mánudagur, desember 20, 2004

Jólafrí!

Jibbí, ég ætla að halda upp á það með því að fá mér blund.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Loksins, loksins!

Það var mikið að einhver ráðamaður áttaði sig á að að Íraksstríðið var mistök.

1. í aðventu

Ég minntist hér í síðasta mánuði á að menn ættu ekki að undirbúa jólin fyrr en 1. í aðventu og nú er sá dagur runninn upp og ég er formlega farinn að hlakka til jólanna.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Náttúra Íslands er falleg!



Það er gaman að enn sé verið að mótmæla Kárahnjúkavirkjun.
Myndin er tekin á svæðinu sem verður tortímt.
Til gamans þá eru fleiri myndir af því svæði hér.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Snjórinn kominn.

Ekki má nú gleyma snjónum sem er kominn. Nú er landið loksins farið að standa undir nafni. Nú verður snjórinn að haldast fram að jólum og helst lengur. Reykjavík lítur líka svo vel út í vetrardýrðinni.

Kíkt í gömul skólablöð.

Skólinn í dag var heldur götóttur en þó skárri í gær. Það voru fjórir tímar sem féllu niður hjá mér. Tímannum eyddi ég í sal og upp á bókasafni. Uppi á bókasafni kíkti ég á nokkur gömul skólablöð. Gæðin voru ekki mikil en efnið var fínt. Í einu þeirra (frá árinu "87) var viðtal við þáverandi kennara Bjarna Fr. Karlsson (faðir Bjarna Frímans) þar sem hann sagði ýkjusögu (með mikilli áherslu á fyrstu fjóra stafina) af Einari Magnússyni núverandi skólastjóra. Þetta eru fín blöð og gaman að kíkja einstaka sinnum.

miðvikudagur, október 27, 2004

Haukar aftur sigraðir.

Var að spila æfingaleik við Haukana í kvöld. Í þetta skiptið var það a-liðið að mestu leyti. Við unnum og eru haukarnir lakari en ég hélt. Ég stóð mig vel, skoraði 8 mörk (þar af eitt með hægri) og tókst að gera einn Haukanna alveg brjálaðan með varnarleik mínum.

fimmtudagur, október 21, 2004

Haukar sigraðir.

Haukar C reyndust okkur ekki mikil fyrirstaða í bikarkeppninni og unnum við 20-9. Ég stóð mig ágætlega. Skoraði 2 mörk og tók hressilega á í vörninni þar sem ég uppskar gult spjald og 2 mín. brottvísun. Við erum því komnir áfram í bikarnum og hef ég ekki hugmynd um við hverja við keppum næst enda ekki búið að draga í næstu umferð.

fimmtudagur, október 14, 2004

Jólin nálgast

Ef ég er góður í reikningi þá eiga að vera 71 dagur til jóla. Ef ég er slæmur þá er það ábyggilega áhrif frá verkfallinu. Ég er mikið jólabarn og skammast mín ekki fyrir það. Þó kemst ég ekki í jólastuð fyrr en á 1. í aðventu enda eiga menn þá að byrja að undirbúa jólin. Þó er ég búinn að sjá eina jólaauglýsingu. Og það ekki frá risum á markaði s.s. Bónus eða Húsasmiðjunni, heldur frá einhverri gardínubúð. En ég er þó strax farinn að hlakka óformlega til jólanna.

fimmtudagur, október 07, 2004

Æfingaleikur við Víking

Var að spila æfingaleik við Víkinga. Held að við unnum með einu marki. Ég stóð mig sæmilega, skoraði 1 mark.
Annars er ég mjög ánægður með að vera kominn aftur í handboltann og í rauninni dauðsé ég eftir því að hafa hætt í 1 ár. Held nú samt að það komi ekki mikið niður á mér núna. Ég hef líka góðan þjálfara sem er nýr. Mér hefur í raun sjaldan eða aldrei gengið betur

þriðjudagur, október 05, 2004

Mér líst vel á...

tillögu Yoko Ono um að setja friðarsúlu í Reykjavík.
Sjá meira um það hér.

sunnudagur, september 26, 2004

MSN, Já!

Þá er maður loksins kominn með MSN með dyggri aðstoð frá Ella og Haffa. Netfangið er bjornreynir@hotmail.com.

laugardagur, september 25, 2004

Blindrabolti

Það er gaman að horfa á ólympíuleikanna. Maður sér mikið af ýmsum furðuíþróttum s.s. sundknattleik. En nú eru ólympíuleikarnir löngu liðnir og núna komnir ólympíuleikar fatlaðra. Ég kíkti aðeins á samantekt frá leikunum og sá þar fótbolta. Það skemmtilega við fótboltann var það að allir leikmennirnir voru blindir eða sjónskertir. Og til að tryggja endalega að leikmenn sjái ekki neitt er bundið fyrir augu þeirra. Hvernig er hægt að spila fótbolta án þess að sjá nokkuð. Hvernig finnur maður markið og hvernig finna menn samherja sína og í greina þá í sundur frá mótherjum? Ég bara skil það ekki.

Kvikmyndagagnrýni: Rear window

Það er orðið langt síðan að ég hef sent frá mér kvikmyndagagrýni og hreinlega komin tími til þess. Það var Hitchcock-myndin Rear window sem varð fyrir valinu.

Myndin fjallar um L.B. Jeffries, atvinnuljósmyndara sem er fótbrotinn og hefur ekkert betra að gera en að líta út um gluggann og njósna um nágranna sína. Dag einn verður hann var við grunsamlegt athæfi hjá einum manni. Hann grunar morð enda bendir ýmislegt til þess. Hann byrjar að fylgjast með manninum og reynir að fá rannsóknalögreglumann með sér í að leysa gátuna en rannsóknarlöggan trúir honum ekki því að ýmislegt annað bendir til þess að konan sem á að hafa verið myrt, sé á lífi.

Rear window er mjög áhugaverð mynd. Sögusviðið er einfalt. Myndin gerist öll í íbúð Jeffries og í bakgarðinum þar sem sjá má inn í marga glugga. Og í einum glugganum ásamt íbúðinni gerist sagan. En þrátt fyrir einfaldleikann er myndin mjög spennandi og maður veit ekki fyrr en í lokin hvort að morð hafi verið framið eða hvort maðurinn sé klikkaður. Það þarf því ekki mikið til að gera spennandi sögu. Þetta er mjög góð mynd og hvet ég ykkur til að sjá hana.

Til gamans í lokin:
  • Aðalkvenpersónan er leikin af Grace Kelly sem giftist furstanum af Mónakó eftir kvikmyndaleikferil sinn og lést svo í bílslysi 1982.
  • Gert var grín að myndinni í The Simpsons þegar Bart fótbrotnaði og hélt svo að Ned Flanders hefði drepið konu sína.

mánudagur, september 20, 2004

Ótímabundið iðjuleysi.

Þegar kennarar eru í verkfalli hef ég lítið að gera þegar ég er ekki á æfingum. Og um leið og verkfallið byrjar er strax farð að nöldra í manni um að taka til í herberginu.
Ég vil komast aftur í skólan þó að ég þurfi að vakna snemma. Maður hefur a.m.k. eitthvað fyrir stafni.

föstudagur, september 17, 2004

Hvenær er skemmtilegast á æfingu?

Svar: Þegar þjálfarinn mætir ekki.

fimmtudagur, september 16, 2004

"Nema hvað!": liðið skipað.

Þá er loksins búið að skipa "Nema hvað!" liðið (eða næstum því). Í liðinu verða ég, Hafsteinn og svo annað hvort Erling eða Þórður en allir eru þeir í bekk með mér. Þess má geta að í fyrsta sinn sendir Hagaskóli lið sem er eingöngu skipað strákum. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem allt liðið er í 10. bekk og það meira að segja í sama bekknum.

mánudagur, september 13, 2004

Ég er klikkaður

Ég hef mikð dálæti á Bítlunum og tók því þetta próf til gamans og þetta er niðurstaðan:

sgt. pepper
Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band


Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla

Ég er greinilega tilraunagjarn og bara klikkaður.

MSN, ha?

Ég er nú meiri tölvusnillingurinn. Eða annað. Ég veit ekkert hvernig maður nýskráir sig inn á þetta MSN!

fimmtudagur, september 09, 2004

"Nema hvað!": Forkeppnin.

Var að koma úr forkepninni í "Nema hvað!". Ég held að ég sé nokkuð öruggur í liðið í 3. sinn. Spurningarnar voru ekki mjög erfiðar. Í rauninni voru þetta að mestu leyti sömu spurnigar og í síðustu tveimur forkeppnum. T.d. voru efnisspurningarnar voru þær sömu og fyrr á árinu þ.e.a.s. þegar ég var í 9. bekk. Ekki besta framtak Ómars og Tryggva sem eru góðir kennarar og geta gert betur.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Hættur í fótboltanum.

Ég staðfesti hér með að ég er hættur í fótboltanum. Það er bara orðið leiðinlegt að æfa fótbolta og ég held að Pétri sé alveg sama þótt að ég sé hættur. Í staðinn ætla ég að snúa aftur í handboltann.

Skólinn byrjaður.

Þá er skólinn byrjaður og ég formlega orðinn 10.bekkingur. Ég fór á skólasetningu í morgun og lenti ég með Inga Viðar sem umsjónarkennara. Ingi talaði mikið og fór sérstaklega út í það að hann hefði beygt krókana á borðinu svo hægt væri að hengja töskurnar á þá. Annars er ég ágætlega spenntur að byrja í 10. bekk og líst mér ágætlega á valfögin sem ég valdi mér. Heimspeki II á mánudögum, frönsku og kvikmyndasögu á þriðjudögum, þýsku á fimmtudögum og íþróttafræði á föstudögum. Svo hef ég sett mér markmið fyrir þetta tímabil.

  1. Að ná 9 í meðaleinkunn á samræmdu prófunum. Ég stefni á MR og er mikilvægt að ná góðum árangri til að komast í þann skóla. Það er erfiðara að komast í skólann núna heldur en þegar systkyni mín komust í hann.
  2. Að vinna Nema hvað! Við vorum mjög óheppin í fyrra þegar við féllum út úr keppninni í bráðarbana á móti Breiðholtsskóla. Ég er einn eftir í liðinu svo það verður að mestu leyti nýtt lið.

Að lokum: Gangi ykkur vel í skólanum!

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Menningarhelgi!

Hún hefur verið viðburðarík helgin hjá mér. Vinur minn frá Flúðum, Hörður Már, kom í heimsókn.
Föstudagskvöldið var farið í bíó á myndina "The Village". Mér fannst myndin ágæt en engin stórmynd. Hún var svolítið öðruvísi en ég bjóst við og ég lét endinn koma mér á óvart.
Morguninn eftir var vaknað kl. 9 og hitað upp fyrir Reykjavíkurhlaupið (ég ætla ekki að kalla þetta maraþon því að ég hljóp ekki 42 km). Þetta var í fyrsta skipti sem ég tók þátt og fór ég beint í 10 km. Ég var u.m.þ. 55 mín. að hlaupa þessa 10 km. Ég er bara nokkuð sáttur við tíma minn þar sem þetta var í fyrsta sinn sem ég hljóp svona mikið og það að ég hef lítið hlaupið í sumar. Ég er einnig sáttur við endasprettinn þar sem ég gaf í og tók fram úr mörgu fólki. Hörður hljóp líka og kom í mark rétt á eftir mér.
Um kvöldið fórum við á stórtónleika Rásar 2. Við horfðum á Leaves spila og voru þeir bara góðir. Leaves er svona hljómsveit sem maður þarf að skoða betur. Við nenntum ekki að horfa á Írafár og Brimkló svo við fórum í kolaportið og skoðuðum vörur þar og keypti ég Bítlamyndina "The Magical mystery tour". Ég horfði á myndina í dag og er það bara fyndið hvað þessi mynd er mikil sýra. Við komum svo aftur á tónleikana þegar Egó byrjaði að spila og þeir klikkuðu ekki. Svo fórum við bara heim eftir flugeldasýninguna og horfðum á "Gangs of New York" og fórum síðan að sofa.
Hörður fór heim um hádegið í dag og ég fór í fjölskyldugrillveislu um kvöldið og þar lauk helginni og sumarfríinu hjá mér.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Kvikmyndagagnrýni: American graffiti

Í gær sá ég einnig myndina American graffiti frá árinu 1973. Myndin fjallar um síðasta kvöld nokkurra stráka áður en þeir fara í Háskóla. Hún segir frá vinsælum stráki og samband hans við kærustu sína sem fer upp og niður, nördinn sem fær að keyra bílinn hans og tekur sæta stelpu upp í bílinn, gaur sem leitar að stelpu sem blikkaði hann og lendir í útistöðum við gengi og svo spyrnukóng sem situr uppi með 13-14 ára stelpu.

Mér fannst myndin nokkuð skemmtileg. Hún er einföld og fyndin. Þetta er fyrsta unglingamyndin og lýsir hún samfélagi ungmenna árið 1962. Ég hafði gaman af því að sjá þessa mynd og kynnast samféleginu á þeim tímum. Hitt veit ég ekki hvort myndin gefi upp skýra mynd en ég geri ráð fyrir því. Ég myndi gefa myndinni 6,5 í einkunn. Maður Springur ekki úr hlátri en maður hlær  Þess má geta að þetta er fyrsta myndin sem Harrison Ford lék í og fyrsta myndin sem George Lucas leikstýrði. Þessi mynd er klassísk, endilega kíkið á hana.

Kvikmyndagagnrýni:Mystic river

Í gær sá ég myndina Mystic river. Myndin byrjar í fortíðinni þegar aðalpersónurnar, Jimmy, Sean og Dave eru litlir. Þegar þeir eru að leika sér er Dave numinn á brott af barnaníðingum. Þá víkur sagan til nútímans. Dave, þjáður af slæmum minningum, kemur heim alblóðugur kl. 3 um nótt af skemmtistað. Daginn eftir finnst dóttir Jimmys myrt. Lögreglan, með Sean í forystu, byrjar að rannsaka morðið. Jimmy, með fortíð í glæpastarfsemi, lætur fylgjast með morðrannsókninni. Grunur beinist svo fljótt að Dave sem er óvenju þögull.

Þetta er mögnuð mynd. Sagan er mjög góð og hún er mjög vel sett upp í þessari mynd. Hú er einnig vel leikin enda stórt samansafn af góðum leikurum s.s. Sean Penn, Tim Robbins, Kevin Bacon og Laurence Fishbourne. Í rauninni hef ég ekki mikið að segja um myndina. Hún var einfaldlega frábær.

Enn og aftur. Ég hvet ykkur til að skrifa ykkar skoðanir um myndina og/eða gagnrýnina.

mánudagur, júlí 19, 2004

Hugsaðu upphátt!

Ég hef tekið eftir því að fáir hafa hugsað upphátt (gert athugasemdir, eins og margir myndu orða það). Nanna, systir mín, hefur kvartað yfir því að það væri ekki hægt að gera athugasemdir, en það er hægt. Ef það eru margir sem vita  ekki hvernig er hægt að gera athugasemdir, þá ætla ég að fara í ferlið frá A-Ö.
Ef þú hefur þetta allt á hreinu þá geturðu sleppt því að lesa efnisgreinina fyrir neðan. 

Til að sjá athugasemdirnar skal smella á tengilin neðst til hægri (0 hugsa(r) upphátt).Ætli maður að gera athugasemd, þá skal maður smella á tengilin þar sem stendur: "Post a comment" (ætla að breyta orðalaginu). Þar vandast málð. Það birtist síða þar sem stendur "sign in" og allt sem því fylgir. Þetta kerfi er frekað hugsað fyrir "blogspot"notendur. Ef maður er ekki einn af þeim þá smellir maður á tengil þar sem stendur Anonymous. Þá skrifar maður sína athugasemd og til að hún birtist þá smellir maður á stóra ljósbláa takkan þar sem stendur "Puplish your comment". Þá ætti athugasemdin að birtast.
Ég vona að þið hafi haft gagn og gaman af þessari fræðslu minni.
 
Ég hvet ykkur til að vera dugleg að hugsa upphátt.

mánudagur, júlí 12, 2004

Kvikmyndagagnrýni: Harrry Potter 3

Ég sá Harry Potter og fangann frá Azkaban í gær. Mér fannst myndin ekkert sérstök. Ég hef lesið bókina þó að ég muni lítið úr henni. Ég ætla ekkert að vera mikið að bera saman bókina og myndina. Mér fannst ósköp lítið gerast í myndinni fram að seinustu atburðarásinni. Eins og allt gerðist í þessari seinustu atburðarrás.
Það var minna gert úr persónunum nema Harry, Hermione, Sirius Black og Lupin. Aðrar persónur s.s. Snape, Draco Malfoy, Ron og Dumbledore voru mjög óáberandi. Og talandi um Dumbledore, Þetta var einhver allt annar Dumbledore en í fyrri myndunum. Þessi virtist ekki jafnfullur af visku eins og sá fyrri. Það þarf að finna nýjan leikara til að leika Dumbledore. Í rauninni fannst mér minna gert úr söguþræðinum og nánast hlaupið í gegn um hann.
Mér fannst myndin í heild sinni engin stórmynd en ég get þó horft á hana mér til skemmtunar og ég bíð spenntur eftir næstu mynd.

Ég hef áhuga á umræðum um myndina á umræðutorginu sem fylgir nýja útlitinu. Endilega segið ykkar skoðanir og leiðréttið mig ef með þarf.

föstudagur, júní 11, 2004

Sigur

Ég keppti í fótbolta í dag. Það var Fimleikafélagið sem var andstæðingurinn. Fór svo að við unnum leikinn 2-1. Ég stóð allan leikinn í markinu í dag og ég stóð mig vel. Sennilega besti leikur minn í langan tíma.

fimmtudagur, júní 03, 2004



Ég hvet ykkur til að skrifa undir þennan lista!

ÍsBjörninn er kominn aftur.

Hafið ekki áhuggjur, ég er ekki hættur að skrifa. Ég tók mér bara smá hlé á meðan prófunum stóð. En nú eru þau búin og ég er kominn aftur á netið. Það er alveg hrikalega margt sem hefur gerst í þessu hléi.

Ber þar hæst að nefna það að forsetinn skrifaði ekki undir fjölmiðlalögin. Eru þetta tímamót í sögu lýðveldisins því að forseti hefur ekki áður neitt þessu valdi áður. Ég er ánægður með það að hann skrifaði ekki undir lögin. Bæði vegna þess að ég er á móti þessum lögum og einnig þess að með þessu fær þjóðin að ákveða hvort frumvarpið verði að lögum eða ekki. Sumir telja þetta vera árás á alþingi en í þessu máli er þingið og þjóðin ósammála og ég tel að vilji þjóðarinnar sé mikilvægari en vilji Alþingis.
Framundan eru forsetakosningar og líst mér ágætlega á Baldur Ágústsson þar sem hann hefur svipaðar skoðanir og ég um forsetaembættið. En Ólafur Ragnar hefur þó hækkað í áliti eftir að hafa beitt málskotsréttinum.

En nóg um það. Sumarið er framundan og ég er næstum því kominn í sumarfrí. Bara skólaslit eftir en þa teljast varla með hjá mér.
Ég skrifa meira síðar.

föstudagur, maí 07, 2004

Ég keppti á móti Leikni síðasta miðvikudag. Við unnum 6-1. Ég spilaði allan leikinnum og stóð mig sæmilega. Fékk þó á mig vítaspyrnu sem mér þótti heldur stangur dómur.
Svo er ég núna kominn með gleraugu sem ég nota þó aðallega í tímum.
Annars hefur lítið á daga mína drifið.

laugardagur, apríl 24, 2004

Búið að vera skemmtilegur laugardagur í dag. Ég var að keppa á móti Fram og við unnum 6-0. Ég spilaði allan leikinn og gerist það ekki á hverjum degi. Og svo vann Liverpool Manchester United í dag og er það alveg frábært. Sem sagt, frábær dagur.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Ég er búinn að skrifa nafnið mtt á undirskriftarlista til að fá Paul McCartney til að spila á Íslandi. Ég hvet ykkur til að gera það sama. Það eru um 2300 manns á listanum þegar ég er að skrifa þetta og þeim fjölgar stöðugt á þessum tímapunkti. Til gamans er nafn mitt nr. 2286 á listanum.

laugardagur, apríl 17, 2004

Það er orðið of langt síðan ég skrifaði síðast. Þar hefur ýmislegt gerst. Ber þar hæst að nefna að ég fór að ganga Fimmvörðuhálsinn með unglingadeild björgunarsveitarinnar. Fyrir þá sem ekki vita er Fimmvörðuháls 22 km gönguleið sem liggur á milli Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls og er lagt af stað frá skógum og gengið í Þórsmörk (eða öfugt). Við lögðum að stað mjög seint og löbbuðum í myrkri. Við voruð svoítið lengi að ganga þetta og við stoppuðum eftit 2 km. þá var ákveðið að snúa við því að við áttum 6 tíma göngu eftir og svo var leiðin ekki öll fær. Við gengum því aftur til Skóga og keyrðum upp í Þórsmörk. Það tók langan tíma að keyra til Þórsmerkur því vegurinn var slæmur og myrkrið var mikið. og svo þegar á leiðarenda var komið fékkst engin gisting í skála. Við sváfum því aðeins í rútunni en það var orðið bjart þegar við stoppuðum. Eftir það fórum við í stutta gönguferð og síðan bara heim.

Annars hefur lítið gerst nema að ég byrjaði í skólanum og fór í klippingu.

Svo vil ég að lokum einnig hvetja ykkur til að skrifa undir þennan lista!

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega páska!

Það er bara ágætur páskadagur hjá mér. Ég vaknaði snemma í morgun og fór í messu kl. 8 eftir það fór ég heim og lagði mig. Eftir það fékk ég mér páskaegg og á ég í nokkrum erfiðleikum með að klára það. Svo komu foreldrar mínir heim frá Skotlandi. Svo förum við í matarboð til frænku minnar í kvöld.
Hafið það bara gott um páskana.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Það var leikur í dag á móti Þrótti. Sá leikur endaði 1-1. Ég fékk ekki að koma inn á! Ég er mjög svekktur.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Það er bara nóg að gera í dag. Ég var í enskuprófi í dag og mér gekk bara ágætlega. Svo var einnig píp-test í íþróttum og náði ég 11 og setti persónulegt met. Svo í dag er ég að fara á "Hárið" sem er sýnt í Hagaskóla. Svo í kvöld fer ég á leikritið " Þetta er allt að koma" , eftir Hallgrím Helgason, með bekknum.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Við kepptum við Víking í fótbolta í gær. Við unnum 3-2. Ég stóð mig ágætlega þrátt fyrir nokkur klaufaspörk.
Ég var svo í farskóla leiðtogaefna áðan. Þetta var lokasamveran og þá komu foreldrar með. Það kom svo í hlut föður míns ,sem umboðsmanns biskups, að afhenda viðurkenningarskjöl. Og hann afhenti mér mitt viðurkenningarskjal og brá á það ráð að stíga einu þrepi ofar til að vera hærri en ég. Þetta var bara skemmtilegt kvöld.

Mér er hins vegar ekki skemmt yfir því að nú eru allir skyndilega farnir að tala um skólasundið eftir páskafríið. Ég ætla nú ekki að vera að eyðileggja páskafríið með slíkum áhyggjum.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Ég ákvað að feta í fótspor Gísla og taka rokkhljómsveitakönnunina. Og ég er...

Cream
You Are: Cream. It was all about the psychadelic
factor, with good lyrics... but not great. Not
too many people have heard of you, and your a
tad on the one-hit-wonder side.


What Classic Rock Band Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, mars 10, 2004

Árshátíðin í kvöld og ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera ekki búinn að finna mér föt. En mér er sama. Ég tek gagnrýni ekki illa og ætla bara núna snöggvast að finna mér föt (það ætti ekki að taka langan tíma) og njóta árshátíðarinnar enda spila Stuðmenn þar.

laugardagur, mars 06, 2004

Er að horfa á breska mynd um Elísabetu 1 , Englandsdrottningu, með öðru auganu. Getið hver leikur í henni. Enginn annar en stórleikarinn Eric Cantona. Ekki vissi ég að hann væri leikari.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Og já. Ég veit að þetta svindl fer ekki saman við Kanadabúann í mér
Það er búinn að vera nokkuð skemmtulegt á listadögum í dag. Ég byrjaði í stjörnuspeki. Þar kom koma sem fræddi okkur um hvernig manneskjur væru sem eru fædd í ákveðnu stjörnumerki (t.d. naut). Ég er í nautinu og ég get gefið ykkur smá sýnishorn um það sem hún sagði um nautið: Nautið þarf mikinn tíma til að hita sig upp fyrir kynlífið og hefur á móti mikið úthald (ath. hún orðaði setninguna aðeins öðruvísi). Jú, hún talaði um kynlíf í stjörnuspekinni. Þetta var bara ágætis fræðsla hjá henni.

Eftir það fór ég í fjöltefli. Og ég hef eitt að segja sem þið trúið ekki upp á mig. Ég svindlaði. Nei annars, ég svindlaði ekki. Ég REYNDI að svindla. Það var þannig að þeir voru tveir sem tefldu fjölteflið, Hrafn Jökulsson, formaður Hróksins, og einhver Færeyingur. Færeyingurinn kom mér í vonlausa stöðu með því að færa drottninguna sína að kónginum mínum. Ég brá þá á það ráð að færa riddara hans um ein reit og kom honum úr völdunarstöðu. Þá kom Hrafn og ég þurfti auðvitað að drepa drottninguna og þá sá hann eitthvað athugavert við stöðuna. Færeyingurinn gæti ekki hafað leikið lélegan leik. Hrafn kallaði þá á Færeyinginn og sagði honum þá frá stöðunni og að það væri eitthvað athugavert við hana. Og viti menn, Færeyingurinn tók eftir þeirri litlu breytingu sem ég gerði og lagaði stöðuna. Eftir það mátaði hann mig með því að fær biskup. Ég gat ekki drepið biskupinn því að riddarinn örlagaríki valdaði hann. Og ég tapaði.

Þá eru listadagarnir búnir og mér fannst þeir bara fínir.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Listadagarnir eru byrjaðir og lenti ég bara í ágætum fögum. Ég byrjaði í "collage". Þá var sett blað á gólfið og málað á það með frjálsri aðferð. Svo fer ég í það í 2 skipti í viðbót að gera eitthvað meira með það. Eftir það fór ég í arkitektúr. Svo var farið í bíó á myndina "Love actually". Mér fannst myndin skemmtileg. Það voru einhverjir sem héldu að þeir væru áhorfendur í myndveri en ekki bíósal. Þau þurftu að trufla með klappi og köllum. Svo halda listadagarnir áfram á morgunn.

sunnudagur, febrúar 29, 2004

Ég ákvað líka að taka þetta próf eins og félagar mínir og ég er...



You're Canada!

People make fun of you a lot, but they're stupid because you've
got a much better life than they do.  In fact, they're probably just jealous.
 You believe in crazy things like human rights and health care and not
dying in the streets, and you end up securing these rights for yourself and
others.  If it weren't for your weird affection for ice hockey, you'd be
the perfect person.

Take
the Country Quiz at the
Blue Pyramid

mánudagur, febrúar 23, 2004

Við féllum áðan út úr Nema hvað við lítinn stuðning. Grettir, Logi og Danni K héldu uppi spjöldum en klapplið Breiðholtsskóla var öflugra enda voru þau um 30-40 á móti 4 nemendum Hagaskóla auk liðsstjóra og ræðuliðs. Einnig voru fleiri fullorðnir. Viðuregnin var sjálf æsispennandi og endaði 26-25 eftir bráðarbana. Svo að við erum dottin út úr keppninni.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Eftir að hafa gefið leitana að GSM-símanum á bátinn, þá fór ég ásamt foreldrum mínum til Símans að fá nýt kort. Síma þurtum við þó ekki að kaupa því að það er nóg af gömlum símum sem ekki eru lengur í notkun. Ég fékk nýtt símanúmer og þeir sem vilja vita það skulu bara tala við mig. Þetta nýja slagorð Símans, "Við hjálpum þér að láta það gerast", átti vel við í þessari ferð. Faðir minn er mjög ættrækinn (ég er það reyndar líka) og á meðan við biðum eftir þjónustu hitti hann ættfræðing. Hann talaði lengi við manninn og náðu þeir vel saman, talandi um ættfræði. Og hver hjálpaði föður mínum að láta það gerast? Jú, Síminn.