miðvikudagur, september 05, 2007

Að eiga sér e-ð heilagt

Ég var að horfa á Kastljósið og Ísland í dag síðan í gær, á netinu. Það var umræðan um símaauglýsinguna sem ég fylgdist með. Hvað hana sjálfa varðar finnst mér asnalegt að nota svona vöru til að auglýsa síma. Annars hneykslaði hún mig ekki mikið, ég er víst ekki meiri trúmaður en svo. Ég skil það hins vegar að hún hneyksli trúað fólk, fyrir þeim er sagan heilög. Mönnum ber því að taka tillit til þeirra. Skoðannir þeirra eru heldur ekki trúarofstæki eins og einn gaur, sem fréttamenn frá Stöð tvö töluðu við, orðaði það . Tjáningafrelsið er gott og gilt en engu að síður vandmeðfarið.

Ég lít á þetta sem lítið dæmi í víðara samhengi. Það fyrsta sem mörgum dettur eflaust í hug þegar ég segi víðara samhengi er stóra Múhammeðsskopmyndamálið. Þar fannst mér báðir aðilar ganga of langt, Jótlandspóstinum bar að virða það sem múslimum fannst heilagt en á hinn bóginn brugðust sumir (NB! sumir, ekki allir) múslimar of harkalega við, svo vægt sé til orða tekið. Ég held að hvorugir aðilar hafði reynt að skilja hvernig hinn hugsaði. Það er grundvallaratriði til að svona deilur stigmagnist ekki.

Þetta samhengi sem ég tala um nær víðar en um trúarbrögð. Það eru til margs konar gildi sem fólk hefur í heiðri; pólitísk, samfélagsleg o.s.frv. Það eru líka gildi sem ber að hafa í huga. Það er alvegt hægt að vera ósammála en þó skal varast að traðka á annarra manna gildum. Það getur verið góð tilfinning að eiga sér e-ð heilagt. Að hafa einhvern/eitthvað sem hægt er að líta upp til og halda í heiðri. Því er leiðinlegt að sjá þau skotin niður, hvort sem það er af illkvittni eða hugsunarleysi. Ég geri mér samt grein fyrir því að gildi er svolítið loðið hugtak og það er hægt að teygja þetta víða samhengi, sem ég tala um, út í öfgar. Má þar nefna stjörnudýrkun á einhverjum sem getur verið mjög óheilbrigð.

Það er fleira sem hægt er að nefna við símaauglýsinguna sjálfa, t.d. nútímatrúboð Jóns Gnarrs, en ég læt þetta nægja í bili.

mánudagur, september 03, 2007

Mánudagsgrískutímar


Eitt það skemmtilegasta við stundartöfluna okkar eru grískutímar á mánudögum. Þeir fara fram í hátíðarsalnum. Við erum sex í tímunum og röðum við okkur fremst í salinn, beint fyrir framan málverkið af Sveinbirni Egilssyni, fyrsta rektor skólans, sem var grískumaður mikill og þýddi m.a. Hómerskviður yfir á íslensku. Það gerist varla fínna á stundartöflunni.