Nú þegar ég hef búið í Prag í heila tvo mánuði held ég að það sé við hæfi að segja örlítið af fréttum af sjálfum mér, svo fólk haldi ekki að ég hafi gufað upp. Þetta er líka fínt tilefni að endurlífga þessa bloggsíðu mína. Frá því að ég bloggaði síðast hefur stýrikerfið gjörbreyst, svona í takt við aðrar breytingar á öllu google-draslinu. Þannig get ég nú séð hve margir heimækja síðuna og hve margir skoða hverja færslu fyrir sig. Það ergir mig svolítið enda er ég á móti svona teljurum, sérsteklaga hafa unnið á
DV í sumar.
|
Skrifborðið |
|
Útsýnið úr herberginu |
|
"Eldhúsið" |
En hvað um það. Ég bý á stúdentagörðum í Hostivař hverfinu í útjaðri Prag sem einkennist af mörgum stórum og ljótum kommúnistablokkum. Stúdentagarðarnir samanstanda af tíu blokkum, ýmist byggðum eða í notkun fyrir skrifstofur. Ég deili herbergi með pólskum stjórnmálafræðinema að nafni Grzegorz (ég er rétt byrjaður að geta borið nafn hans fram). Herbergið er frekar lítið og draslið mikið hjá okkur. Á hæðinni er eitt sameiginlegt eldhús ( ef eldhús skyldi kalla, í raun er þetta bara lítið herbergi með vaski og tveimur hellum sem stungið er í samband) og ísskápur frammi á ganginum. Engin aðstaða er þó í hinu svokölluðu eldhúsi og neyðis ég því til að borða kvöldverð minn inni í herbergi mínu á skrifborðinu mínu sem ég nota einnit til að vinna í tölvunni minni (og skrifa m.a. þessa færslu).
Þegar ég mæti í skólann blasir við allt önnur mynd af Prag. Heimspekisvið Karlsháskólans (Filozofická fakulta) stendur við bakka Moldár og blasir Prag kastali við manni hinu megin við ána þegar gengið er út úr aðalbyggingu heimspekisviðsins. Að sama skapi tekur ekki nema tvær mínútur að rölta að Gamlabæjartorginu í Prag og þá er Karlsbrúin skammt frá. Í raun má segja að skólinn sé í hringiðju túrismans en margt má finna af ýmsum minjagripabúðum, margar selja bæheimskan kristal en þó má finna minjagripabúð tileinkaða Barcelona fótboltaliðinu. Einnig er boðið upp á túra um borgina ýmist í strætó, bílum, gangandi eða í hestvögnum og þá keppast menn við að ota að manni bæklingum, í mismundandi tilgangi, allt frá því að fá fólk á tónleika með verkum eftir Mozart, Bach og Pachebel, til að laða menn á strippklúbba.
|
Filozofická Fakulta |
|
Gamlabæjartorg |
Ég læt þetta duga í bili en skrifa meira síðar, hugsanlega pistla tengdum námsefninu eða þá eitthvað af ferðalögum en nóg hefur verið af þeim að undanförnu.