fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sumarið er gúrkutíð... eða nær oftast

Það gerist á sumrin að skrif á þessa síðu minnka stórlega. Af hverju? Jú, það gerist bara svo lítið frásagnahæft þá og ekki er mikið í fréttunum.
Því miður hafa hryðjuverkamenn séð fjölmiðlum fyrir nóg af efni með andstyggilegri árás á saklaust fólk sem aldrei gerði þeim mein. Bush og félagar sögðu líka að heimurinn væri öruggari eftir Íraksstríðið. Hver trúði því svo sem.

Það kom mér ekki á óvart þegar ég heyrði í fréttum að landamæragæsla væri hert. Ástæðan kom mér hins vegar á óvart. Að það skuli vera gert af ótta við mótmælendur sem vilja mótmæla mestu skemmdarverkum Íslandssögunnar. Ég stoppaði aðeins við mótmælabúðirnar um daginn. Það var heldur lítið að gerast enda var stór hópur af fólki nýfarinn. Ég vildi gista þarna en Pabbi og vinur hans sem ég ferðaðist með vildu það ekki. Ég skil heldur ekki þær áhyggjur lögreglunnar af því að á SavingIceland.org er fólk hvatt til að koma og mótmæla. Það er bara hluti af baráttu að fá fólk til að koma og sýna samstöðu með málefninu. Það skaðar heldur ekki að fá fleiri mótmælendur, jafnvel þó þeir séu anarkistar (þeir gera nú ekki mikið af sér í auðninni). Annars tel ég anarkista ekki líklegasta hópinn til að koma og mótmæla.
En löggan er þó ekki enn búinn að handtaka neinn og vísa burt vegna mótmæla. Það er gott

Annars var hálendisferðin bara ágæt. Við gengum m.a. á Snæfell, hæsta fjallið utan Vatnajökuls og ég fékk að keyra nokkuð mikið enda kominn með æfingaleyfi. Svo mun ég vera á Flúðum næstu vikuna og mun ég vinna eitthvað í garðyrkju þar áður en ég sný aftur til vinnu í Neskirkju.

3 ummæli:

Hafsteinn G. H. Hafstein sagði...

Þetta lið eru ekkert nema glæpamenn, enda er verið að flytja ein 15-20 stykki í burtu af svæðinu vegna skrílsláta. Sjálfur vona ég að þeir verði sendir beinustu leið úr landi. Sama gildir um fautana sem ruddust inn á upplýsingaskrifstofu Landsvirkjunar og stálu öllum bæklingunum. Mér er sama hversu léttvægt svona atvik eru, ég mun ekki þola að hrokagikkir frá Bretlandi komi til landsins og haldi að þeir geti haft vit fyrir íslensku landi og þjóð og séu síðan með óeirðir. Svo er það eitt sem ég hef alltaf sagt, það er svo auðvelt að sitja á rassgatinu á sér í Reykjavík, svo ég minnist ekki á erlendis, og vera á móti þessari virkjun. Reyndu að búa á Austfjörðum og horfa á bæinn þinn minnka með hverju árinu þangað til hann er allur horfinn til Reykjavíkur. Er þetta ekki gott framtak í þágu byggðamála að skapa störf fyrir austan? Sjálfum finnst mér það.

Unknown sagði...

Ég ætla rétt að benda þér á það að fólk sem vinnur í sjávarútvegi er að missa vinnu sína sem rekja má til Kárahnjúkavirkjunnar. Gengi krónunnar fer hækkandi og minna verð fæst fyrir fiskinn. Svo hef ég litla trú á því að eitt mengandi álver bjargi öllu fyrir austan. Og það er líka spurning hvort að Íslendingar fáist í svona vinnu. Auk þess er þessi lausn skammvinn og fórnarkostnaður allt of mikill. Betra væri að setja háskóla þarna svo ungt fólt þyrfti ekki að fara til Reykjavíkur eða Akureyrar í háskólanám. Virkjum fólkið.

Og þessir bresku hrokagikkir, eins og þú orðar það, hafa alveg fullan rétt á því að mótmæla. Þetta er eitt stærsta ósnortna víðerni í Evrópu sem við eigum hér og þeir vita það enda eiga þeir ekki svona fallega náttúru eins og við Íslendingar. Það er því mjög eðlilegt að þeir vilji skoða það. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Ég ætla reyndar ekki að verja aðferðirnar enda geta þær spillt fyrir baráttunni.

Nafnlaus sagði...

Jæja Björn Reynir. Ég las bloggin þín og þau eru hið besta mál. En eins og gengur og gerist þá erum við þó ekki sammála í öllu eins og gefur að skilja. Til að mynda kíkti ég út á Kárahnjúka, mánudag eftir verslunarmannahelgi. Ég verð að segja að þó þetta hefði verið ósnortið landslag og svo lengi mætti telja þá þótti mér nú ekki mikið til þess koma. Hafa þá margir bent á það að fáir höfðu heyrt um Kárahnjúka og enn færri farið þangað áður en til þessara virkjannaframkvæmda kom. Þar sem að ég er nú náttúruverndarsinni en þó ekki beint vinstrimaður þá verð ég að segja að það er að sjálfsögðu synd að sökkva svona ósnortinni náttúru. Hinsvegar var einhver partur af mér sem að fannst þetta bara hið besta mál því þessi virkjun mun verða sú aflmesta sem hér á landi hefur verið byggð. Einnig þykja mér þessi öfgafullu mótmæli þ.e að ráðast inn á upplýsingaþjónustu Landsvirkjunnar vera fáránleg og bara til skammar. Mér þætti nú göfugmannlegra að hafa friðsamleg mótmæli.