Fyrir tíu árum, vorið 2003,
fermdist ég í tvennum skilningi ef svo má að orði komast. Ég kaus að staðfesta
trú mína á Guð og Jesús Krist sem leiðtoga lífs míns. Svo staðfesti ég
stjórnmálaskoðanir mínar á svipuðum tíma þegar ég gekk í stjórnmálaflokk, 14
ára gamall (ég þurfti leyfi frá foreldrum mínum til að mega að ganga í
hreyfinguna). Miklar hugsjónir lágu að baki hvoru tveggja en annar
gjörningurinn þótti ósköp hefðbundinn og venjulegur fyrir 14 ára gamlan pilt en
hinn öllu óvenjulegri: Hvers vegna dettur 14 ára dreng að ganga í
stjórnmálaflokk? Jú, kosningar nálguðust og mig langaði að til að leggja mitt
lóð á vogarskálarnar til að vinna að góðum og réttlátum málum í stað þessa að
hafa mjög miklar skoðannir og gera ekki neitt í málunum, þegar valdhafar voru
að gera rangt til. En hvaða hugsjónir voru í farteskinu?
2003: Írak og Kárahnúkar
Sjálfur ólst ég upp við þá
lífsskoðun að maður ætti að elska náungan og gæta bróður síns. Þannig má segja
að lífsskoðun mín standi að einhverju leyti á kristnum grunni. Þá fylgdist ég
með tveimur hitamálum í íslenskum stjórnmálum 2003: Íraksstríðinu og
Kárahnjúkavirkjum. Íslensk stjórnvöld ákváðu að styðja árásarstríð sem byggt
var á blekkingum sem allir, sem vildu, sáu. Tveir menn á Íslandi ákváðu hins
vegar að sjá ekki og styðja stríðið í blindni. Yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar
var á móti.
Kárahnúkjavirkjun var sömuleiðis
umdeild og var ekki að sjá hvort meirihlutiþjóðarinnar væri henni fylgjandi.
Ljóst var hins vegar að virkjuninni átti að koma í gegn, sama hvað. Mikil heift
var í umræðunum þar sem t.d. þáverandi iðnaðarráðherra líkti andstæðingum sínum
við landráð og sú sem átti að teljast til umhverfisráðherra sneri við úrskurði skipulagsstofnunnar
því hann hentaði ekki pólitískum markmiðum.
Þegar ég fór að kynna mér fyrir
hvað stjórnmálahreyfingarnar stóðu var aðeins ein sem hafði barist gegn báðum
þessum málum af mikilli staðfestu: Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Það var
því borðleggjandi að taka þátt í starfi hreyfingarinnar til að vinna að
framgangi hugsjónanna. Þá hlaut sú hreyfing líka að njóta þess að hafa staðið
með réttlætinu, eða hvað?
Jú, kosningar nálguðust og
ríkisstjórnarflokkarnir gerðu sitt besta til að beina athygli fólks annað – og
tókst bara nokkuð vel til. Skattalækkanir reyndust töfraorðin í því samhengi og
kepptumst Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylkingin við að lofa sem
lægstu sköttum. Framsóknarflokkurinn var einnig með ás upp í erminni: 90%
húsnæðislán og hélt þar með velli í kosningunum og tókst að hanga í ríkisstjórn
og koma trompinu sínu í gegn. VG tapaði hins vegar þingmanni: þvílík vonbrigði.
Sofið á verðinum,
Eftir því sem að árin liðu var ég
misvirkur í hreyfingunni. Góðærið var í þann mund að fara á flug og þegar ég
byrjaði í menntaskóla varð ég aðeins of upptekinn við að leggja samviskusamlega
nördalegar staðreyndir á minnið og þáttaka mín í stjórnmálastarfi minnkaði
verulega, í raun svo mikið að ég var spurður hvort ég væri gengin í
Samfylkinguna. Í augum menntaskólanema sem týndi sínum gagnrýnu gleraugunum
leit ástandið í þjóðfélaginu bara nokkuð vel, þó vissulega var alltaf óréttlátt
að einhverjir miðaldra karlar fengu fleiri milljónir á mánuði fyrir að sjá um
peninga með einhverjum hætti venjulegum manni væri ekki unnt að skilja, á meðan
að fólkið (mestu leyti konur) sem sáu um heilsu okkar eða að gera okkur að
manneskjum þurftu alltaf að berjast fyrir sæmilegum launum. Svo firrt var nú
samfélagið. Samt sem áður trúði maður því að sjálfstæðisflokkurinn gæti nú séð
til þess að efnahagskerfið væri traust því þegar á öllu er á botnin hvolft er
traust efnahagskerfi stærsta velferðarmálið, líkt og fræg auglýsing
Sjálfstæðismanna sagði.
Og viti menn: Sjálfstæðismenn
settu slagorð sitt í praxis og bara hvolfdu öllu saman. Þeirra hugmyndir
reyndust ekki aðeins óréttláttar heldur bara skaðlegar efnahagskerfinu. Það
sætti ekki furðu að mikil ólga var í samfélaginu og fjöldi fólks mótmælti
(miklu fleiri en maður var vanur að sjá þegar erlendum stríðum eða
náttúruspjöllum var mótmælt). Kom þá meira segja að því að
Sjálfstæðisflokkurinn færi frá völdum í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér.
Loksins fann ég þær hugsjónir sem ég trúi á eiga nokkurn möguleika á að verða
að veruleika. Og hvað þurfi til? Ekkert minna en hrun.
Breyttir tímar. Verða breytingar afturkallaðar?
En það hefur þó ekki reynst svo
auðvelt að koma hugsjónunum í framkvæmd. Vinstristjórnin þurfti jú að greiða úr
flækju kapítalismans til að koma á starfstæku þjóðfélagi og taka til þess
vondar og óvinsælar ákvarðanir. Fylgistap var því nánast óumflýjanlegt þegar
ríkisstjórnin hóf störf. Þrátt fyrir að helsta púðrið hafi farið í að hreinsa
til hefur þó miklu verið áorkað. Það þurft jú vinstristjórn til að samþykkja
ósköp einfalt mannréttindamál á borð við ein hjúskaparlög eða viðurkenna ríki
Palestínumanna, sem kúgaðir hafa verið af Ísrael. Þá sjáum við loksins
náttúruvernd í verki, umbætur í menntakerfi, betri stjórnsýslu þar sem
hagsmunaaðilar eiga síður greiðan aðgang, skattbyrði færð á þá sem geta borið
hana, aukna þróunaraðstoð og svo lengi mætti telja.
Ekki er þó björninn unninn því
enn þarf að glíma við fylgifiska fyrri ríkisstjórnina. Nú síðast fréttum við að
lífríki Lagarfljóts er dáið, þökk sé framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnumm (og
reyndar Samfylkingunni líka, þau geta nú ekki firt sig ábyrgð), hinum sömu og
tala um okkur sem öfgamenn í umhverfismálum. Það er ekki nóg með að
fórnarkostnaðurinn sé að koma í ljós heldur er verið að undirstrika hversu
lítill ávinningurinn er enda kunna álfyrirtækin þá list að koma sér framhjá því
að greiða skatta. Þrátt fyrir nýjustu fréttir hefur skýr vilji komið fram um að
hnekkja á niðurstöðum Rammaátætlunar og ganga enn frekar á náttúruna, þrátt
fyrir að vera nýbúin að fá fyrri ákvörðun í hausinn.
Þá hefur ekki tekist endanlega að
vinna bug á þeim vanda. Skuldavandi heimilanna er sennilega það hugtak sem hæst
hefur verið haldið á lofti eftir hrun. Það er ekki síst umhugsunarvert að
Framóknarflokkurinn hefur stór loforð uppi til að leysa þann vanda sem hann
átti nú stóran þátt í að skapa, bæði með að skapa það viðskiptaumhverfi sem
hrundi og dróg samfélagið með í fallinum og líka með því að koma í gegn ennþá
hærri lánum sem erfitt er að borga. Greinilegt er að framsóknarflokkurinn hefur
ekkert lært af rannsóknarskýrslunni sem benti á að stór loforð sem þjónuðu skamtímahagsmunum
áttu sinn þátt í hruninu. Þá eru sjálfstæðimenn farnir að tala um að baka
kökuna, rétt eins og þeir gerðu áður en að öllu var á botninn hvolft.
Niðurlag
Nú þegar ég hef verið félagi í
hreyfingunni í 10 ár er gaman að líta til baka og hugsa til þess breytinga sem
orðið hafa á íslensku samfélagi þennan áratug. En mig hryllir sömuleiðis við
tilhugsuninni um að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitjist aftur
í ríkisstjórn. Nú árið 2013 er ljóst að þessi sömu flokkar eru með gylliboð að
sama tagi og þau sem varpað var fram árið 2003. Núverandi ríkisstjórn er enn að
glíma við þau vandamál sem þessir flokkar sköpuðu og kemur það spánskt fyrir
sjónir að það eigi nú að refsa þeim fyrir þá viðleitni á meðan að
Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fá að vaða uppi með svipuð loforð
og sömu orðræðu og árið 2003, loforð sem lengi samfélagið í ógöngur þegar þeim var hrint í framkvæmd.
Á þessum tíu árum sem liðið hafa
frá því að ég fermdist hefur trúin á Guð minnkað en trúin á hugsjónirnar
aukist, þó rótin sé hin sama. Það er alltaf mikilvægt að endurskoða hugsjónir
sínar í samhengi við líðandi stund en mikilvægara er þó að glata ekki sjónar á
þeim, sérstaklega ekki þegar lofað er gulli og grænum skógum.