Ég var að sjá síðustu Star Wars myndina, Revenge of tthe sith. Í umfjöllun minni hér á eftir gæti ég spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina.
Mér fannst myndin fara full geyst af stað. Hún byrjaði á full miklum hasar sem að mínu mati var óþarfur. Atriðið snerist um að frelsa Palpatine kanslara og það tókst, meira að segja var Dooku greifi veginn sem að vísu þjónaði sínum tilgangi. Þeir hefðu alveg geta sleppt atriðinu og látið greifann deyja í 2. kafla.
Eftir þennan endalausa hasar í byrjar svo sagan að ganga. Kastljósið beinist að Anakin Skywalker sem er stútfullur af tilfinningum. Á meðan gerist hann dyggur aðstoðarmaður kanslarans, sem er auðvitað Sith-meistarinn Darth Sidious, sem snýr honum gegn Jedi-riddurunum og býður honum mátt til að bjarga Padmé, heitelsaðri eiginkonu hans, frá Dauðanum.
Fyrri hlutinn finnst mér heldur langdreginn og ber mikinn keim af kafla 2 þar sem tilfanningasveiflur Anakins eru ráðandi. Yfir höfuð er hann ekki neitt sérstakur. Seinni hlutinn er hins vegar mun betri.
Myndin tekur stefnubreytingu þegar Anakin gengst Sidious endanlega á vald. Þá byrjar sagan að ganga og tengja nýju myndirnar við þær gömlu. Kanslarinn tekur endanlega yfir Lýðveldið og gerir það að keisaraveldi. Næst losar hann sig við alla Jedi-riddarana. Sú sena er dramatísk og aftökurnar minntu sumar á aftökur nasista á gyðingum á götum gettóa. Anakin verður endalega að illmenni og drepur síðan ástina sína með illskunni sem hann ætlaði að nota til að bjarga henni. Það er hins vegar gaman að sjá hvernig hann tekur endanlega á sig mynd Svarthöfða eftir að hafa brunnið illa í bardaga við Obi-Van Kenobi.
Þessi seinni hluti myndarinnar er bara nokkuð ágætur.
Í heildina séð er þessi mynd mun betri en kafli 1 og 2. En hún stendur gömlu myndunum langt að baki. Nýju myndirnar geta einfaldlega ekki keppt við þær gömlu. Þær gömlu eru einfaldari og minna um tilfinningaflækjur. Sagan fær virkilega að njóta sín og myndirnar eru ekki ofhlaðnar tæknibrellum. Bardagaatriðin eru ekki ofhlaðin leysigeislum. Svo hafa gömlu myndirnar líka betri húmor. Í þessari mynd var lítill húmor, jafnvel áður enn Jedi-slátrunin hófst. C-3PO og R2D2 voru þarna en fengu lítið að njóta sín. Það var líka gaman að sjá Chewbacca aftur þó hann fengi síður að njóta sín (enda enginn Han Solo með honum).
Ég verð reyndar að viðurkenna það að þessar myndir eru líka mikilvægar fyrir söguna í heild sinni. Það vantar bara ódauðleikann frá gömlu myndunum.
2 ummæli:
Auðvitað er samanburður á nýju og gömlu myndunum óumflýjanlegur en mér finnast myndabálkarnir engu að síður of ólíkir til þess að nokkur slíkur samanburður verði sanngjarn.
Annars stendur þessi mynd hinum nýju myndunum mun framar...
Já, kannski er samanburðurinn ósanngjarn. Þar er líka ósanngjarnt að nýju myndirnar eru dæmdar út frá honum en ekki sem stakar myndir.
Skrifa ummæli