þriðjudagur, desember 25, 2007

Gleðileg jól
Jólin eru gengin í garð og ég er kominn í fullt jólaskap. Að syngja í miðbænum á Þorláksmessu kemur mér alltaf í jólaskap og svo er alltaf jafn notalegt að fara í messu kl. 18.00 á aðfangadegi jóla. Jósef virðist vera vinsælt predikunarefni (1,2) þetta árið. Og svo er það kvöldið sem maður eyðir með fjölskyldunni, borðar jólasteik og möndlugraut og skiptist á gjöfum. Svo til að krydda jólaskapið endanlega, þá voru götur borgarninnar þaktar snjó í morgun. Að mínu mati er snjór ómissandi jólaskraut, hvíti liturinn setur mjög skemmtilegan blæ á borgina. Ég ákvað að taka hundinn út í göngutúr til að njóta snjósins á meðan hann endist. Nú er bara um að gera að njóta jólanna á meðan þau vara.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla!

fimmtudagur, desember 20, 2007

Einkunnir og GB

Það er alltaf ljúft að komast í jólafrí. Einkunnir voru afhentar í dag. Ég rétt klóraði mig upp í fyrstu einkunn með 7,5 í meðaleinkunn. Ég get vel við unað enda hef ég ekki sinnt náminu að neinu viti. Sáttastur er ég með að fá 9 í grísku, einnig er ég sáttur með að fá 8 í fornfræði og latínu (eins og venjulega). Einkunn mín í líffræði telst ekki glæsileg en þó er ég sáttur með að sleppa með 5. Hins vegar er ég ósáttastur með einkunn mína í stærðfræði þar sem ég fékk 7,5. Þrátt fyrir að ég hafi lagt mjög lítið á mig í stærðfræði í vetur verður málabrautastærðfræðin seint talin erfið. Í hnotskurn er ég bara í miðjumoðinu þegar kemur að einkunnum, þær eru hvorki of góðar né of slæmar (fyrir utan líffræði og enskan stíl). Í raun er slíkt miðjumoð lítil hvatning til náms. Annars stefni ég á að fara aldrei niður í aðra einkunn.

Annars eru helstu tíðindin þau að það er búið að draga í Gettu Betur. Við ríðum á vaðið 7. janúar þegar við keppum á móti Verkmenntaskóla Austurlands. Ég er bara nokkuð sáttur við það. Annars er ég ekki sáttur við hvað mogganum finnst gaman að setja inn hirðfíflsmyndina af mér.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Jólalag og jólapróf

Sama gamla sagan. Það er löngu búið að þjófstarta jólunum og ég hálfpartin búinn að venjast þeim. Ég er hins vegar búinn að skrifa nóg um það í gegn um tíðina. Prófin eru farin af stað og klárast eftir rúmlega viku. Jólin eru því enn nokkuð fjarri. Ég finn þó keim af jólaskapi í mér þessa dagana þrátt fyrir allt þetta. Í prófunum hef ég hlustað mikið á eitt jólalag, Ó helga nótt, í flutningi Jussi Björling (O helga natt, kallast það á sænsku). Það þarf víst ekki nema eitt lítið jólalag (það getur reyndar ekki verið hvaða jólalag sem er) til að veita sálarró í jólaprófunum. Reyndar hef ég verið aðeins of kærulaus í jólaprófunum en það er önnur saga.

Viðbót: Smá snjór, með sinn hvíta blæ, spillir heldur ekki fyrir.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Án titils

Ég er ekki frá því að það hafi verið mistök að velja frönsku frekar en þýsku, þegar ég byrjaði í MR. Ég var að undibúa mig í dag fyrir munnlegt próf í dag þegar það rann upp fyrir mér að í eina skiptið, sem ég hef svarað spurningu frá kennaranum upphátt (nema, auðvitað, þegar ég er tekinn fyrir), þá svaraði ég: "Sauerkraut!"

þriðjudagur, október 23, 2007

Að þýða orð Guðs

Í kvöld horfði ég á kastljósið þar sem Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson og Sr. Geir Waage körpuðu um nýja Biblíuþýðingu. Ég ætla ekki að fara að mynda mér skoðun strax um þessa nýja Biblíuþýðingu enda hef ég ekki kynnt mér hana að ráði. Ég hef í raun lítið meira en rök prestanna til að byggja á. Ég get hins vegar engan vegin verið á móti nýrri Biblíuþýðingu heldur fagna ég henni. Í raun lít ég á hana sem merki um það að Biblían sé í stöðugri endurskoðun og er því í raun mjög lifandi. Það er ekki hægt að nema staðar og segja eina þýðingu þá einu réttu og því ætti ekki að þýða hana á ný. Í gegnum aldirnar hafa þýðingar verið rangar og er Vulgata , latnesk þýðing Bilblíunnar, eflaust þekktasta dæmið um það. Til að fá réttustu útkomuna verða menn ef til vill bara að læra hebresku og forn-grísku.


Það var áhugavert að heyra Geir Waage tala um hátíðleika málsins í gömlu þýðingunni. Ég er nokkuð vanur þessum hátíðleika og get varla ímyndað mér hvernig er að lesa hana með venjulegu nútímamáli. Því er ég nokkuð spenntur að sjá hana. Mér finnst t.d. mjög forvitnilegt að sjá hvernig rit eins og Ljóðaljóðin koma út í nýju þýðingunni.

Svo er það líka alltaf áhugaverð spurning hvernig Biblían kæmi út skrifuð nú til dags. Það er ekki hægt að neita því að Biblían litast töluvert af tíðaranda þó kjarni boðskapsins sé tímalaus. Því finnst mér allt í lagi að bæta systrunum við sé það tekið fram hvernig upprunalega þýðingin var. Biblían er líka fyrir konur þó hún virðist ekki hafa verið það fyrir 2000 árum.

Gamla þýðingin verður líka enn til staðar svo hægt er að velja á milli. Ætli það sé ekki einstaklingsbundið hvaða þýðingu fólk kýs að nota. Hvora þýðinguna ég kýs að nota verður bara að koma í ljós.

miðvikudagur, september 05, 2007

Að eiga sér e-ð heilagt

Ég var að horfa á Kastljósið og Ísland í dag síðan í gær, á netinu. Það var umræðan um símaauglýsinguna sem ég fylgdist með. Hvað hana sjálfa varðar finnst mér asnalegt að nota svona vöru til að auglýsa síma. Annars hneykslaði hún mig ekki mikið, ég er víst ekki meiri trúmaður en svo. Ég skil það hins vegar að hún hneyksli trúað fólk, fyrir þeim er sagan heilög. Mönnum ber því að taka tillit til þeirra. Skoðannir þeirra eru heldur ekki trúarofstæki eins og einn gaur, sem fréttamenn frá Stöð tvö töluðu við, orðaði það . Tjáningafrelsið er gott og gilt en engu að síður vandmeðfarið.

Ég lít á þetta sem lítið dæmi í víðara samhengi. Það fyrsta sem mörgum dettur eflaust í hug þegar ég segi víðara samhengi er stóra Múhammeðsskopmyndamálið. Þar fannst mér báðir aðilar ganga of langt, Jótlandspóstinum bar að virða það sem múslimum fannst heilagt en á hinn bóginn brugðust sumir (NB! sumir, ekki allir) múslimar of harkalega við, svo vægt sé til orða tekið. Ég held að hvorugir aðilar hafði reynt að skilja hvernig hinn hugsaði. Það er grundvallaratriði til að svona deilur stigmagnist ekki.

Þetta samhengi sem ég tala um nær víðar en um trúarbrögð. Það eru til margs konar gildi sem fólk hefur í heiðri; pólitísk, samfélagsleg o.s.frv. Það eru líka gildi sem ber að hafa í huga. Það er alvegt hægt að vera ósammála en þó skal varast að traðka á annarra manna gildum. Það getur verið góð tilfinning að eiga sér e-ð heilagt. Að hafa einhvern/eitthvað sem hægt er að líta upp til og halda í heiðri. Því er leiðinlegt að sjá þau skotin niður, hvort sem það er af illkvittni eða hugsunarleysi. Ég geri mér samt grein fyrir því að gildi er svolítið loðið hugtak og það er hægt að teygja þetta víða samhengi, sem ég tala um, út í öfgar. Má þar nefna stjörnudýrkun á einhverjum sem getur verið mjög óheilbrigð.

Það er fleira sem hægt er að nefna við símaauglýsinguna sjálfa, t.d. nútímatrúboð Jóns Gnarrs, en ég læt þetta nægja í bili.

mánudagur, september 03, 2007

Mánudagsgrískutímar


Eitt það skemmtilegasta við stundartöfluna okkar eru grískutímar á mánudögum. Þeir fara fram í hátíðarsalnum. Við erum sex í tímunum og röðum við okkur fremst í salinn, beint fyrir framan málverkið af Sveinbirni Egilssyni, fyrsta rektor skólans, sem var grískumaður mikill og þýddi m.a. Hómerskviður yfir á íslensku. Það gerist varla fínna á stundartöflunni.

laugardagur, ágúst 11, 2007

Bobby og kvikmyndahúsin

Ég fór í kvikmyndahús um daginn að sjá Harry Potter and the order of phoenix. Það allra merkilegasta fannst mér að sjá Bobby Fischer á aftasta bekk í salnum. Mér datt nú ekki í hug að hann væri mikill Harry Potter aðdáandi. Gæti samt alveg verið. Hann gæti þó líka hafa verið sofandi á sýningunni. Ég ætla samt ekki að fullyrða það þar sem ég var nú að fylgjast með myndinni en ekki honum. Spurning hvort hann stundi það að fara á óáhugaverðar myndir (að hans áliti, ég hef nú alveg einhvern áhuga á Harry Potter) til þess sofna. Gott ráð við svefnleysi?
Annars vil ég lýsa yfir aðdáun minni á Bobby Fischer, hann er svo yndislega sérvitur.

laugardagur, júlí 28, 2007

Lögmálið um draslið

Sama hversu mikið þú reynir að losa þig við drasl, það kemur alltaf aftur.

laugardagur, júlí 21, 2007

Fyrirmyndarbærinn Springfield

Ef það eru einhverjir sjónvarpsþættir sem ég er veikur fyrir, þá er það The Simpsons. Þættirnir eru í senn mjög fyndnir og innihalda einnig mikið af siðferðisstefum sem gætu gagnast manni í daglegu lífi (réttlæting fyrir of miklu Simpsons-glápi)
Eitt af því sem gerir þættina mjög áhugaverða er samfélagið í bænum sem þættirnir fjalla um. Þættirnar lýsa því einmitt hvernig bæir eiga ekki að vera. Bæjarstjórinn spilltur, lýðurinn fáfróður og æsist auðveldlega upp, auðmaður á hálfan bæinn og svona mætti lengi telja. Það verður því að teljast nokkuð kaldhæðnislegt að íbúar 14 bæja í bandaríkjunum keppist um að fá sinn bæ viðurkenndan sem heimabæ Simpson-fjölskyldunnar. Hvernig ætli íbúar Springfield í Vermount-fylki hafi samfært fólk um að þeirra bær sé hinn eini sanni Springfield-bær? Var það múgæsingin? Að vísu tel ég að bærinn muni nú ekki fá á sig neikvæðan stimpil þrátt fyrir allt, þættirnir eru of vinsælir til að svo verði.

Annars bíð ég með eftirvæntingu með myndinni. Það verður líka forvitnilegt að sjá hvernig myndin heppnast á íslensku. Ég hef nú séð þátt á þýsku þannig að ég held að íslenskan muni ekki spilla fyrir neinu. Ég ætla samt sem áður að sjá myndina fyrst á ensku.

mánudagur, júní 18, 2007

Wikipedia: Random article

Á forsíðu Wikipedia má finna tengil sem vísar á síðu valda af handahófi. Ég ákvað að smella 10 sinum á tenglin og gá hvað kom út. Líkurnar á því að finna einstaka grein, t.d. um Ísland, eru 1 á móti 1.841.107 (þegar þetta er skrifað). Þetta eru niðurstöðurnar:

  1. http://en.wikipedia.org/wiki/Joy_to_Great_Caesar: Það fyrsta sem ég fæ hér út er anti-kaþólskur söngur frá tíma Karls II. Passar vel við mig sem mótmælanda.
  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Andrei_Sychov: Rússneskur hermaður, þremur árum eldri en ég sem er þekktur fyrir að hafa pínt samherja sína. Ekki líst mér nú á það
  3. http://en.wikipedia.org/wiki/People/crowd_watching: Ég stunda nú ekki mikið af þessu. Það er þó svo sem ekkert að því að rýna í annað fólk og spá í hvernig það lifir. Gera menn það ekki bara í félagsfræði?
  4. http://en.wikipedia.org/wiki/Ramularia_primulae: E-t sveppadæmi, ég veit ekki alveg hvað þetta er - og ég hef engan áhuga á því að vita hvað þetta er.
  5. http://en.wikipedia.org/wiki/1959_Tour_de_France: Ég ætla nú ekki að sérhæfa mig of mikið í Tour de France þó keppnin sé áhugaverð sem slík. Að þekkja úrslitin síðan 1959 er aðeins of mikið.
  6. http://en.wikipedia.org/wiki/Consubstantiation: Önnur guðfræðitengdagreinin sem rekst á. Spurning um að skella sér í guðfræðina eftir MR.
  7. http://en.wikipedia.org/wiki/Trapped_%282002_film%29: Ég held að ég láti það vera að horfa á þessa mynd.
  8. http://en.wikipedia.org/wiki/M107: Vúhú, ég fæ að velja. Ég vel þessa grein, enda eina af þeim sem ekki tengist hernaði.
  9. http://en.wikipedia.org/wiki/Viscount_Cullen: Spurning um að endurvekja þennan titil. Björn Reynir Halldórsson, 7th Viscount Cullen. Nei, held ekki.
  10. http://en.wikipedia.org/wiki/Blackout_%28David_Bowie_song%29: Ég hlusta stundum á David Bowie. Lagið þekki ég hins vegar ekki.
Ég náði að fiska alla vega e-ð áhugavert út úr þessara tilraun. Hvort að þekking þessi komi mér að gagni verður að koma seinna í ljós. Ég hvet aðra bloggara að gera slíkt hið sama og setja niðurstöðurnar á bloggið. Það gæti orðið mjög forvitnilegt.

laugardagur, júní 09, 2007

Stórfréttir á RÚV

Eru allar fréttir á RÚV orðnar stórfréttir? Svo virðist sem að í hverjum einasta fréttatíma sé fréttamaður í beinni útsendingu á vettvangi. Áður fyrr voru fréttamennirnir á vettvangi í beinni þegar þeir fjölluðu um stórátök á Alþingi, t.d. fjölmiðlamálið eða stórfréttir á borð við þegar Bobby Fisher kom til landsins (reyndar finnst mér það ekki ýkja stór frétt en engu að datt mér ekkert betra í hug). Í fréttatímunum í kvöld var fréttamaður í beinni á víkingahátíð í Hafnarfirði. Er það stórfrétt? Eða Grafarvogsbúar óánægðir með svefnlyf fyrir máva?
Er það kannski bara afstætt hvaða fréttir teljast sem stórfréttir og hverjar ekki?

þriðjudagur, júní 05, 2007

Sumarið kemur með fyrsta rigningardropanum

Það er alltaf ljúft að komast í sumarfrí. Prófin gengu ágætlega, ég fékk 7,8 í meðaleinkunn eins og ég bjóst við. Hroki minn gagnvart frönskunni var líka tónaður niður þar sem ég fékk 6 sem var lægsta einkunin mín. En umfram allt er ég bara sáttur við prófin.
Ég er hins vegar núna að vinna í Fossvogskirkjugarði. Ég er mikill bjartsýnismaður og mæti alltaf með sólarvörn upp á 20, í vinnuna. Það er ekki mikil þörf fyrir hana enda byrjaði að rigna um leið og júnímánuður gekk í garð. En vinnan er ágæt, góða veðrið kemur bara síðar.

Ég hef verið að hugsa um að gerast líffæragjafi. Hollenska gabbið virkar mjög vel. Ég varð mjög hneykslaður þegar ég heyrði fyrst um þáttinn þar sem það er ekki siðlegt að nýta sér neyð sjúklinganna og gera úr því söluvöru. Í fordómum mínum hugsaði ég: „Dæmigert fyrir Hollendinga!“ Mér fannst gabbið hins vegar sniðugt enda vakti það fólk virkilega til umhugsunar. Ég spyr bara hvar sé hægt að skrá sig sem líffæragjafi?

Læt þetta bara duga í bili

fimmtudagur, maí 17, 2007

Lýsi eftir huga mínum!

Hefur einhver séð hugann minn? Ég týndi honum einhvern tímann í dag á bilinu 13.00 til 18.00 þegar ég var að læra fyrir próf í líffræði (með hléum). Svo virðist sem hugurinn minn hafi farið á flakk á þessum tíma á meðan ég sat sjálfur yfir námsefninu í líffræði og nú finn ég hann ekki aftur. Þeir sem hafa séð hugann minn á reiki láti mig vita. Fundarlaun í boði!

mánudagur, maí 07, 2007

Hið ljúfa líf heimiliskattarins

Stundum ímynda ég mér hvernig það sé að vera heimilisköttur. Ég læt mig dreyma um hið ljúfa líf heimiliskattarins sem þarf ekkert að gera. Hann ráfar bara um húsið, finnur sér góðan stað og fær sé blund eða grípur í eitthvað bitastætt sé matur fyrir hendi.

Þegar prófin standa yfir komast þessir dagdraumar ansi nálægt veruleikanum mínum.

mánudagur, apríl 23, 2007

Millibilsástand

Gettu betur er búið, eiginlega löngu búið. Það þýðir að ég hef enga afsökun fyrir að læra ekki heima. Samt læri ég ekki heima. Ég nenni því ekki. Ég komst vel í slökunargírinn í páskafríinu, sem ég eyddi að mestu leyti í Danmörku, og hef ekki komið mér úr honum síðan. Í skólanum ríkir nokkurs konar millibilsástand. Félagslífið er nánast búið á þessum vetri (nema fyrir 6. bekkinga) og vorpróf bíða en þau hefjast 4. maí. Þangað til nenni ég ekki að læra enda læri ég hvort sem er best fyrir próf (hver gerir það ekki).

Kórinn er þó enn starfandi. Vortónleikarnir eru einmitt á sunnudaginn kl. 20.00 í Seltjarnarneskirkju. Fínt að hafa eitthvað að gera eftir allt. Hvet fólk til að mæta á tónleikana, 1000 kr. inn.

laugardagur, mars 31, 2007

GB: Hljóðneminn heim

Þá hefur tveggja vetra starf loksins skilað sér, við erum búnir að vinna Gettu betur. Keppni gærkvöldsins var mjög spennandi og skemmtileg. MK-ingar sýndu að þeir væru hörkulið, sýnd veiði en ekki gefin.

Keppnin minnti mig svolítið á viðuregn okkar gegn MA í fyrra. Náðum góðri forystu í hraðanum en misstum hana svo eftir tvær vísbendingaspurningar. Við tók strembinn bjöllubardagi þar sem ekkert gekk upp eftir að við vorum komnir með 23 stig og tap virtist blasa við þegar ein vísbendingaspurning og þríþraut voru eftir. En ólíkt keppninni í fyrra náðum við þríþrautinni og knúðum fram bráðabana þar sem við tókum tvær spurningar í röð og sigruðum að lokum 29-27.

Í svona jafnri keppni hefði sigurinn getað fallið báðum meginn og tapliðið hugsar um e-ð eitt sem fór úrskeiðis. Í raun er alltaf e-ð sem bæði lið hefðu getað tekið. Ég var örlítið svekktur að taka ekki Jóhannesarguðspjall í hraðanum og svo að láta MK-ingana hirða fjallagrösin af okkur. En það kom ekki að sök því heppnin var með okkur í gær. Við áttum alveg skilið smá heppni eftir að hafa verið óheppnir í fyrra.

MK-ingarnir eiga svo sannarlega hrós skilið. Ég átti aldrei von á því að þeir myndu veita okkur hörðustu keppnina í ár. Liðið bætti sig töluvert eftir því sem á keppnina leið og skutu okkur aldeilis skelk í bringu. Takk fyrir góða keppni.

Gettu betur er þá bara lokið í ár og lauk ánægjulega fyrir okkur. Ég er bara mjög glaður, get ekki sagt annað. Veturinn hefur verið skemmtilegur og gaman að sjá þetta markmið okkar verða að veruleika. Ég segi bara: Takk fyrir mig!

fimmtudagur, mars 22, 2007

GB: Sigur gegn Versló

Ég er enn í hálfgerði sigurvímu núna. Það er ekki leiðinlegt að leggja Verslunarskólann að velli með tíu stiga mun, 37-27. Ekki síst vegna þess að það er nú nokkur rígur á milli. En rígurinn er að sjálfsögðu grafinn eftir keppni. Verslingarnir voru bara nokkuð góðir. En við vorum bara betri. Við erum á fljúgandi siglinglu og færumst skrefi nær hljóðnemanum. Annars segi ég bara: Takk fyrir góða keppni, Verslingar.

föstudagur, mars 16, 2007

Án titils

Ég væri til í að sjá svona póstkassa í Reykjavík.

laugardagur, mars 10, 2007

GB: Góður sigur í gær.

Ég get ekki annað en verið sáttur með okkur í gær. Að ná 38 stigum er bara frábært, að vísu hefði verið skemmtilegt að fara yfir 40 stiga múrinn en það skiptir svo sem engu máli. Við áttum líka mikið inni síðan í fyrra en þá náðum við ekki að sýna okkar rétta andlit. Einnig er MS-ingum þakkað fyrir góða keppni.

Ég var bara almennt sáttur við spurningarnar. Septuaginta-spurningin var að vísu umdeild en ég var hins vegar nokkuð óskýr þegar ég svaraði. Í raun vissi ég ekki hverju ég átti að svara og var næstum því farinn að segja grísk þýðing á Gamla testamentinu, sem hefði verið óþjált í hraða. Það var líka nokkuð skemmtilegt að fá aftur spurningu um Burkina faso. Minningar helltust yfir mig og ég vildi ekki láta andstæðingin hirða svarið aftur af okkur.

Undanúrslitin eru svo bara næst á dagskrá. Það er ágætt að vera kominn yfir fjórðungsúrslitin, þar sem við duttum út í fyrra. Þá verður forvitnilegt að sjá hvort við fáum MK, versló eða MH/ME. Annars er okkur bara sama. Við ætlum bara að halda áfram á þessari braut.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Netlögga

Steingrímur J talar um að koma á fót netlöggu. Ég held að allir nafnlausu netdólgarnir sanni það bara að hann hafi rétt fyrir sér.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Klám í Reykjavík?

Það hefur vart farið framhjá nokkrum að klámráðstefnu á að halda hér. Það eru líka flestir sammála um að þetta sé ekki boðlegt siðbrúðum mönnum. Samt er hægt að deila um þetta mál. Sumum finnst sjálfsagt að leyfa þessu fólki að koma hingað og halda þessa ráðstefnu. Mér finnst það hins vegar ekki. Þetta er ekki eins og hver önnur ráðstefna. Hér er fólk að koma saman til að ræða um, versla með og jafnvel framleiða efni sem er siðlaust og ómannlegt. Það er ekki mannlegt að gera mannslíkama að söluvöru þar sem annað (í langflestum tilvikum kvenkynið) er niðurlægt. Aldrei myndi nokkur leyfa þessu að viðgangast væri um fíkniefni að ræða.
Þá er það spurningin hvað er hægt gera við þetta fólk. Um það er hægt að deila. Mér finnst sjálfsagt að synja þessu fólki um að koma til landsins í þessum tilgangi í stað þess að bíða að lögbrot verði framið. Þó að fólkið eigi svo sem rétt á að heimsækja landið eins og aðrir þá verður það bara að vera á öðrum forsendum.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Sniðug hugmynd.

Að skrifa sniðugar hugmyndir á blað áður en að ég gleymi þeim.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Nafnaritgerð

Ég var búinn að gleyma því hvað ættfræðin væri skemmtileg.

Án titils

Gamla góða frestannahneigðin!

Án titils

Mikið þoli ég ekki tölvunarfræðitíma.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

GB: MS næst

Það má segja að við höfum tekið Lækjargötuslaginn nokkuð sannfærindi en að Kvennaskólinn hafi jafnframt tapað með reisn. Þeim er að sjálfsögðu þakkað fyrir góða keppni. Einnig er stuðningsmönnum þakkað fyrir að fjölmenna og halda uppi rífandi stemmingu í útvarpshúsinu. 30-20 voru sem sagt úrslitin.
En næstir á dagskrá eru MS og fer keppnin fram 9. mars. Ég er strax farinn að hlakka til.

föstudagur, janúar 12, 2007

GB: 2. umferð og GB-bloggsamfélagið

Það er búið að draga í aðra umferð. Mótherji okkar að þessu sinni verður Kvennaskólinn í Reykjavík. Mér líst bara vel á að fá Kvennskælinga sem mótherja. Áhugaverðasta viðuregnin í þessari umferð er þó að mínu mati Borgó-MH. Tvö lið þar á ferð sem eiga heima í sjónvarpinu og annað þeirra dettur út.
Ég er farinn að hlakka til að hefja leik enda er keppnin sjálf komin á fullt skrið. Ég fylgdist lítið með fyrstu umferðinni þar sem við hefjum leik í annarri umferð. Ég hef ekki hlustað á keppninirnar en á þær ætla ég að hlusta bara á einu bretti á netinu. Ég hef þó fylgst með umræðum í bloggheiminum. Það er gaman að sjá þetta bloggsamfélag sem rís í kring um þessa keppni. Ég vafraði um það um daginn og sá tengla á síðuna mína á þremur vefdagbókum hjá mönnum sem ég þekki lítið og jafnvel ekki neitt. En ég lít bara á það sem tækifæri til að kynnast fleirum. Ég hef gefið hinum sömu tengil til baka eins og ég geri alltaf. Ætli ég verði þá ekki að blogga meira um GB.

Annars hvet ég alla til að mæta í útvarpshúsið næsta miðvikudagskvöld kl. 20.30.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Merki um taugaveiklun?

Ég tek alltaf svakalegan kipp þegar síminn hringir eða ber mér smáskilaboð, jafnvel þegar ég á von á þeim.