föstudagur, maí 13, 2005

Sitt af hverju tagi

Nú er ég búinn að þreyta fjögur samræmd próf. Mér hefur gengið ágætlega. Ég get ekki staðist það að blogga núna. Það er erfitt að vera í bloggbindindi þegar eitthvað frásagnarhæft gerist. Samræmdu prófin hafa vakið einhverjar óánægju raddir eins og venjulega. Núna fyrir ritun í íslensku sem þótti of pólitísk. Mér fannst það ágætt að geta komið skoðunum mínum á framfæri. Ritunin snerist um að taka afstöðu með eða á móti styttingu framhaldsskólanna. Ég tók auðvitað afstöðu gegn styttingunni.


En svo hefur ýmislegt gerst út í samfélaginu. Gunnar Örlygsson hefur yfirgefið frjálslynda flokkin og gengið til liðs við sjálfstæðismenn. Mér finnst þetta vera nokkuð asnalegt. Sjálfstæðisflokkurinn fær þarna aukaþingsæti frá kjósendum frjálslyndra. Það eru ekki margir gallar á lýðræðinu okkar en þetta er einn slíkur. Það ætti að breyta lögunum þannig að þingsæti tilheyri flokkum en ekki einstaklingum því það eru flokkarnir fólkið kýs.

Svo kom út nýtt blað sem fékk nafnið "Blaðið". Ég hef verið að skoða þetta blað og mér finnst það hálf innihaldslaust. Auglýsingar skipa mjög stóran sess í blaðinu. Inn á milli er litlum fréttum og örðum greinum, oft með myndum sem taka meira pláss, troðið inn. Blaðið er auglýst sem frjálst og óháð blað og sést það vel enda alls engin þjóðfélagsumræða í því. Svo er þeir heldur seinir með fréttirnar sem er furðulegt því blaðið berst heim til manns með póstinum um miðjan dag Ég hef þó tekið eftir einu. Á dagskrársíðum blaðsins eru bloggfærslur um sjónvarp birtar. Ég er sem betur fer óhultur því að þeir taka bara niður af blog.central.is síðum. Í heildina séð: Lélegt blað.

Nú ætla ég að hugsa um það sem er framundan. Það er svo margt til að hlakka til.

4 ummæli:

Hafsteinn G. H. Hafstein sagði...

Voðalega ertu dómharður. Fréttablaðið var nú ekkert til að hrópa húrra fyrir þegar það kom fyrst út. Róm var ekki byggð á einum degi, eða ég veit ekki betur.

Unknown sagði...

Mér finnst blaðið bara lélegt eins og það er núna. Öllum er hollt að fá á sig gagnrýni þó hún sé hörð.
Það má alltaf læra af þeim og ef þetta blað bætir sig í framtíðinni þá er það bara hið besta mál. Batnandi manni (og líka blaði) er best að lifa

Ég ætla svo ekkert að vera að bera þetta blað saman við fréttablaðið. Ég man ekki mikið eftir því hvernig það var í upphafi hafi það verið eitthvað mikið öðruvísi.

Hafsteinn G. H. Hafstein sagði...

En Björn, þú veist að þetta blað er líka markaðssett með það í huga að þetta sé bara smáréttur með seríosinu. Þess vegna er kannski ekki skrítið að það sé ekki verið að skrifa einhverja langa pistla um hitamál í þjóðfélaginu, aðrir miðlar fást feykinóg við það. Er það ekki rétt hjá mér að þér finnst þetta lélegt blað því þeir skrifa ekki um málefni sem þú hefur áhuga á? Sjálfum finnst mér gaman að lesa þetta, enda fær maður stuttar og laggóðar fréttir og umfjallanir sem maður getur rennt í gegnum á skotstundu, góður slúðurpakki aftast í blaðinu og fleira sem hæfir mér einmitt vel. Og svo finnst mér það sjaldan við hæfi að gagnrýna ókeypis miðla fyrir margar auglýsingar, jaðrar við vanþakklæti í mínum huga.

Unknown sagði...

Það leynast einstaka áhugaverðir punktar í þessu blaði en annars er ekki mikið í þessu blaði. Ég hef líka mjög takmarkaðan áhuga á slúðrinu. Þess vegna hef ég svona lítinn áhuga á blaðinu. Ég myndi afþakka blaðið. En þú mátt alveg njóta þess fyrir mér. Gjörðu svo vel.