laugardagur, júní 02, 2012

Frambjóðendur tveir og fjórir.

Ég hef örlítið fylgst með forsetakosningum hér í Tékklandi. Ég hef hins vegar ekki náð að kynna mér alla frambjóðendur til hlítar. Það er helst sitjandi forseti sem ég hef kynnt mér. Hann hefur jú verið forseti í heil 16 ár og því unnt að sjá hvað hann gefur gert í starfi sínu sem forseti, hvernig persóuleiki hann er og hvað hann stendur fyrir (eða ekki). Ég hlýddi einnig á fyrirlestur forsetans hér við Karlsháskólann í Prag þar sem hann til dæmis stillti upp vilja þjóðarinnar andspænis hagsmunum fjármálaafla. Í grófum dráttum er það auðveldasta við kosningarnar að gera upp við sig hvort maður vilji sitjandi forseta áfram eða ekki. Þar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég vil nýjan forseta á Bessastaði.

Ég hef lítilega kynnt mér áherslur Þóru Arnórsdóttur og þá er hún landsmönnum auðvitað vel kunn úr fjölmiðlum. Aðra frambjóðendur hef ég þó mjög lítið náð að kynna mér enda er þarf góðan tíma til að kynna sér alla sex frambjóðendur (áður átta) til hlítar. Auk þess er greinilega ekki eining í samfélaginu um hlutverk embættisins og virðist sem það sé í nokkurs konar sjálfsmyndarkrísu. Engu að síður eru enn heilar fjórar vikur til kosninga sem ég ætti að geta nýtt mér til að kynna mér alla frambjóðendur nógu vel.

Fyrstu skoðannakannanir hafa hins vegar bent til þess að slagurinn um forsetaembættið verði einungis á milli Ólafs og Þóru. Eðli málsins samkvæmt eltast fjölmiðlar helst við fréttir af þessum tveimur frambjóðendum enda eru þær fréttir sennilega líklegastar til að hljóta lestur (auk kannski helst samsæriskenninga frá Ástþóri Magnússyni).  Þar hefur sitjandi forseti óneitanlega forskot vinnandi sín embættisverk, t.d. mátti lesa mjög ítarlega frétt um ferð hans til Prag sem dregur upp flotta mynd af honum. Þá eru fréttir að barneignum Þóru að sama skapi mjög líklegar til vinsælda.
Fjölmiðlar hafa annars þegar gefið frambjóðendum kost á að kynna sig t.d. með beinni línu DV eða nærmynd í Íslandi í dag. Þar með er ekki sagt að fólk muni hafa jafnan áhuga á frambjóðendum. Svo virðist í raun sem aðrir frambjóðendur þurfi að koma með gagnrýni á fjölmiðla til þess að geta komið sér á framfæri.

Þetta forskot Ólafs og Þóru kristallaðist svo í boði Stöðvar 2 til kappræðna í beinni útsendingu að bandarískri fyrirmynd. Þóra sá að sér eftir smá hik en Ólafur gerði hins vegar enga athugasemd. Ólafur hafði í raun gullið tækifæri til að segja nei sem hefði verið sterkur leikur bæði þar sem þetta fyrirkomulag hjá Stöð 2 er ólýðræðislegt og almenningi ekki að skapi að láta einn fjölmiðil útiloka fjóra frambjóðendur nánast með einu pennastriki.  Að sama skapi hefði hann verið að standa vörð um lýðræðið. Þá hefði hann jafnvel geta látið Þóru líta frekar illa út með þeim leik.

Þegar sú staða er uppi að aðeins einn af mótframbjóðendum Ólafs virðist eiga raunhæfan möguleika á að steypa honum af stóli velti ég fyrir mér hvort það sé þess virði að kynna mér aðra frambjóðendur. Atkvæði til  eins af hinna fjögurra frambjóðenda er atkvæði til Ólafs Ragnars, rétt eins og atkvæði til Græningja í Bandaríkjunum er atkvæði til Repúblikana. Mér leiðist að segja það en þannig lítur þetta bara út fyrir mér.

Sem leiðir óhjákvæmilega til þeirrar augljósu spurningu: Af hverju fer kosningin ekki fram í tveimur umferðum? Þá yrði mun auðveldara að kjósa þann frambjóðenda sem best höfðar til manns og þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af því að atkvæði dreifast of víða á frambjóðendur og Ólafur yrði endurkjörinn með minnihluta atkvæða. Raunverulegri mynd væri þá hægt að fá af fylgi frambjóðenda.

Það kemur mér í raun óvart að fáir bendi á þennan galla í umræðunni sem nú stendur yfir. Helst er kastljósinu beint að hlutverki fjölmiðlanna sem vissulega hafa mótandi áhrif. En að mínu mati er það fyrst og fremst á ábyrgð frambjóðenda sjálfra hvernig þeir birtast í fjölmiðlum. 
Það hefur líka verið nægur tími til að leiðrétta gallann enda hafa tveir síðustu forsetar náð kjöri með minnihluta atkvæða. Ég vona í raun að þessi staða verði til þess að tvöföld kosning verði tekin upp í framtíðinni. 

mánudagur, janúar 09, 2012

Ágætis byrjun í skýjunum


Ég er flughræddur. Það er svolítið mikið vandamál þegar ferðalög utanlands freista gjarnan, ég hef verið virkur í alþjóðlegum samtökum sagnfræðinema og ég er núna í skiptinámi í útlöndum (sem þó hefur þann kost að auðvelt er að ferðast víða án þess að stíga um borð í flugvél).

Til að róa taugar mínar, sem venjulegulega eru mjög vel þandar að loknu þriggja tíma flugi, hef ég m.a. gripið til þess ráðs að hlusta á róandi tónlist á tónhlöðunni minni. Oftast er það hin ágæta plata Ágætis byrjun með Sigur Rós sem verður fyrir valinu. Oftar en ekki virkar það ágætlega. Mér finnst ég svífa á skýi þegar ég hlusta á plötuna og ekki spillir fyrir að líta út um gluggan niður á skýjahafið, sérstaklega þegar sólin er í þann veginn að rísa eða setjast.

Ef Ágætis byrjun róar mig ekki í flugvél getur það ekkert - sem er raunin þegar vélin flýgur í gegnum "smá" ókyrrð. Þá á ég til að taka smá hræðsluköst. Það er vandræðalegt, hreint út sagt. Oftar en ekki lítur sessunauturinn ýmist glottandi eða með svip til að segja mér að ég sé hálfviti. Í síðasta flugi var ég þó heppinn að hafa flugfreyju og flugþjón á leið í frí, við hliðina á mér. Þau hughreystu mig allan tímann og í grófum dráttum tóks þeim að bjarga því sem eftir var af skynsamri hugsun um borð í fluhvélinni. Þegar vélin lenti var óneitan gott að heyra Ryanair blása í herlúðra til marks um að við hefðum lifað flugið af - eða til að gorta sig af því að vera ávaltt á áætlun.

Að hlusta á Sigur Rós í flugvél hefur þó komið svolítið í hausinn á mér þar sem ég fæ svolítið óþægilega tilfinningu við að hlusta á áðurnefnda plötu þegar ég er að læra. Mér finnst ég  vera kominn aftur í flugvél.