mánudagur, janúar 09, 2012

Ágætis byrjun í skýjunum


Ég er flughræddur. Það er svolítið mikið vandamál þegar ferðalög utanlands freista gjarnan, ég hef verið virkur í alþjóðlegum samtökum sagnfræðinema og ég er núna í skiptinámi í útlöndum (sem þó hefur þann kost að auðvelt er að ferðast víða án þess að stíga um borð í flugvél).

Til að róa taugar mínar, sem venjulegulega eru mjög vel þandar að loknu þriggja tíma flugi, hef ég m.a. gripið til þess ráðs að hlusta á róandi tónlist á tónhlöðunni minni. Oftast er það hin ágæta plata Ágætis byrjun með Sigur Rós sem verður fyrir valinu. Oftar en ekki virkar það ágætlega. Mér finnst ég svífa á skýi þegar ég hlusta á plötuna og ekki spillir fyrir að líta út um gluggan niður á skýjahafið, sérstaklega þegar sólin er í þann veginn að rísa eða setjast.

Ef Ágætis byrjun róar mig ekki í flugvél getur það ekkert - sem er raunin þegar vélin flýgur í gegnum "smá" ókyrrð. Þá á ég til að taka smá hræðsluköst. Það er vandræðalegt, hreint út sagt. Oftar en ekki lítur sessunauturinn ýmist glottandi eða með svip til að segja mér að ég sé hálfviti. Í síðasta flugi var ég þó heppinn að hafa flugfreyju og flugþjón á leið í frí, við hliðina á mér. Þau hughreystu mig allan tímann og í grófum dráttum tóks þeim að bjarga því sem eftir var af skynsamri hugsun um borð í fluhvélinni. Þegar vélin lenti var óneitan gott að heyra Ryanair blása í herlúðra til marks um að við hefðum lifað flugið af - eða til að gorta sig af því að vera ávaltt á áætlun.

Að hlusta á Sigur Rós í flugvél hefur þó komið svolítið í hausinn á mér þar sem ég fæ svolítið óþægilega tilfinningu við að hlusta á áðurnefnda plötu þegar ég er að læra. Mér finnst ég  vera kominn aftur í flugvél.