sunnudagur, ágúst 22, 2010

Byrjaður aftur... í bili

Ég hef lengi ætlað mér að byrja aftur að blogga eftir eins og hálfs árs hlé (svona formlega, í raun 2 ára hlé). Mér finnst hins vegar kominn tími til þess að byrja aftur núna enda hefur mikið breyst síðan ég skildi við bloggið mitt. Svona til að stikla á stóru þá kláraði ég MR, fór í lýðháskóla í Silkeborg (ætlaði að byrja aftur að blogga meðan ég var þar en strandaði á aulagangi við að tengjast þráðlausa netinu og svo almennri leti), átti kærustu í ca. 10 mánuði, byrjaði í sagnfræði og varð formaður Fróða, hætti að vinna í fossvogskirkjugarði og fékk vinnu á RÚV í 2 mánuði, og svo hef ég bara kynnst fullt af nýju og skemmtilegu fólki (svona til að klára þessa upptalningu á klisjukenndum nótum).

Ég var byrjaður að sakna þess að blogga enda er þetta bara ágætis tjáningarform. Í nostalgíukasti leit ég yfir gamlar færslur og rakst á ýmislegt skemmtilegt allt frá pistli um biblíuþýðingu til kaldhæðinna færslna um bekkjarsetu mína þegar ég var í b-liði 3. flokks KR í fótbolta. Ég veit ekki hvort ég sé endilega sammála öllu því sem ég hef skrifað á þessa síðu enda á ég það alveg til að endurskoða sumar skoðanir mínar.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili en ætli ég hendi ekki einhverju hingað inn bráðlega. Lofa samt ekki að vera duglegur...