þriðjudagur, október 23, 2007

Að þýða orð Guðs

Í kvöld horfði ég á kastljósið þar sem Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson og Sr. Geir Waage körpuðu um nýja Biblíuþýðingu. Ég ætla ekki að fara að mynda mér skoðun strax um þessa nýja Biblíuþýðingu enda hef ég ekki kynnt mér hana að ráði. Ég hef í raun lítið meira en rök prestanna til að byggja á. Ég get hins vegar engan vegin verið á móti nýrri Biblíuþýðingu heldur fagna ég henni. Í raun lít ég á hana sem merki um það að Biblían sé í stöðugri endurskoðun og er því í raun mjög lifandi. Það er ekki hægt að nema staðar og segja eina þýðingu þá einu réttu og því ætti ekki að þýða hana á ný. Í gegnum aldirnar hafa þýðingar verið rangar og er Vulgata , latnesk þýðing Bilblíunnar, eflaust þekktasta dæmið um það. Til að fá réttustu útkomuna verða menn ef til vill bara að læra hebresku og forn-grísku.


Það var áhugavert að heyra Geir Waage tala um hátíðleika málsins í gömlu þýðingunni. Ég er nokkuð vanur þessum hátíðleika og get varla ímyndað mér hvernig er að lesa hana með venjulegu nútímamáli. Því er ég nokkuð spenntur að sjá hana. Mér finnst t.d. mjög forvitnilegt að sjá hvernig rit eins og Ljóðaljóðin koma út í nýju þýðingunni.

Svo er það líka alltaf áhugaverð spurning hvernig Biblían kæmi út skrifuð nú til dags. Það er ekki hægt að neita því að Biblían litast töluvert af tíðaranda þó kjarni boðskapsins sé tímalaus. Því finnst mér allt í lagi að bæta systrunum við sé það tekið fram hvernig upprunalega þýðingin var. Biblían er líka fyrir konur þó hún virðist ekki hafa verið það fyrir 2000 árum.

Gamla þýðingin verður líka enn til staðar svo hægt er að velja á milli. Ætli það sé ekki einstaklingsbundið hvaða þýðingu fólk kýs að nota. Hvora þýðinguna ég kýs að nota verður bara að koma í ljós.