laugardagur, mars 26, 2005

Bobby vs. Dorit!

Meira um Bobby Fischer. Ármann, frændi minn, benti mér á þá kaldhæðnislegu staðreynd sem gleymdist í öllum látunum, að forsetafrúin er auðvitað gyðingur. Eins og alþjóð veit, þá er Bobby gyðingahatari. Hvað mun Bobby segja um hana? Það ætti þó að vera ljóst að hann fær ekki höfðingjalegar móttökur á Bessastaði.

Bobby eða herinn?
Annars verð ég að hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir að þora að standa gegn Könunum. Aldrei hefði ég trúað því að Davíð þyrði að rísa upp gegn Bush og félögum. Gaman það. Og hver veit til hvaða ráðs Kanarnir taka, kannski taka þeir bara herinn burt (og vonandi taki til eftir sig) og þá yrði ég sáttur.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Draumur

Mig dreymdi í nótt að ég hefði fengið 3 í einkunn fyrir ritgerð um John Stuart Mill og nytjastefnuna. Það er nú bara eins gott að sá draumur (eða martröð) rætist ekki.

sunnudagur, mars 20, 2005

Stefnubreyting hjá Bush eða bara brandari?

Scott McClellan, talsmaður hvíta húsinns:
Well, the President stands on the side of defending life.
Þetta var sagt um Bush forseta þegar talað var um mál Terri Schaivo. En hér er talað um líf almennt og þá fer ég að velta því fyrir mér hvort þetta sé einhver brandari. Ég væri gjarnan til í að heyra þessa setningu í umræðunni um stríð og dauðarefsingar. Yrði þetta sagt um forsetann? Ég held ekki. Er þetta kannski einhver stefnubreyting hjá honum að hætta að drepa? Ég tel það nokkuð ólíklegt. En við vonum það.

laugardagur, mars 19, 2005

Kleppur er víða!

Já, þessi tilvitnun er auðvitað úr hinni stórskemmtilegu bók Englum alheimsins. Ég er nýbúinn að taka próf úr bókinni og gekk ágætlega í því. Það er gaman að velta sér upp úr þessari setningu og setja hana í samhengi við samfélagið og þá er alltaf hægt að finna einhvern Klepp út í bæ.

Það má kannski segja að kleppur hafi tekið sér bólfestu hérna þó að húsið sé vel upplýst á þessari mynd.

Það er alveg ótrúlegt hvað sama ríkisstjórnin endist lengi hér. Ætli þetta sé ekki 11. ár ríkistjórnarinnar hér. Hún lifir nú í sínum eigin heimi, hlustar allavegana ekki á þjóðina. Kannski húsið sé farið að gegna sínu upprunalegu hlutverki aftur.
Í dag fór ég að mótmæla fyrir utan húsið í dag.

Það byrjaði með því að við Ung Vinstri Græn bjuggum til mótmælaskilti í húsi VG. Svo fórum við með skiltin á Ingólfstorg þar sem fjöldi manna safnaðist saman til þess að mótmæla stríðinu. Þar var haldin smá dagskrá og svo haldið að stjórnarráðshúsinu með svartan borða þar sem nöfn fórnarlamba var nælt á. Borðinn var svo settur fyrir framan áðurnefnt hús. Mönnum var heitt í hamsi og lentu nokkrir upp á kant við lögguna. Alvöru mótmæli.

Þetta var liður í Alþjóðlegum mótmælum og hér er mynd af mótmælunum í London með tilheyrandi gjörningi. Þar væri ég til í vera.


Og svo aðeins í lokin: Höfnum stríði

föstudagur, mars 11, 2005

Tap gegn Haukum

Vorum að keppa á móti Haukum áðan. Töpuðum með 5-6 mörkum. Við stóðum okkur mjög illa. Ég náði mér aldrei á strik og klúðraði færum í stað þess að skora. Við eigum að vinna þetta Haukalið en vorum bara hálfsofandi í kvöld. Það ætti að banna leiki á föstudagskvöldi.

föstudagur, mars 04, 2005

Heróðir Kínverjar og Kanarnir, vá þeir eru bara snarruglaðir.

Var að lesa það hérna að Kínverjar séu að auka útgjöld til hermála og eyða 1.900 milljörðum króna í herútgjöld. Það er rugl! En svo hélt ég áfram að lesa fréttina og sá að Bandaríkjamenn eyða 25.200 milljörðum! Hvað er í gangi? Það er alveg ótrúlegt hvað menn eru eyða í hermál! Ég get rétt ímyndað mér hvað hægt er að gera fyrir slíka upphæð. Sem dæmi má nefna:
  • Tryggt vatn og mat handa fátækum.
  • Barist gegn sjúkdómum eins og malaríu og að maður tali nú ekki um alnæmi, með lyfjagjöfum og fræðslu.
  • Losað börn undan þrælkunarbúðum stórfyrirtækja.
  • Hugsað líka um ýmis innanlandsmál eins og heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál og öll hin málin sem Bush ákvað að skera niður til að geta eytt meiru í herinn og lækkað skatta fyrir þá ríku sem hafa alveg efni á að borga sína skatta.
En það er alltaf á einhvern ótrúlegan hátt nægilegt fjármagn til að eyða í hermál eins og drápsvopn sem eru, sem betur fer, aldrei notuð enda óréttlætanlegt að nota þau. Það er bara ekkert gagn í því að eyða svo miklu í hergögn.