laugardagur, mars 31, 2007

GB: Hljóðneminn heim

Þá hefur tveggja vetra starf loksins skilað sér, við erum búnir að vinna Gettu betur. Keppni gærkvöldsins var mjög spennandi og skemmtileg. MK-ingar sýndu að þeir væru hörkulið, sýnd veiði en ekki gefin.

Keppnin minnti mig svolítið á viðuregn okkar gegn MA í fyrra. Náðum góðri forystu í hraðanum en misstum hana svo eftir tvær vísbendingaspurningar. Við tók strembinn bjöllubardagi þar sem ekkert gekk upp eftir að við vorum komnir með 23 stig og tap virtist blasa við þegar ein vísbendingaspurning og þríþraut voru eftir. En ólíkt keppninni í fyrra náðum við þríþrautinni og knúðum fram bráðabana þar sem við tókum tvær spurningar í röð og sigruðum að lokum 29-27.

Í svona jafnri keppni hefði sigurinn getað fallið báðum meginn og tapliðið hugsar um e-ð eitt sem fór úrskeiðis. Í raun er alltaf e-ð sem bæði lið hefðu getað tekið. Ég var örlítið svekktur að taka ekki Jóhannesarguðspjall í hraðanum og svo að láta MK-ingana hirða fjallagrösin af okkur. En það kom ekki að sök því heppnin var með okkur í gær. Við áttum alveg skilið smá heppni eftir að hafa verið óheppnir í fyrra.

MK-ingarnir eiga svo sannarlega hrós skilið. Ég átti aldrei von á því að þeir myndu veita okkur hörðustu keppnina í ár. Liðið bætti sig töluvert eftir því sem á keppnina leið og skutu okkur aldeilis skelk í bringu. Takk fyrir góða keppni.

Gettu betur er þá bara lokið í ár og lauk ánægjulega fyrir okkur. Ég er bara mjög glaður, get ekki sagt annað. Veturinn hefur verið skemmtilegur og gaman að sjá þetta markmið okkar verða að veruleika. Ég segi bara: Takk fyrir mig!

fimmtudagur, mars 22, 2007

GB: Sigur gegn Versló

Ég er enn í hálfgerði sigurvímu núna. Það er ekki leiðinlegt að leggja Verslunarskólann að velli með tíu stiga mun, 37-27. Ekki síst vegna þess að það er nú nokkur rígur á milli. En rígurinn er að sjálfsögðu grafinn eftir keppni. Verslingarnir voru bara nokkuð góðir. En við vorum bara betri. Við erum á fljúgandi siglinglu og færumst skrefi nær hljóðnemanum. Annars segi ég bara: Takk fyrir góða keppni, Verslingar.

föstudagur, mars 16, 2007

Án titils

Ég væri til í að sjá svona póstkassa í Reykjavík.

laugardagur, mars 10, 2007

GB: Góður sigur í gær.

Ég get ekki annað en verið sáttur með okkur í gær. Að ná 38 stigum er bara frábært, að vísu hefði verið skemmtilegt að fara yfir 40 stiga múrinn en það skiptir svo sem engu máli. Við áttum líka mikið inni síðan í fyrra en þá náðum við ekki að sýna okkar rétta andlit. Einnig er MS-ingum þakkað fyrir góða keppni.

Ég var bara almennt sáttur við spurningarnar. Septuaginta-spurningin var að vísu umdeild en ég var hins vegar nokkuð óskýr þegar ég svaraði. Í raun vissi ég ekki hverju ég átti að svara og var næstum því farinn að segja grísk þýðing á Gamla testamentinu, sem hefði verið óþjált í hraða. Það var líka nokkuð skemmtilegt að fá aftur spurningu um Burkina faso. Minningar helltust yfir mig og ég vildi ekki láta andstæðingin hirða svarið aftur af okkur.

Undanúrslitin eru svo bara næst á dagskrá. Það er ágætt að vera kominn yfir fjórðungsúrslitin, þar sem við duttum út í fyrra. Þá verður forvitnilegt að sjá hvort við fáum MK, versló eða MH/ME. Annars er okkur bara sama. Við ætlum bara að halda áfram á þessari braut.