laugardagur, júní 11, 2005

Aftur til jarðar?

Í dag barði vottur Jehóva á dyr hjá mér. Hann virtist mjög áhugasamur um dauðann og upprisuna. Hann spurði mig hvort ég trúði því að ástvinir gætu snúið aftur á jörðina og fór svo að tala um það dáið fólk gæti snúið aftur til jarðnesks lífs. Svo gaf hann mér tímarit votta Jehóva, Varðturninn.
Í blaðinu voru þessar hugmyndir kynntar. Þetta voru um 30 bls. og verð ég að viðurkenna að stundum skildi ég ekki alveg hvað þeir voru að fara. Dæmi úr biblíunni voru mjög áberandi.

Ég hef lítið út á þá að setja. Mér finnst ekkert að því að þeir banki upp á hjá fólki. Það er bara þeirra aðferð til að boða trúna. En ég get ekki sagt að ég sé sammála þeim. Ég er sáttur við trúarskoðanir minnar kirkju.

Svo langaði mig að koma með könnun þrátt fyrir að hafa fengið dræmar undirtektir síðast þegar ég setti kannanir inn.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Ekki lengur Hagskælingur!

Þá er ég loksins útskrifaður úr grunnskóla. Fyrir þetta tímabil setti ég mér tvö markmið.
  1. Að ná 9 eða hærra á samræmdu prófunum. Því miður náði ég því markmiði ekki þar sem ég fékk 8,8 í meðaleinkunn. Það var enskan sem dróg mig niður en ég fékk 7,5 þar. Það var hlustunin sem dróg mig niður þar sem ég var hálf sofandi og athyglisgáfan ekki í lagi. Hins vegar fékk ég 10 í stærðfræði og er mjög sáttur við það. En ég mun komast í MR og það skiptir mestu máli.
  2. Að vinna Nema hvað?. Markmiðið náðist. Við unnum keppnina eftir að hafa lagt Laugarlækjarskóla, Húsaskóla, Landakotsskóla (tvisvar) og Austarbæjarskóla að velli. Þórður Sævar og Hafsteinn sátu við hlið mér í liðinu og Ari Bragi og Sindri sáu um ræðurnar. Ekki má svo gleyma Ara Eldjárn og Helga Hrafni sem þjálfuðu okkur í ár og stóðu sig með prýði.
Ég var að spá í að rita Hagaskólaannál hér en hætti svo við. Í raun gerðist lítið hjá mér fyrir utan NH. En þessu lauk nú öllu saman með þessari útskrift í dag sem var bara ágæt.

Nú tekur framhaldsskólinn við. Ég er löngu búinn að sækja um í MR og hlakka bara til að byrja í honum. Ég stefni að því að taka þátt í Gettu betur einhvern tímann í framhaldsskóla og er NH góður undirbúningur.

Nú er maður ekki lengur Hagskælingur. Bara fyrrverandi Hagskælingur

mánudagur, júní 06, 2005

Stígvélland

Rakst á áhugaverða grein á Djöflaeyjunni í dag. Hún fjallar um klikkaðan Belga sem vill útrýma tökuorðum út úr íslenskunni. Sum orðin eru ágæt, önnur ekki eins skemmtileg og enn önnur mjög skopleg. Dæmi: Ítalía nefnist Stígvélland. Framvegis ætla ég að nota það orð hér á vefdagbókinni minni. Þó að hann sé svolítið klikkaður er það samt gaman þegar útlendingar sýna málinu áhuga og vilja bæta það.

laugardagur, júní 04, 2005

Stars Wars: 3. kafli

Ég var að sjá síðustu Star Wars myndina, Revenge of tthe sith. Í umfjöllun minni hér á eftir gæti ég spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina.

Mér fannst myndin fara full geyst af stað. Hún byrjaði á full miklum hasar sem að mínu mati var óþarfur. Atriðið snerist um að frelsa Palpatine kanslara og það tókst, meira að segja var Dooku greifi veginn sem að vísu þjónaði sínum tilgangi. Þeir hefðu alveg geta sleppt atriðinu og látið greifann deyja í 2. kafla.
Eftir þennan endalausa hasar í byrjar svo sagan að ganga. Kastljósið beinist að Anakin Skywalker sem er stútfullur af tilfinningum. Á meðan gerist hann dyggur aðstoðarmaður kanslarans, sem er auðvitað Sith-meistarinn Darth Sidious, sem snýr honum gegn Jedi-riddurunum og býður honum mátt til að bjarga Padmé, heitelsaðri eiginkonu hans, frá Dauðanum.
Fyrri hlutinn finnst mér heldur langdreginn og ber mikinn keim af kafla 2 þar sem tilfanningasveiflur Anakins eru ráðandi. Yfir höfuð er hann ekki neitt sérstakur. Seinni hlutinn er hins vegar mun betri.

Myndin tekur stefnubreytingu þegar Anakin gengst Sidious endanlega á vald. Þá byrjar sagan að ganga og tengja nýju myndirnar við þær gömlu. Kanslarinn tekur endanlega yfir Lýðveldið og gerir það að keisaraveldi. Næst losar hann sig við alla Jedi-riddarana. Sú sena er dramatísk og aftökurnar minntu sumar á aftökur nasista á gyðingum á götum gettóa. Anakin verður endalega að illmenni og drepur síðan ástina sína með illskunni sem hann ætlaði að nota til að bjarga henni. Það er hins vegar gaman að sjá hvernig hann tekur endanlega á sig mynd Svarthöfða eftir að hafa brunnið illa í bardaga við Obi-Van Kenobi.
Þessi seinni hluti myndarinnar er bara nokkuð ágætur.

Í heildina séð er þessi mynd mun betri en kafli 1 og 2. En hún stendur gömlu myndunum langt að baki. Nýju myndirnar geta einfaldlega ekki keppt við þær gömlu. Þær gömlu eru einfaldari og minna um tilfinningaflækjur. Sagan fær virkilega að njóta sín og myndirnar eru ekki ofhlaðnar tæknibrellum. Bardagaatriðin eru ekki ofhlaðin leysigeislum. Svo hafa gömlu myndirnar líka betri húmor. Í þessari mynd var lítill húmor, jafnvel áður enn Jedi-slátrunin hófst. C-3PO og R2D2 voru þarna en fengu lítið að njóta sín. Það var líka gaman að sjá Chewbacca aftur þó hann fengi síður að njóta sín (enda enginn Han Solo með honum).

Ég verð reyndar að viðurkenna það að þessar myndir eru líka mikilvægar fyrir söguna í heild sinni. Það vantar bara ódauðleikann frá gömlu myndunum.