þriðjudagur, desember 25, 2007

Gleðileg jól




Jólin eru gengin í garð og ég er kominn í fullt jólaskap. Að syngja í miðbænum á Þorláksmessu kemur mér alltaf í jólaskap og svo er alltaf jafn notalegt að fara í messu kl. 18.00 á aðfangadegi jóla. Jósef virðist vera vinsælt predikunarefni (1,2) þetta árið. Og svo er það kvöldið sem maður eyðir með fjölskyldunni, borðar jólasteik og möndlugraut og skiptist á gjöfum. Svo til að krydda jólaskapið endanlega, þá voru götur borgarninnar þaktar snjó í morgun. Að mínu mati er snjór ómissandi jólaskraut, hvíti liturinn setur mjög skemmtilegan blæ á borgina. Ég ákvað að taka hundinn út í göngutúr til að njóta snjósins á meðan hann endist. Nú er bara um að gera að njóta jólanna á meðan þau vara.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla!

fimmtudagur, desember 20, 2007

Einkunnir og GB

Það er alltaf ljúft að komast í jólafrí. Einkunnir voru afhentar í dag. Ég rétt klóraði mig upp í fyrstu einkunn með 7,5 í meðaleinkunn. Ég get vel við unað enda hef ég ekki sinnt náminu að neinu viti. Sáttastur er ég með að fá 9 í grísku, einnig er ég sáttur með að fá 8 í fornfræði og latínu (eins og venjulega). Einkunn mín í líffræði telst ekki glæsileg en þó er ég sáttur með að sleppa með 5. Hins vegar er ég ósáttastur með einkunn mína í stærðfræði þar sem ég fékk 7,5. Þrátt fyrir að ég hafi lagt mjög lítið á mig í stærðfræði í vetur verður málabrautastærðfræðin seint talin erfið. Í hnotskurn er ég bara í miðjumoðinu þegar kemur að einkunnum, þær eru hvorki of góðar né of slæmar (fyrir utan líffræði og enskan stíl). Í raun er slíkt miðjumoð lítil hvatning til náms. Annars stefni ég á að fara aldrei niður í aðra einkunn.

Annars eru helstu tíðindin þau að það er búið að draga í Gettu Betur. Við ríðum á vaðið 7. janúar þegar við keppum á móti Verkmenntaskóla Austurlands. Ég er bara nokkuð sáttur við það. Annars er ég ekki sáttur við hvað mogganum finnst gaman að setja inn hirðfíflsmyndina af mér.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Jólalag og jólapróf

Sama gamla sagan. Það er löngu búið að þjófstarta jólunum og ég hálfpartin búinn að venjast þeim. Ég er hins vegar búinn að skrifa nóg um það í gegn um tíðina. Prófin eru farin af stað og klárast eftir rúmlega viku. Jólin eru því enn nokkuð fjarri. Ég finn þó keim af jólaskapi í mér þessa dagana þrátt fyrir allt þetta. Í prófunum hef ég hlustað mikið á eitt jólalag, Ó helga nótt, í flutningi Jussi Björling (O helga natt, kallast það á sænsku). Það þarf víst ekki nema eitt lítið jólalag (það getur reyndar ekki verið hvaða jólalag sem er) til að veita sálarró í jólaprófunum. Reyndar hef ég verið aðeins of kærulaus í jólaprófunum en það er önnur saga.

Viðbót: Smá snjór, með sinn hvíta blæ, spillir heldur ekki fyrir.