Þó svekkjandi hafi verið að sjá Ísland tapa úrslitaleiknum er ekki hægt að segja að úrslitin hafi komið á óvart. Stærsti sigurinn í raun þegar unninn og leikmennirnir orðnar þjóðhetjur. Því var í raun lítil pressa á þá. Frakkarnir þekkja svona árangur og hefðu því síður sætt sig við silfrið. En það voru þó Íslendingarnir sem komu þessari óþekktu íþrótt í sviðsljósið enda fulltrúar fámennar þjóðar. Frakkarnir fóru ekki á forsíðu New York Times eða fengu umfjöllun í blöðum á borð við Washington Post. Hvort umfjallanir sem þessar eiga eftir að auka vinsældir íþróttarinnar skal ósagt látið. Vonum samt ekki, það yrði slæmt ef 300 milljóna þjóð með mikla íþróttahefð uppgötvar hana.
Það er gaman að vera Íslendingur á svona degi. Smáþjóðarsálin blossar upp. Við erum neðarlega í verðlaunahafi ólympíuleikanna en við kunnum því betur að meta þessi einu silfurverðlaun okkar. Það er því kannski hollara að tilheyra 300.000 manna þjóð, og kætast í þau fáu skipti sem gengur vel á sviði íþrótta, en stórri þjóð, sem telur sig hafna yfir aðrar þjóðir og skeytir litlu um hver verðlaun fyrir sig (engin sérstök þjóð tekin fyrir).
Sjálfur er ég stoltur af því að vera Íslendingur. Við erum ekkert endilega best í heimi (þó gaman sé að hrópa það upphátt), en við eigum margt til að hreykja okkur af og megum vera stolt af því sem við höfum. Þjóðin er lítil en þjóðarsálin er stór.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli