna að góðum og réttlátum málum í stað þessa að hafa mjög miklar skoðannir og gera ekki neitt í málunum, þegar valdhafar voru að gera rangt til. En hvaða hugsjónir voru í farteskinu?

2003: Írak og Kárahnúkar
Sjálfur ólst ég upp við þá lífsskoðun að maður ætti að elska náungan og gæta bróður síns. Þannig má segja að lífsskoðun mín standi að einhverju leyti á kristnum grunni. Þá fylgdist ég með tveimur hitamálum í íslenskum stjórnmálum 2003: Íraksstríðinu og Kárahnjúkavirkjum. Íslensk stjórnvöld ákváðu að styðja árásarstríð sem byggt var á blekkingum sem allir, sem vildu, sáu. Tveir menn á Íslandi ákváðu hins vegar að sjá ekki og styðja stríðið í blindni. Yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar var á móti.
Kárahnúkjavirkjun var sömuleiðis umdeild og var ekki að sjá hvort meirihlutiþjóðarinnar væri henni fylgjandi. Ljóst var hins vegar að virkjuninni átti að koma í gegn, sama hvað. Mikil heift var í umræðunum þar sem t.d. þáverandi iðnaðarráðherra líkti andstæðingum sínum við landráð og sú sem átti að teljast til umhverfisráðherra sneri við úrskurði skipulagsstofnunnar því hann hentaði ekki pólitískum markmiðum.
Þegar ég fór að kynna mér fyrir hvað stjórnmálahreyfingarnar stóðu var aðeins ein sem hafði barist gegn báðum þessum málum af mikilli staðfestu: Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Það var því borðleggjandi að taka þátt í starfi hreyfingarinnar til að vinna að framgangi hugsjónanna. Þá hlaut sú hreyfing líka að njóta þess að hafa staðið með réttlætinu, eða hvað?
Jú, kosningar nálguðust og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu sitt besta til að beina athygli fólks annað – og tókst bara nokkuð vel til. Skattalækkanir reyndust töfraorðin í því samhengi og kepptumst Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylkingin við að lofa sem lægstu sköttum. Framsóknarflokkurinn var einnig með ás upp í erminni: 90% húsnæðislán og hélt þar með velli í kosningunum og tókst að hanga í ríkisstjórn og koma trompinu sínu í gegn. VG tapaði hins vegar þingmanni: þvílík vonbrigði.

Sofið á verðinum,
Eftir því sem að árin liðu var ég misvirkur í hreyfingunni. Góðærið var í þann mund að fara á flug og þegar ég byrjaði í menntaskóla varð ég aðeins of upptekinn við að leggja samviskusamlega nördalegar staðreyndir á minnið og þáttaka mín í stjórnmálastarfi minnkaði verulega, í raun svo mikið að ég var spurður hvort ég væri gengin í Samfylkinguna. Í augum menntaskólanema sem týndi sínum gagnrýnu gleraugunum leit ástandið í þjóðfélaginu bara nokkuð vel, þó vissulega var alltaf óréttlátt að einhverjir miðaldra karlar fengu fleiri milljónir á mánuði fyrir að sjá um peninga með einhverjum hætti venjulegum manni væri ekki unnt að skilja, á meðan að fólkið (mestu leyti konur) sem sáu um heilsu okkar eða að gera okkur að manneskjum þurftu alltaf að berjast fyrir sæmilegum launum. Svo firrt var nú samfélagið. Samt sem áður trúði maður því að sjálfstæðisflokkurinn gæti nú séð til þess að efnahagskerfið væri traust því þegar á öllu er á botnin hvolft er traust efnahagskerfi stærsta velferðarmálið, líkt og fræg auglýsing Sjálfstæðismanna sagði.
Og viti menn: Sjálfstæðismenn settu slagorð sitt í praxis og bara hvolfdu öllu saman. Þeirra hugmyndir reyndust ekki aðeins óréttláttar heldur bara skaðlegar efnahagskerfinu. Það sætti ekki furðu að mikil ólga var í samfélaginu og fjöldi fólks mótmælti (miklu fleiri en maður var vanur að sjá þegar erlendum stríðum eða náttúruspjöllum var mótmælt). Kom þá meira segja að því að Sjálfstæðisflokkurinn færi frá völdum í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér. Loksins fann ég þær hugsjónir sem ég trúi á eiga nokkurn möguleika á að verða að veruleika. Og hvað þurfi til? Ekkert minna en hrun.

Breyttir tímar. Verða breytingar afturkallaðar?
En það hefur þó ekki reynst svo auðvelt að koma hugsjónunum í framkvæmd. Vinstristjórnin þurfti jú að greiða úr flækju kapítalismans til að koma á starfstæku þjóðfélagi og taka til þess vondar og óvinsælar ákvarðanir. Fylgistap var því nánast óumflýjanlegt þegar ríkisstjórnin hóf störf. Þrátt fyrir að helsta púðrið hafi farið í að hreinsa til hefur þó miklu verið áorkað. Það þurft jú vinstristjórn til að samþykkja ósköp einfalt mannréttindamál á borð við ein hjúskaparlög eða viðurkenna ríki Palestínumanna, sem kúgaðir hafa verið af Ísrael. Þá sjáum við loksins náttúruvernd í verki, umbætur í menntakerfi, betri stjórnsýslu þar sem hagsmunaaðilar eiga síður greiðan aðgang, skattbyrði færð á þá sem geta borið hana, aukna þróunaraðstoð og svo lengi mætti telja.
Ekki er þó björninn unninn því enn þarf að glíma við fylgifiska fyrri ríkisstjórnina. Nú síðast fréttum við að lífríki Lagarfljóts er dáið, þökk sé framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnumm (og reyndar Samfylkingunni líka, þau geta nú ekki firt sig ábyrgð), hinum sömu og tala um okkur sem öfgamenn í umhverfismálum. Það er ekki nóg með að fórnarkostnaðurinn sé að koma í ljós heldur er verið að undirstrika hversu lítill ávinningurinn er enda kunna álfyrirtækin þá list að koma sér framhjá því að greiða skatta. Þrátt fyrir nýjustu fréttir hefur skýr vilji komið fram um að hnekkja á niðurstöðum Rammaátætlunar og ganga enn frekar á náttúruna, þrátt fyrir að vera nýbúin að fá fyrri ákvörðun í hausinn.
Þá hefur ekki tekist endanlega að vinna bug á þeim vanda. Skuldavandi heimilanna er sennilega það hugtak sem hæst hefur verið haldið á lofti eftir hrun. Það er ekki síst umhugsunarvert að Framóknarflokkurinn hefur stór loforð uppi til að leysa þann vanda sem hann átti nú stóran þátt í að skapa, bæði með að skapa það viðskiptaumhverfi sem hrundi og dróg samfélagið með í fallinum og líka með því að koma í gegn ennþá hærri lánum sem erfitt er að borga. Greinilegt er að framsóknarflokkurinn hefur ekkert lært af rannsóknarskýrslunni sem benti á að stór loforð sem þjónuðu skamtímahagsmunum áttu sinn þátt í hruninu. Þá eru sjálfstæðimenn farnir að tala um að baka kökuna, rétt eins og þeir gerðu áður en að öllu var á botninn hvolft.

Niðurlag
Nú þegar ég hef verið félagi í hreyfingunni í 10 ár er gaman að líta til baka og hugsa til þess breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi þennan áratug. En mig hryllir sömuleiðis við tilhugsuninni um að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitjist aftur í ríkisstjórn. Nú árið 2013 er ljóst að þessi sömu flokkar eru með gylliboð að sama tagi og þau sem varpað var fram árið 2003. Núverandi ríkisstjórn er enn að glíma við þau vandamál sem þessir flokkar sköpuðu og kemur það spánskt fyrir sjónir að það eigi nú að refsa þeim fyrir þá viðleitni á meðan að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fá að vaða uppi með svipuð loforð og sömu orðræðu og árið 2003, loforð sem lengi samfélagið í ógöngur þegar þeim var hrint í framkvæmd.
Á þessum tíu árum sem liðið hafa frá því að ég fermdist hefur trúin á Guð minnkað en trúin á hugsjónirnar aukist, þó rótin sé hin sama. Það er alltaf mikilvægt að endurskoða hugsjónir sínar í samhengi við líðandi stund en mikilvægara er þó að glata ekki sjónar á þeim, sérstaklega ekki þegar lofað er gulli og grænum skógum.  

laugardagur, júní 02, 2012

Frambjóðendur tveir og fjórir.

Ég hef örlítið fylgst með forsetakosningum hér í Tékklandi. Ég hef hins vegar ekki náð að kynna mér alla frambjóðendur til hlítar. Það er helst sitjandi forseti sem ég hef kynnt mér. Hann hefur jú verið forseti í heil 16 ár og því unnt að sjá hvað hann gefur gert í starfi sínu sem forseti, hvernig persóuleiki hann er og hvað hann stendur fyrir (eða ekki). Ég hlýddi einnig á fyrirlestur forsetans hér við Karlsháskólann í Prag þar sem hann til dæmis stillti upp vilja þjóðarinnar andspænis hagsmunum fjármálaafla. Í grófum dráttum er það auðveldasta við kosningarnar að gera upp við sig hvort maður vilji sitjandi forseta áfram eða ekki. Þar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég vil nýjan forseta á Bessastaði.

Ég hef lítilega kynnt mér áherslur Þóru Arnórsdóttur og þá er hún landsmönnum auðvitað vel kunn úr fjölmiðlum. Aðra frambjóðendur hef ég þó mjög lítið náð að kynna mér enda er þarf góðan tíma til að kynna sér alla sex frambjóðendur (áður átta) til hlítar. Auk þess er greinilega ekki eining í samfélaginu um hlutverk embættisins og virðist sem það sé í nokkurs konar sjálfsmyndarkrísu. Engu að síður eru enn heilar fjórar vikur til kosninga sem ég ætti að geta nýtt mér til að kynna mér alla frambjóðendur nógu vel.

Fyrstu skoðannakannanir hafa hins vegar bent til þess að slagurinn um forsetaembættið verði einungis á milli Ólafs og Þóru. Eðli málsins samkvæmt eltast fjölmiðlar helst við fréttir af þessum tveimur frambjóðendum enda eru þær fréttir sennilega líklegastar til að hljóta lestur (auk kannski helst samsæriskenninga frá Ástþóri Magnússyni).  Þar hefur sitjandi forseti óneitanlega forskot vinnandi sín embættisverk, t.d. mátti lesa mjög ítarlega frétt um ferð hans til Prag sem dregur upp flotta mynd af honum. Þá eru fréttir að barneignum Þóru að sama skapi mjög líklegar til vinsælda.
Fjölmiðlar hafa annars þegar gefið frambjóðendum kost á að kynna sig t.d. með beinni línu DV eða nærmynd í Íslandi í dag. Þar með er ekki sagt að fólk muni hafa jafnan áhuga á frambjóðendum. Svo virðist í raun sem aðrir frambjóðendur þurfi að koma með gagnrýni á fjölmiðla til þess að geta komið sér á framfæri.

Þetta forskot Ólafs og Þóru kristallaðist svo í boði Stöðvar 2 til kappræðna í beinni útsendingu að bandarískri fyrirmynd. Þóra sá að sér eftir smá hik en Ólafur gerði hins vegar enga athugasemd. Ólafur hafði í raun gullið tækifæri til að segja nei sem hefði verið sterkur leikur bæði þar sem þetta fyrirkomulag hjá Stöð 2 er ólýðræðislegt og almenningi ekki að skapi að láta einn fjölmiðil útiloka fjóra frambjóðendur nánast með einu pennastriki.  Að sama skapi hefði hann verið að standa vörð um lýðræðið. Þá hefði hann jafnvel geta látið Þóru líta frekar illa út með þeim leik.

Þegar sú staða er uppi að aðeins einn af mótframbjóðendum Ólafs virðist eiga raunhæfan möguleika á að steypa honum af stóli velti ég fyrir mér hvort það sé þess virði að kynna mér aðra frambjóðendur. Atkvæði til  eins af hinna fjögurra frambjóðenda er atkvæði til Ólafs Ragnars, rétt eins og atkvæði til Græningja í Bandaríkjunum er atkvæði til Repúblikana. Mér leiðist að segja það en þannig lítur þetta bara út fyrir mér.

Sem leiðir óhjákvæmilega til þeirrar augljósu spurningu: Af hverju fer kosningin ekki fram í tveimur umferðum? Þá yrði mun auðveldara að kjósa þann frambjóðenda sem best höfðar til manns og þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af því að atkvæði dreifast of víða á frambjóðendur og Ólafur yrði endurkjörinn með minnihluta atkvæða. Raunverulegri mynd væri þá hægt að fá af fylgi frambjóðenda.

Það kemur mér í raun óvart að fáir bendi á þennan galla í umræðunni sem nú stendur yfir. Helst er kastljósinu beint að hlutverki fjölmiðlanna sem vissulega hafa mótandi áhrif. En að mínu mati er það fyrst og fremst á ábyrgð frambjóðenda sjálfra hvernig þeir birtast í fjölmiðlum. 
Það hefur líka verið nægur tími til að leiðrétta gallann enda hafa tveir síðustu forsetar náð kjöri með minnihluta atkvæða. Ég vona í raun að þessi staða verði til þess að tvöföld kosning verði tekin upp í framtíðinni. 

mánudagur, janúar 09, 2012

Ágætis byrjun í skýjunum


Ég er flughræddur. Það er svolítið mikið vandamál þegar ferðalög utanlands freista gjarnan, ég hef verið virkur í alþjóðlegum samtökum sagnfræðinema og ég er núna í skiptinámi í útlöndum (sem þó hefur þann kost að auðvelt er að ferðast víða án þess að stíga um borð í flugvél).

Til að róa taugar mínar, sem venjulegulega eru mjög vel þandar að loknu þriggja tíma flugi, hef ég m.a. gripið til þess ráðs að hlusta á róandi tónlist á tónhlöðunni minni. Oftast er það hin ágæta plata Ágætis byrjun með Sigur Rós sem verður fyrir valinu. Oftar en ekki virkar það ágætlega. Mér finnst ég svífa á skýi þegar ég hlusta á plötuna og ekki spillir fyrir að líta út um gluggan niður á skýjahafið, sérstaklega þegar sólin er í þann veginn að rísa eða setjast.

Ef Ágætis byrjun róar mig ekki í flugvél getur það ekkert - sem er raunin þegar vélin flýgur í gegnum "smá" ókyrrð. Þá á ég til að taka smá hræðsluköst. Það er vandræðalegt, hreint út sagt. Oftar en ekki lítur sessunauturinn ýmist glottandi eða með svip til að segja mér að ég sé hálfviti. Í síðasta flugi var ég þó heppinn að hafa flugfreyju og flugþjón á leið í frí, við hliðina á mér. Þau hughreystu mig allan tímann og í grófum dráttum tóks þeim að bjarga því sem eftir var af skynsamri hugsun um borð í fluhvélinni. Þegar vélin lenti var óneitan gott að heyra Ryanair blása í herlúðra til marks um að við hefðum lifað flugið af - eða til að gorta sig af því að vera ávaltt á áætlun.

Að hlusta á Sigur Rós í flugvél hefur þó komið svolítið í hausinn á mér þar sem ég fæ svolítið óþægilega tilfinningu við að hlusta á áðurnefnda plötu þegar ég er að læra. Mér finnst ég  vera kominn aftur í flugvél.


fimmtudagur, desember 01, 2011

Örlítið um líf mitt í Prag

Nú þegar ég hef búið í Prag í heila tvo mánuði held ég að það sé við hæfi að segja örlítið af fréttum af sjálfum mér, svo fólk haldi ekki að ég hafi gufað upp. Þetta er líka fínt tilefni að endurlífga þessa bloggsíðu mína. Frá því að ég bloggaði síðast hefur stýrikerfið gjörbreyst, svona í takt við aðrar breytingar á öllu google-draslinu. Þannig get ég nú séð hve margir heimækja síðuna og hve margir skoða hverja færslu fyrir sig. Það ergir mig svolítið enda er ég á móti svona teljurum, sérsteklaga hafa unnið á DV í sumar.

Skrifborðið


Útsýnið úr herberginu

"Eldhúsið"
En hvað um það. Ég bý á stúdentagörðum í Hostivař hverfinu í útjaðri Prag sem einkennist af mörgum stórum og ljótum kommúnistablokkum. Stúdentagarðarnir samanstanda af tíu blokkum, ýmist byggðum eða í notkun fyrir skrifstofur. Ég deili herbergi með pólskum stjórnmálafræðinema að nafni Grzegorz (ég er rétt byrjaður að geta borið nafn hans fram). Herbergið er frekar lítið og draslið mikið hjá okkur. Á hæðinni er eitt sameiginlegt eldhús ( ef eldhús skyldi kalla, í raun er þetta bara lítið herbergi með vaski og tveimur hellum sem stungið er í samband) og ísskápur frammi á ganginum. Engin aðstaða er þó í hinu svokölluðu eldhúsi og neyðis ég því til að borða kvöldverð minn inni í herbergi mínu á skrifborðinu mínu sem ég nota einnit til að vinna í tölvunni minni (og skrifa m.a. þessa færslu).

Þegar ég mæti í skólann blasir við allt önnur mynd af Prag. Heimspekisvið Karlsháskólans (Filozofická fakulta) stendur við bakka Moldár og blasir Prag kastali við manni hinu megin við ána þegar gengið er út úr aðalbyggingu heimspekisviðsins. Að sama skapi tekur ekki nema tvær mínútur að rölta að Gamlabæjartorginu í Prag og þá er Karlsbrúin skammt frá. Í raun má segja að skólinn sé í hringiðju túrismans en margt má finna af ýmsum minjagripabúðum, margar selja bæheimskan kristal en þó má finna minjagripabúð tileinkaða Barcelona fótboltaliðinu.  Einnig er boðið upp á túra um borgina ýmist í strætó, bílum, gangandi eða í hestvögnum og þá keppast menn við að ota að manni bæklingum, í mismundandi tilgangi, allt frá því að fá fólk á tónleika með verkum eftir Mozart, Bach og Pachebel, til að laða menn á strippklúbba.

Filozofická Fakulta

Gamlabæjartorg 


Ég læt þetta duga í bili en skrifa meira síðar, hugsanlega pistla tengdum námsefninu eða þá eitthvað af ferðalögum en nóg hefur verið af þeim að undanförnu.


sunnudagur, ágúst 22, 2010

Byrjaður aftur... í bili

Ég hef lengi ætlað mér að byrja aftur að blogga eftir eins og hálfs árs hlé (svona formlega, í raun 2 ára hlé). Mér finnst hins vegar kominn tími til þess að byrja aftur núna enda hefur mikið breyst síðan ég skildi við bloggið mitt. Svona til að stikla á stóru þá kláraði ég MR, fór í lýðháskóla í Silkeborg (ætlaði að byrja aftur að blogga meðan ég var þar en strandaði á aulagangi við að tengjast þráðlausa netinu og svo almennri leti), átti kærustu í ca. 10 mánuði, byrjaði í sagnfræði og varð formaður Fróða, hætti að vinna í fossvogskirkjugarði og fékk vinnu á RÚV í 2 mánuði, og svo hef ég bara kynnst fullt af nýju og skemmtilegu fólki (svona til að klára þessa upptalningu á klisjukenndum nótum).

Ég var byrjaður að sakna þess að blogga enda er þetta bara ágætis tjáningarform. Í nostalgíukasti leit ég yfir gamlar færslur og rakst á ýmislegt skemmtilegt allt frá pistli um biblíuþýðingu til kaldhæðinna færslna um bekkjarsetu mína þegar ég var í b-liði 3. flokks KR í fótbolta. Ég veit ekki hvort ég sé endilega sammála öllu því sem ég hef skrifað á þessa síðu enda á ég það alveg til að endurskoða sumar skoðanir mínar.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili en ætli ég hendi ekki einhverju hingað inn bráðlega. Lofa samt ekki að vera duglegur...

sunnudagur, janúar 18, 2009

Hættur

Ég hef ákveðið að segja þetta gott í bili. Ég nenni ekki að þrjóskast við að halda þessari síðu til streitu. Það les þetta hvort sem er enginn lengur, ég blogga sjaldnar og þannig gengur það í hringi. Því er um að gera að hætta þessu bara enda tilgangslaust að halda áfram. Kannski byrja ég aftur seinna en nú er tími til að segja þetta gott.

Takk fyrir mig,

Björn Reynir Halldórsson

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Örlítið meira um þjóðarstoltið.

Það verður að teljast frekar kaldhæðnislegt að í u.þ.b. mánuð eftir hrun viðskiptabankanna hafi titill nýjustu færslu minnar verið Þjóðarstoltið. Eða kannski bara jákvætt. Við þurfum á okkar þjóðarstolti að halda og verður það að teljast frekar laskað. Ég talaði um stóra þjóðarsál síðast. Hún reyndist kannski of stór. Hversu oft fengum við að heyra það að íslenskir viðskiptamenn væru að leggja Bretland og Danmörk undir sig. Bankarnir reyndust síðan of stór biti fyrir íslenskt hagkerfi.
Á sama tíma varð draumur Halldórs Ásgrímssonar um aðild að öryggisráðinu að engu. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það stafi af efnahagsástandinu eða hvort þessi draumur hafi verið of stór fyrir Ísland allan tímann.
Þetta tvennt ætti þó að koma okkur niður á jörðina, við erum lítil. En við getum engu að síður átt okkar þjóðarstolt. Við eigum jú enn handritin og íslenska náttúru, alla vega enn. Við getum líka enn verið glöð með þetta eina silfur.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þjóðarstoltið

Þó svekkjandi hafi verið að sjá Ísland tapa úrslitaleiknum er ekki hægt að segja að úrslitin hafi komið á óvart. Stærsti sigurinn í raun þegar unninn og leikmennirnir orðnar þjóðhetjur. Því var í raun lítil pressa á þá. Frakkarnir þekkja svona árangur og hefðu því síður sætt sig við silfrið. En það voru þó Íslendingarnir sem komu þessari óþekktu íþrótt í sviðsljósið enda fulltrúar fámennar þjóðar. Frakkarnir fóru ekki á forsíðu New York Times eða fengu umfjöllun í blöðum á borð við Washington Post. Hvort umfjallanir sem þessar eiga eftir að auka vinsældir íþróttarinnar skal ósagt látið. Vonum samt ekki, það yrði slæmt ef 300 milljóna þjóð með mikla íþróttahefð uppgötvar hana.

Það er gaman að vera Íslendingur á svona degi. Smáþjóðarsálin blossar upp. Við erum neðarlega í verðlaunahafi ólympíuleikanna en við kunnum því betur að meta þessi einu silfurverðlaun okkar. Það er því kannski hollara að tilheyra 300.000 manna þjóð, og kætast í þau fáu skipti sem gengur vel á sviði íþrótta, en stórri þjóð, sem telur sig hafna yfir aðrar þjóðir og skeytir litlu um hver verðlaun fyrir sig (engin sérstök þjóð tekin fyrir).
Sjálfur er ég stoltur af því að vera Íslendingur. Við erum ekkert endilega best í heimi (þó gaman sé að hrópa það upphátt), en við eigum margt til að hreykja okkur af og megum vera stolt af því sem við höfum. Þjóðin er lítil en þjóðarsálin er stór.

föstudagur, ágúst 22, 2008

Um komandi vetur

Komandi vetur lofar góðu og er ég mun betur stemmdur núna en á sama tíma í fyrra. Fyrsti skóladagurinn var sennilega sá allra skemmtilegasti frá því ég byrjaði í MR þar sem Cösukjallari var troðfullur af fólki fagnandi góðum sigri Íslendinga á Spánverjum. Sögulegur árangur þar á ferð
Það var ekki mikið lært frekar en venjulega á fyrsta skóladegi. Ég er í nýjum bekk og þó sá gamli hafi verið fínn út af fyrir sig lofar þessi góðu. Einnig er svolítið skrýtið að vera kominn í 6. bekk. Nú sé ég fyrir endann á MR og ég er farinn að hlakka svolítið til að byrja í háskóla.

Ég hef ekki enn tekið ákvörðun um áframhaldandi setu í Gettu betur liðinu. Þó eru töluverðar líkur á að ég haldi áfram. En ég held þó öllum möguleikum opnum. Mér líst vel á að fá Davíð Þór aftur sem dómara og Evu Maríu sem spyril. Einnig finnst mér skemmtilegt að sjá karlkyns stigavörð. Í bloggfærslu minni fyrir 3 árum lýsti ég þeim skoðunum mínum að það mætti nú einu sinni hafa kvenkyns spyril og karlkyns dómara.

Megi komandi vetur ganga vel.

föstudagur, júní 27, 2008

Náttúra

Skýtur það ekki svolítið skökku við að í kvöldfréttum RÚV var bent á möguleg bílastæði fyrir Náttúrutónleikana? Væri ekki nær að benda á strætisvagna sem ganga í Laugardalinn?