Að ganga Laugaveginn í blíðskaparveðri, njótandi fallegrar náttúru við hvert sjónmál, verður að teljast góður endir á blautu, en þó ágætu, sumri.
Sumarið hefur verið bara ágætt hjá mér í ár. Mér finnst samt eins og ég hafi ekki gert neitt nema að vinna og nú er það allt í einu liðið. Vinnan var ágæt. Ég var að vinna í Fossvogskirkjugarði í sumar. Ósköp venjuleg garðyrkjuvinna sem snýst um að gera garðinn fínan fyrir 17. júní og svo slaka á eftir það. Ég held að ég hafi orðið latari eftir því sem á sumarið leið. Það skemmdi heldur ekki fyrir að flokkstjórinn minn var þekktur í garðinum sem "pásukóngurinn". Félagslífið var líka nokkuð gott og kirkjugarðapartýin ágæt. Líkurnar á því að ég endi þar næsta sumar verða að teljast nokkuð miklar.
Ég hef lítið gert í sumar, sem telst frásagnahæft, fyrr en um helgina en þá gekk ég laugaveginn ásamt föður mínum og systkinum mínum. Það er aldeilis ástæða fyrir því að Laugavegurinn er vinsæl gönguleið. Landslagið er einstaklega fallegt og síbreytilegt. Það er unum að ganga þessa leið og njóta fallegrar náttúru. Það vaknar meira að segja upp þjóðerniskennd í mér þegar ég sé hvað Ísland er fallegt land.
En nú er sumarið senn á enda og skólinn að byrja. Það er alltaf nokkuð spennandi að byrja aftur í skólanum og sjá hvað nýtt ár felur í skauti sér. Hver ætli verði kórstjóri MR-kórsins á næsta ári?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli