Ég var að sjá hina átakanlegu mynd "Der Untergang" áðan. Myndin fjallar um síðustu daga Hitlers í neðarjarðarbyrginu og ástandið þar og á götunum í Berlín. Myndin er bara mjög góð og átakanleg, ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég á að segja yfir höfuð.
Ég á það til að vorkenna hinum mestu illmennum. Um tíma fann ég til með Hitler þegar honum leið illa (dæmið mig bara) en ekki lengi þar sem Hitler var alveg snauður af miskunasemi og samúðarkennd. Ég hef aldrei séð mynd frá hans sjónarhorni (The Great dictator er ekki talinn með þar sem hún sýnir óraunveralega en þó skemmtilega mynd af Hitler). Ég fór í byrjun að velta því fyrir mér hvort það leyndist eitthvað gott undir þessu illmenni, eftir allt þá var hann einu sinni saklaust barn. Eftir því sem leið á myndina sá ég að svo var ekki. Hugmyndafræði hans var hrein illska. Um helförina vita allir. Svo er það líka það hugarfar að gefast ekki upp í vonlausri stöðu þrátt fyrir að fleiri saklausir borgarar myndu deyja, réttlæta það með því að segja að þeir væru aumingjar og ásaka þá sem vildu gefast upp, um landráð. Það var heldur engin sorg þegar hann drap sig. Vogið ykkur ekki að halda að ég líti upp til hans hafi það verið einhver vafi.
Svo var það fólkið í kring um hann. Sumt af því sýndi mikla hollustu við hann. Eva Braun var honum alltaf hundtrygg og dó með honum eins og menn vita. Svo var það frú Goebbels með öll sín saklausu börn sem dýrkuðu "Hitler frænda" án þess að vita um illsku hans. Ég vorkenndi þeim svo mikið, á því leikur enginn vafi. Þegar nasisminn var að hrynja áttu þau ekki að fá að lifa bjarta framtíð án hans. Þess vegna drap hún börnin með blásýru þegar þau sváfu.
En svo eru það auðvitað óbreyttu borgararnir sem þurfa að upplifa helvítið á götunum. Og auðvitað var Hitler sama um þau. Stríð er bara helvíti á jörðu og ég skil ekki hvernig mönnum dettur í hug að vera að heyja stríð hvor við annan. Það vita líka allir að enginn vinnur í stríði, það tapa allir.
Það er svo margt sem ég get sagt um þessa mynd og örugglega eitthvað sem vantar. Ef það eru einhverjar villur í þessum pistli þá leiðréttið þið mig bara. Reyndar verð ég ekki mikið á netinu á næstunni út af prófunum og veit því ekki hvort ég geti svarað öllum athugasemdum. Svo má líka vel vera að pistillinn verði mistúlkaður. Það verður þá bara að hafa það.
1 ummæli:
Sigga:
til hamingju með daginn um daginn!! og der untergang er góóð mynd!
Skrifa ummæli