miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Örlítið meira um þjóðarstoltið.

Það verður að teljast frekar kaldhæðnislegt að í u.þ.b. mánuð eftir hrun viðskiptabankanna hafi titill nýjustu færslu minnar verið Þjóðarstoltið. Eða kannski bara jákvætt. Við þurfum á okkar þjóðarstolti að halda og verður það að teljast frekar laskað. Ég talaði um stóra þjóðarsál síðast. Hún reyndist kannski of stór. Hversu oft fengum við að heyra það að íslenskir viðskiptamenn væru að leggja Bretland og Danmörk undir sig. Bankarnir reyndust síðan of stór biti fyrir íslenskt hagkerfi.
Á sama tíma varð draumur Halldórs Ásgrímssonar um aðild að öryggisráðinu að engu. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það stafi af efnahagsástandinu eða hvort þessi draumur hafi verið of stór fyrir Ísland allan tímann.
Þetta tvennt ætti þó að koma okkur niður á jörðina, við erum lítil. En við getum engu að síður átt okkar þjóðarstolt. Við eigum jú enn handritin og íslenska náttúru, alla vega enn. Við getum líka enn verið glöð með þetta eina silfur.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Þjóðarstoltið

Þó svekkjandi hafi verið að sjá Ísland tapa úrslitaleiknum er ekki hægt að segja að úrslitin hafi komið á óvart. Stærsti sigurinn í raun þegar unninn og leikmennirnir orðnar þjóðhetjur. Því var í raun lítil pressa á þá. Frakkarnir þekkja svona árangur og hefðu því síður sætt sig við silfrið. En það voru þó Íslendingarnir sem komu þessari óþekktu íþrótt í sviðsljósið enda fulltrúar fámennar þjóðar. Frakkarnir fóru ekki á forsíðu New York Times eða fengu umfjöllun í blöðum á borð við Washington Post. Hvort umfjallanir sem þessar eiga eftir að auka vinsældir íþróttarinnar skal ósagt látið. Vonum samt ekki, það yrði slæmt ef 300 milljóna þjóð með mikla íþróttahefð uppgötvar hana.

Það er gaman að vera Íslendingur á svona degi. Smáþjóðarsálin blossar upp. Við erum neðarlega í verðlaunahafi ólympíuleikanna en við kunnum því betur að meta þessi einu silfurverðlaun okkar. Það er því kannski hollara að tilheyra 300.000 manna þjóð, og kætast í þau fáu skipti sem gengur vel á sviði íþrótta, en stórri þjóð, sem telur sig hafna yfir aðrar þjóðir og skeytir litlu um hver verðlaun fyrir sig (engin sérstök þjóð tekin fyrir).
Sjálfur er ég stoltur af því að vera Íslendingur. Við erum ekkert endilega best í heimi (þó gaman sé að hrópa það upphátt), en við eigum margt til að hreykja okkur af og megum vera stolt af því sem við höfum. Þjóðin er lítil en þjóðarsálin er stór.

föstudagur, ágúst 22, 2008

Um komandi vetur

Komandi vetur lofar góðu og er ég mun betur stemmdur núna en á sama tíma í fyrra. Fyrsti skóladagurinn var sennilega sá allra skemmtilegasti frá því ég byrjaði í MR þar sem Cösukjallari var troðfullur af fólki fagnandi góðum sigri Íslendinga á Spánverjum. Sögulegur árangur þar á ferð
Það var ekki mikið lært frekar en venjulega á fyrsta skóladegi. Ég er í nýjum bekk og þó sá gamli hafi verið fínn út af fyrir sig lofar þessi góðu. Einnig er svolítið skrýtið að vera kominn í 6. bekk. Nú sé ég fyrir endann á MR og ég er farinn að hlakka svolítið til að byrja í háskóla.

Ég hef ekki enn tekið ákvörðun um áframhaldandi setu í Gettu betur liðinu. Þó eru töluverðar líkur á að ég haldi áfram. En ég held þó öllum möguleikum opnum. Mér líst vel á að fá Davíð Þór aftur sem dómara og Evu Maríu sem spyril. Einnig finnst mér skemmtilegt að sjá karlkyns stigavörð. Í bloggfærslu minni fyrir 3 árum lýsti ég þeim skoðunum mínum að það mætti nú einu sinni hafa kvenkyns spyril og karlkyns dómara.

Megi komandi vetur ganga vel.

föstudagur, júní 27, 2008

Náttúra

Skýtur það ekki svolítið skökku við að í kvöldfréttum RÚV var bent á möguleg bílastæði fyrir Náttúrutónleikana? Væri ekki nær að benda á strætisvagna sem ganga í Laugardalinn?

þriðjudagur, júní 10, 2008

Talandi um guðfræði...


Ef þessi mynd sannfærir mig ekki, þá veit ég ekki hvað.

Viðbót: Svona brandarar eru mun fyndnari þegar ekki er vitað hvaðan þeir koma. Þegar það er vitað verður myndin ekki jafn súrrealísk.

föstudagur, júní 06, 2008

Vangaveltur um framtíðina

Það er alltaf jafn notalegt að snúa aftur áhyggjulaus í Fossvogskirkjugarð á sumrin. Andrúmsloftið þar er alltaf jafn afslappað sem er mönnum mjög hollt eftir mánuð af taugaþrungnu andrúmslofti í kring um prófin. Ég slapp bara mjög vel í gegn um prófin og fékk 7 í meðaleinkunn. Versta einkuninn kom ekki í líffræði en það er önnur saga.

Nú er aðeins eitt ár eftir að menntaskóla. Ég er óneitanlega farinn að hugleiða hvað ég ætla að gera eftir MR. Það væri gaman að gera eitthvað sniðugt og fara í heimsreisu eða vinna sjálfboðavinnu í framandi löndum. En þó á ég eflaust eftir að byrja bara strax í Háskólanum.
Ég er ekki búinn að ákveða hvaða fög ég ætla að læra. Sagnfræði og guðfræði teljast þó einna líklegastar. Heimspeki er líka ofarlega á baugi. Klassísk fræði hljóma líka spennandi verandi á fornmálabraut. Mér finnst það spennandi kostur að taka stjórnmálafræði sem aukafag og velja námskeið um alþjóðastjórnmál. Það er t.d. spennandi að taka það með guðfræðinni. Lögfræðina útiloka ég ekki en verður þó að teljast mjög ólíklegur kostur.

En ég á nú þetta eina ár eftir af MR. Ég ætti kannski að hugsa hvað ég geri við það. Ég þarf óneitanlega einhverja tilbreytingu því þessi þrjú ár sem liðin eru hafa verið öll eins. Það er því óneitanlega stærsta spurningin hvort ég gefi kost á mér í Gettu betur fjórða árið. Sé svarið við því nei, þá er fylgir önnur spurning: Hvað í ósköpunum ætla ég að gera við tímann minn á næsta ári?

Ég er kominn á þá skoðun að ákvarðanir eru bestar geymdar fram í síðustu stundu.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Lesið fyrir líffræðipróf: IX. hluti

Nanna, ég veit þú sagðir mér alltaf að leggja áherslu á stúdentsprófin. Það er bara erfitt að muna það þegar maður situr yfir líffræðinni.

Lesið fyrir líffræðipróf: VIII

Ég væri kannski í betri málum ef ég væri ekki alltaf að setjast fyrir framan tölvuna til að skrifa kaldhæðnar bloggfærslur um hvað eitt fag sé leiðinlegt.

Lesið fyrir líffræðipróf: VII. hluti

Ætli Ólafur Friðrik hafi verið að lesa líffræði þegar hann tók upp á því að taka sér veikindaleyfi?

Lesið fyrir líffræðipróf: VI. hluti

Hugur minn fór í verkfall. Hvenær það gerðist er ómögulegt að segja.

Lesið fyrir líffræðipróf: V. hluti

Af hverju hefur lögreglunni ekki dottið í hug að lesa smá líffræði yfir vörubílsstjórunum? Það myndi alveg drepa þá úr leiðindum og þannig væri hægt að forðast öll læti.

Lesið fyrir líffræðipróf: IV. hluti

Ég var að fatta það að uppstigningardagur er í dag. Jesús steig upp til himna. Eflaust gaman að geta skilið líkamann eftir á jörðinni. Þá þarf maður ekki að læra líffræði á himnum.

Lesið fyrir líffræðipróf: III. hluti

Ef líffræði væri knattspyrnuleikur, færi sá leikur 0-0

Ef líffræði væri handboltaleikur, færi sá leikur einnig 0-0

Lesið fyrir líffræðipróf: II. hluti

Mér hefur ekki leiðst jafn mikið síðan ég var látinn læra einhverja fiska utanbókar fyrir Gettu betur.

Lesið fyrir líffræðipróf

Ég held að orð Sókratesar eigi best við um mig og líffræðina núna:
Ἓν οἶδα ὅτι οὐδὲν οἶδα (Það eina sem ég veit er að ég veit ekkert)

Fram þjáðir menn í þúsund löndum

Líffræðipróf á morgun.

mánudagur, apríl 28, 2008

Afmæli

Ég á afmæli í dag. Ég fékk kannski ekki alveg sömu hyllingu en ég er bara sáttur. 28. apríl er samt skrambi leiðinlegur tími til að eiga afmæli.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Mótmæli

Ég er almennt hlynntur mótmælum. Þó sumir vilja ávallt kalla þau skrílslæti tel ég þau vald fólksins. Því virði ég rétt vörubílsstjóra til að mótmæla þó mál þeirra sé mér nú ekki kært. Þó geta þau gengið of langt eins og þegar vörubílstjórar tepptu hlestu umferðaræðar við Borgarspítalann um daginn. Þessi mótmæli finnst mér ekki ganga of langt. Í raun finnst mér það bara hálf spaugilegt að þegar formaður heimastjórnar Palestínu er á Bessastöðum, þá mótmæla þeir. Gæti reyndar verið tilviljun, ég veit það ekki. En hvað ætli Abbas geri nú í tengslum við tolla ríkisins á bensíni hér á landi?

sunnudagur, mars 23, 2008

Málsháttur

Málshættirnir verða sífellt pólitískari með árunum. Ég fékk þennan málshátt í páskaegginu mínu:
Frjálslyndur maður getur orðið ráðherra, en ekki er víst að sami maður verði frjálslyndur ráðherra.
Það fyrsta sem mér datt í hug var Frjálslyndi flokkurinn. Það hefði verið svolítið fyndið að fá málshátt um einn ákveðinn stjórnmálaflokk.

Annars er ég að spá í að sækja um vinnu, næsta páska, við að semja málshætti fyrir páskaeggin.

Gleðilega páska!

þriðjudagur, mars 18, 2008

Páskafrí

Ég sagðist kom með Gettu betur-uppgjör ef ég nennti. Ég nenni því ekki. Ég er kominn í páskafrí og nú nenni ég engu. Nú er líka kominn tími fyrir aðrar áhyggjur en Gettu betur. Ég þarf að gera enskuritgerð sem ég átti að skila á föstudaginn. Ég á mjög erftitt með að einbeita mér að henni. Páskafríið er virkilega letjandi.

sunnudagur, mars 16, 2008

GB: Sigur

Ég er feginn að GB sé lokið í ár. Keppnin endaði líka vel hjá okkur.
Við byrjuðum keppnina vel. 17-12 eftir hraðaspurningar gaf okkur góðan byr. Bjölluspurningarnar gengu líka betur en síðast. Við héldum aðeins lengur út en síðast. Allt stefndi í öruggan sigur þegar 7 stig voru eftir í pottinum. Í anda keppninnar í ár, þar sem allar keppnir voru spennandi, hirtu MA-ingar 7 síðustu stigin. Nú nenni ég ekki að velta mér upp úr síðustu bjölluspurningunni. Hún skiptir engu máli núna. Hins vegar sá ég eftir því að hafa ekki nefnt Verdi við félaga mína. Ég trúði því ekki að það væri verið að spyrja um hann. En bráðabani var staðreynd, annan árið í röð. Taugar mínar hafa eflst mikið síðan í fyrra. Ég efast um að ég hefði þolað það að missa niður 7 stiga forskot í fyrra. En við vorum bara góðir í bráðabananum. Náðum fyrstu spurningunni og settum pressu á MA-ingana. MA-ingar fóru allt of snemma á bjölluna í næstu spurningu og eftirleikurinn því auðveldur fyrir okkur.

Að lokum vil ég þakka MA-ingum fyrir góða keppni. Ef ég nenni, þá kem ég með smá uppgjör um keppninga í ár.

laugardagur, mars 08, 2008

Sigur og tap í gærkvöldi

Úrslitin eru nú framundan eftir nauman sigur í gær gegn Borgarholtsskóla. Þrátt fyrir að hafa góða forystu lengst af vorum við næstum því búnir að kasta frá okkur sigrinum.

Við byrjuðum vel. Náðum okkar besta hraðapakka hingað til. Hann var næstum því fullkominn. Eftir vísbendingarnar höfðum við svo fjögurra stiga forystu sem þó hefði getað verið meira enda höfðum við séð það fyrir að spurt yrði um regnboga.
Bjöllubardaginn var hins vegar slæmur. Við byrjuðum illa þar með því að fara of snemma á bjölluna án þess að hafa greint eyjuna almennilega. Þó náðum við góðri siglingu þegar við náðum þremur bjölluspurningum í röð og eftir sem bjölluspurningar var staðan 27-21. Skemmst er frá því að segja að stigin okkar urðu ekki fleiri. Við urðum allt of bráðir í kjölfarið og fórum of snemma á bjölluna þrisvar í röð. Svo þegar við ákváðum að fara varlega tóku Borghyltingar stigið.
Ég ætla ekki að æða mörgum orðum um hláturinn, ég veit að við þrír vorum þeir einu í salnum sem vorum ekki búnir að fatta svarið eftir tvær vísbendingar. Ég hélt svo að við værum endanlega búin að kasta sigrinum frá okkur þegar við náðum ekki þríþrautinni. Sem betur fer náðu Borghyltingar ekki þrautinni svo þannig fór sem fór, 27-26.
Ég vil þakka Borghyltingum fyrir spennandi keppni. Þeir voru góðir í ár, því er ekki að neita.

Annars er það að frétta að ég bauð mig fram til scribu scholaris (ritara skólafélagsins). Til að gera langa sögu stutta, þá tapaði ég.

laugardagur, mars 01, 2008

GB: 26-23

Það er gott að vera búnir með erkifjendur okkar úr Verslunarskólanum. 26-23 eru ágætis úrslit. Hraðinn var allt í lagi fyrir utan fyrstu og síðustu spurninguna sem var hálfgerður klaufaskapur. Ég er sáttastur með bjölluspurningarnar þar sem við fórum alltaf á réttum tíma á bjölluna og náðum góðu forskoti á Verslinga. Við hefðum þó mátt fara fyrr á bjölluna í vísbendingaspurningunum um Norðurljósin og Nebúkadnesar. Verst að ég misheyrði síðarnefndu vísbendingaspurninguna. Mér heyrðist hann spyrja um konu í staðinn fyrir konung og þess vegna var ég farinn að renna yfir konur úr Gamla testamentinu í huganum.

Vetrargerðurinn í Smáralindinni er ekki góður keppnisstaður. Illa heyrðist í Sigmari þegar hann las hraðaspurningarnar fyrir okkur. Kliður heyrðist úr Smáralindinni og auk þess heyrðist í útsendingunni sem var örfáum sekúndum á eftir. Einnig voru of fá sæti þarna. En það var óneitanlega gaman að fá tækifæri til að skjóta á Kópavog fyrir framan hálfa þjóðina.

Annars þakka ég Verslingum fyrir góða keppni.

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Án titils

Mitt íslenska hjarta fyllist stolti þegar...

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Nema hvað

Ég vil óska Hagaskóla til hamingju með sigurinn í Nema hvað, spurningakeppni grunnskólanna. Það er ánægjulegt að Mímisbrunnurinn sé kominn aftur á réttan stað.

mánudagur, janúar 14, 2008

GB: 25-11

Þá höfum við tryggt okkur sæti í 8-liða úrslitum eftir öruggan sigur á Menntaskólanum á Ísafirði. Ég hef lítið um þessa keppni að segja nema að það var frekar slakt af hálfu dómara að koma með sömu hraðaspurningu tvær keppnir í röð og Kántrý-tónlist er, að mínu mati, frekar leiðinleg tónlist. Annars var ég sáttur með okkar frammistöðu og stuðningsmenn okkar þ.e.a.s. þessa 20 sem mættu.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

GB: Breytt áætlun!

Það er búið að draga upp á nýtt. Við mætum Menntaskólanum á Ísafirði næsta mánudagskvöld!


*Upphafleg færsla*


Við fáum Kvennaskólann í 2. umferð í Gettu betur, annað árið í röð. Í fyrra mætti Kvennaskólinn með ágætis lið en enn þeirra er núna eftir. En það er líka alltaf stemning að keppa á móti nágrannaskóla. Keppnin fer fram miðvikudaginn kl. 19.30 í Útvarpshúsinu. Allir að mæta!

þriðjudagur, janúar 08, 2008

GB: 33-7

Árið 2008 byrjar bara nokkuð vel hjá okkur. 33-7 verða að teljast bara nokkuð góð úrslit. Hins vegar var ég ekki sáttur með hraðann. Ég klúðraði einni biblíuspurningu snemma í hraðanum og sat það svolítið í mér í næstu spurningum þar á eftir en ég var mjög lengi að taka Börn náttúrunnar og Galdhøpiggen, en svörin komu þó á endanum. Einnig var það mjög klaufalegt að segja Hvammsfjörður í staðin fyrir Hvammstanga. Þrátt fyrir það eru 16 stig ágætis árangur á 80 sekúndum. Hins vegar finnst mér hraðinn aðeins of stuttur. Bjölluspurningarnar voru góðar hjá okkur, 13 stig af 16, auk fjögurra stiga úr tóndæmum. Þetta var í fyrsta skipti frá því að ég hóf leik í Gettu Betur fyrir tveimur árum, að við náum ekki meirihluta stiga okkar úr hraðanum.
En í heildina litið var ég bara sáttur við þessa keppni.