fimmtudagur, október 19, 2006

Tilbúinn kjúklingur

Ég er búinn að vera einn heima þó nokkrum sinnum síðustu daga. Þá er það alltaf sama spurningin: „Hvað á ég að hafa í kvöldmat?“ Eftir miklar vangaveltur endar það alltaf með sömu niðurstöðunni: „Æ, ég skrepp bara út í Melabúðina og kaupi mér tilbúinn kjúkling.“ Mig langar alltaf til að breyta til en mér dettur aldrei í hug neitt nýtt svo það endar alltaf með því að ég fer út í Melabúðina og kaupi mér tilbúinn kjúkling. Þannig festist ég í þessari venju. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn nokkuð leiður á honum. En það verður hins vegar seint sagt að ég sé ósjálfbjarga. Skyldi það vera tilbúinn kjúklingur næsta kvöld þegar ég er einn heima?