Undanfarna daga hef ég mikið bloggað um framhaldsskóla. Ég ætla að halda því áfram hér. Tilefnið er heimsókn í Verslunarskóla Íslands og vegum Gettu-betur liðsins þar (bæði liðsmenn og þjálfarar). Það er margt sem hægt er að segja um þá heimsókn. T.d. þá erum við komnir með verndarengil í Versló, hann Stefán Einar.
Okkur strákunum úr Nema hvað liðinu var boðið í heimsókn í Versló ásamt strákunum úr Laugarlækjarskóla. Eins og lesendur hafa tekið eftir, þá hef ég verið mjög yfirlýsingaglaður og neikvæður í garð Versló. En þeir hringdu í Hagaskóla og ég talaði svo við einn þeirra sem vildi fá okkur og sagði hann mér að svarnir óvinir okkar yrðu þarna (ég vissi ekkert um hvað hann var að tala um).
En þá að kynningunni. Við byrjuðum á því að skoða bókasafnið og hittum þar Steinunni á bókasafninu sem er kona Einars skólastjóra. Þar hefur liðið einmitt góða aðstöðu enda bókasafnið glæsilegt.
Eftir það fórum við í græna salinn. Við fengum ágæta fræðslu um námið þar frá námsráðgjafanum og nóg af lesefni. Svo byrjuðu strákarnir að tala um gettu betur. Þeir buðu okkur upp á flatbökur og þær voru vel þegnar enda var ég banhungraður. Þeir eru mjög metnaðaðarfullir í gettu betur og gera allt til að fá okkur í Versló. Þeir buðu okkur gull og græna skóga. Má nefna skólagjalda- og einingaafslátt. Einnig töluðu þeir um það hvað við yrðum valdamiklir og öruggir í Versló og jafnvel æðri en aðrir("þið verðið ekki almennir 3.bekkingar"). Þeir hafa greinilega mjög góð tengsl við skólastjórnina.
Það sást alveg á þeim hverjir voru keppinautarnir. Það voru MR. Þeir skutu mest á hann og töluðu þeir eins og þeir væru hættir að geta eitthvað í GB. Einnig skynjaði ég smá hroka í garð allra hinna menntaskólanna (MR ekki meðtalinn) og mátti túlka að þeir væru eitthvað verri .Þer töluðu líka eins og þeir hefðu unnið keppnina 11 ár í röð og væru langbestir og að enginn annar skóli gæti unnið keppnina. En þrátt fyrir allt voru þeir ósköp vingjarnlegir, þeir vilja okkur vel og við náðum ágætlega saman yfir flatbökumáltíðinni.
Einn þeirra var þó áberandi leiðtoginn í hópnum, það var hann Stefán Einar. Hann er mjög staðfastur og einnig ögrandi. Það fór hins vegar í taugarnar á mér hvað hann var mikil karlremba. En talaði eins og stelpur gætu ekki tekið þátt í spurningakeppnum en bjargaði sér þó fyrir horn með því að segja að þær væru of samviskusamar í náminu sem er ekkert slæmt. Svo var það karlrembuhúmorinn. Hann talaði eins og ljóskur í Versló væru sjálfsagður hlutur handa okkur og einnig talaði hann um þær sem druslur eftir að ég hafði talað um druslur sem lélegar sjálfrennireiðar. Ég vona að stúlkur í Versló láti þetta ekki ganga yfir sig.
En það er einnig margt gott í fari hans. Hann veit auðvitað mjög mikið og sérstaklega fróður um guðfræðina. Hann spurði okkur hver yrði næsti páfi. Ég bjargaði mér með því að segja: "Ítalski kardinálinn." Einnig vill hann okkur ósköp vel. Hann hefur heitið okkur vernd í Versló. Þess vegna kallaði ég hann Verndarengilinn.
Eftir þessa heimsókn hafa fordómar mínir í garð Versló minnkað. Þeir hafa sannfært mig um að Versló sé góður skóli með gott fólk. Mér finnst það líka heiður að einn framhaldsskóli sé á höttunum á eftir mér. En ég ætla í MR og því fær engu haggað. Ég hef fjallað um þessa heimsókn með kostum hennar og göllum. Ég vil endilega heyra álit ykkar hvort sem þið eruð í Versló eða MR eða bara enn í grunnskóla. Ég lýsi hér með umræðuna opna. Takk fyrir mig.
9 ummæli:
Ég stefni á versló það er kanski bara útaf...
Já, Magnús, af því að... eða viltu kannski að ég klári setninguna fyrir þig?
Ég vissi ekki hvað ég átti að halda, hvort þú færir í Versló eða ekki!? En auðvitað kemur Björn Reynir í MR, það er engin spurning! Sjáumst á skólasetningunni.
Þetta var afar fróðlegur pistill, minn kæri frændi! :)
Til að hafa hlutina á hreinu, þá ætla ég í MR. Ég reyndi að vera hlutlaus í umfjöllun minni um þetta mál. Ekki of neikvæður en ekki heldur of heillaður. Ég vil ekki vera svarinn óvinur Versló. Sérstaklega ekki þegar ég er enn í grunnskóla.
Ég hef enga fordóma gegn öðrum skólum og veit að þessir tveir skólar eru báðir mjög góðir. Svo afhverju koma upp einhverjum rifrildum um hvor skólinn sé betri eða ekki Björn? ertu að reyna að æsa líðinn? og segðu mér hvers vegna þú hefur þessa fordóma ennþá í garð versló þótt þeir hafi minkað ?
Ef þú heldur að ég sé að skjóta á þig af því að þú ætlar í Versló þá er það rangt, ég var að skjóta á þig því að þú kláraðir ekki setninguna. Ef þú ætlar í Versló þá er það bara hið besta mál.
Ég hef gaman af fjörugum umræðum og ég er alveg til í að heyra sem flestar skoðanir á þessu máli. Hvort að menn missi sig veit ég hins vegar ekki.
Og að lokum þá býst ég við að allir hafi smá fordóma gagnvart öllum framhaldsskólum. Enginn getur ekki kannað þá til hlítar áður en hann myndar sér skoðanir.
Já, þetta var sannarlega fróðlegt. Vakti mér satt að segja dálítinn ugg.
Fyndið að lesa um þetta á forsíðu Fréttablaðsins og já ég verð að játa að þetta vakti örlítinn ugg hjá mér líka. Ég get þó ekki sagt að þetta komi manni á óvart. Ég trúi öllu upp á þessu gæja í ofanleitinu.
Að auki vil ég bara koma þeirri skoðun minni á framfæri að versló sux...
Skrifa ummæli